eso2107is — Fréttatilkynning

Nýr sjónauki ESO í La Silla tekur þátt í að verja Jörðina fyrir varhugaverðum smástirnum

27. apríl 2021

Test-Bed Telescope 2 (TBT2, tæknitilraun Geimvísindastofnunar Evrópu sem hýst er í La Silla stjörnustöð ESO í Chile, hefur verið tekinn í notkun. Sjónukinn er hluti af átaki á heimsvísu sem snýst um að finna smástirni sem komast í návígi við Jörðina. Systursjónauki TBT-2 er á norðurhveli og munu báðir vakta himinninn í leit að smástirnum sem Jörðinni gæti stafað hætta af. Á sama tíma verður nýr tækja- og hugbúnaður og prófaður fyrir fyrirhugað sjónaukanet sem komið verður upp í framtíðinni.

„Til þess að geta áttað okkur á hættunni sem okkur stafar af varhugaverðum smástirnum í sólkerfinu okkar, þurfum við fyrst að finna þau. TBT verkefnið er skref í þá átt,“ sagði Ivo Saviane, vettvangsstjóri ESO í La Silla stjörnustöðinni í Chile.

Um er að ræða samstarfsverkefni milli European Southern Observatory (ESO) og Geimvísindastofnunar Evrópu (ESA). Verkefninu er ætlað að „prófa og sýna fram á það sem til þarf til að finna og rekja jarðnándarfyrirbæri með einu og sama sjónaukanetinu,“ sagði Clemens Heese yfirmaður sjóntækjasviðs ESA sem hefur umsjón með verkefninu.

TBT-2 sjónaukinn í La SIlla er 56 cm breiður, rétt eins og hliðstæða hans TBT-1 sem ESA hefur umsjón með í Cebreros á Spáni. Sjónaukarnir eru forverar hins fyrirhugaða Flyeye sjónaukanets sem er aðskilið verkefni sem ESA stendur að og gengur út á að finna og rekja hraðfleyg fyrirbæri í geimnum. Flyeye sjónaukanetið verður sjálfvirkt. Hugbúnaður verður notaður til að skipuleggja athuganir í rauntíma og senda að lokum upplýsingar um staðsetningu og aðra eiginleika fyrirbæranna í gagnagrunn. TBT verkefnið á að sýna fram á að bæði hugbúnaðurinn og tækjabúnaðuirnn virki sem skyldi.

„Fyrstu mælingar TBT-2 í La Silla gera okkur kleyft að starfrækja sjónaukana tvo saman og uppfylla þannig markmið verkefnisins,“ sagði Heese.

Þótt hamfaraárekstrar smástirna við Jörðina séu sárasjaldgæfir eru þeir ekki óhugsandi. Í gegnum tíðina hefur Jörðin annað slagið orðið fyrir bæði stórum og smáum árekstrum. Árið 2013 sprakk smástirni yfir borginni Chelyabinsk í Rússlandi sem leiddi til þess að um 1600 manns slösuðust þegar þau fengu yfir sig brak og glerbrot úr byggingum sem urðu fyrir tjóni af völdum höggbylgjunnar. Sá atburður hafði áhrif á vitund fólks um ógnina sem að okkur steðjar af jarðnándarsmástirnum. Stærri fyrirbæri valda meira tjóni en sem betur fer er auðveldara að koma auga á þau, auk þess sem sporbrautir þeirra eru betur þekktar. Áætlað er að enn sé ófundinn mikill fjöldi smærri fyrirbæra sem gætu samt sem áður valdið umtalsverðu tjóni rekist þau á byggð.

Þar koma TBT og, í framtíðinni, Flyeye sjónaukanetið til sögunnar. Þegar netið verður að fullu starfhæft mun það geta skannað næturhiminninn og rakið slóðir hraðfleygra og þar af leiðandi nálægra fyrirbæra og bætir um leið stórlega getu Evrópu til að finna varhugaverð smástirni.

TBT er hluti af alþjóðlegu samstarfi sem snýst um að draga upp eins fullkomna mynd og unnt er af jarðnándarsmástirnum og hættunni sem af þeim stafar. Verkefnið byggir á traustum grunni eldri samstarfsverkefna ESO um verndun Jarðar fyrir vágestum úr geimnum. Bæði ESO og ESA eru virkir þátttakendur í International Asteroid Warning Network sem Sameinuðu þjóðirnar styðja. Margar mælingar þar hafa verið gerðar með sjónaukum ESO. Þannig hefur New Technology Telescope ESO í La Silla til dæmis verið notaður í mælingar á litlum jarðnándarsmástirnum í evrópska NEOShield-2 verkefninu.

Samstarf ESO og ESA er sérlega mikilvægt fyrir rannsóknir á jarðnándarsmástirnum. Þótt TBT sé fyrsta sjónaukaverkefnið sem komið er á fót í samstarfinu hefur ESO aðstoðað ESA við að fylgjast með varhugaverðum smástirnum frá árinu 2014 með hjálp Very Large Telescope í Paranal stjörnustöðinni. Mælingarnar hafa komið að góðu gagni til að útiloka hættuna árekstrum við Jörðina.

Uppsetning og gangsetning TBT2 í La Silla stjörnustöð ESO fór fram undir ströngum kröfum um heilbrigði og öryggi. Stjörnustöðvar ESO hættu störfum tímabundið á síðasta ári vegna COVID-19 faraldursins en hafa hafist á ný með takmörkunum sem tryggja eiga öryggi allra á staðnum.

Frekari upplýsingar

ESO er fremsta fjölþjóðlega stjörnustöð Evrópu og lang öflugasta stjörnustöð heims. Hún nýtur stuðnings 16 landa: Austurríkis, Belgíu, Tékklands, Danmörku, Finnlands, Frakklands, Þýskalands, Ítalíu, Írlands, Hollands, Póllands, Portúgals, Spánar, Svíþjóðar, Sviss og Bretlands, auk gestaþjóðarinnar Chile. ESO heldur úti metnaðarfullum verkefnum sem miða að hönnun, smíði og starfsemi öflugra stjörnustöðva á jörðinni sem gera stjörnufræðingum kleift að gera mikilvægar uppgötvanir. ESO leikur líka lykilhlutverk í að efla og skipuleggja samstarf í stjarnvísindarannsóknum. ESO starfrækir þrjár stjörnuathugunarstöðvar í heimsflokki: La Silla, Paranal og Chajnantor. Á Paranalfjalli starfrækir ESO Very Large Telescope, fullkomnustu stjörnusjónauka heims sem notaðir eru til athugana á sýnilegu ljósi og tvo kortlagningarsjónauka. VISTA er stærsti kortlagningarsjónauki veraldar fyrir innrautt ljós og VLT Survey Telescope er stærsti sjónauki heims sem eingöngu er ætlað að kortleggja himinn í sýnilegu ljósi. ESO er stór þátttakandi í ALMA, stærsta stjarnvísindaverkefni heims. Á Cerro Armazones, skammt frá Paranal, er ESO að smíða 39 metra risasjónauka, Extremely Large Telescope eða ELT sem verður „stærsta auga jarðar“.

Geimvísindastofnun Evrópu (ESA) er geimgátt Evrópu. ESA er alþjóðlegt samstarf ríkja sem sett var á laggirnar árið 1975 með það að markmiði að þróa geimvísindi í Evrópu og tryggja fjárfestingar í geimiðnaði sem gögnuðust Evrópubúum og heiminum öllum. ESA samanstendur af 22 aðildarríkjum: Austurríki, Belgíu, Tékklandi, Danmörku, Eistlandi, Finnlandi, Frakklandi, Þýskalandi, Grikklandi, Ungverjalandi, Írlandi, Ítalíu, Lúxembúrg. Hollandi, Noregi, Póllandi, Portúgal, Rúmeníu, Spáni, Svíþjóð, Sviss og Bretlandi. Slóvenía á aukaaðild. ESA hefur komið á fót formlegu samstarfi við sjö aðildarríki Evrópusambandins. Kanada tekur einnig þátt í nokkrum verkefnum á vegum ESA. ESA heldur utan um verkefni sem eru handan við getu staks Evrópuríkis og vinnur sérstaklega með Evrópusambandinu um Galíleó og Kóperníkusarverkefnin, sem og Eumetsat um þróun veðurtungla. ESA þróar eldflaugar, geimför og aðstöðu á jörðu niðri sem þarf til að halda Evrópu í eldlínu geimiðnaðar. Í dag þróar ESA og skýtur á loft gervitunglum fyrir jarðvísindarannsóknir, leiðsagnarkerfi, fjarskipti og stjarnvísindi, sendir könnunarför út í sólkerfið og geimfara út í geiminn. ESA stendur einnig að hagnýtum verkefnum um þróun þjónustu í fjarkönnun, leiðsagnarkerfum og fjarskiptum.

Tenglar

Tengiliðir

Sævar Helgi Bragason
Stjörnufræðivefurinn
Ísland
Tölvupóstur: eson-iceland@eso.org

Bárbara Ferreira
ESO Media Manager
Garching bei München, Germany
Farsími: +49 151 241 664 00
Tölvupóstur: press@eso.org

ESA Newsroom & Media Relations Office
Tölvupóstur: media@esa.int

Connect with ESO on social media

Þetta er þýðing á fréttatilkynningu ESO eso2107.

Um fréttatilkynninguna

Fréttatilkynning nr.:eso2107is
Nafn:Test-Bed Telescope
Tegund:Unspecified : Technology : Observatory : Telescope
Facility:Test-Bed Telescope

Myndir

Test-Bed Telescope 2 at ESO’s La Silla Observatory
Test-Bed Telescope 2 at ESO’s La Silla Observatory
texti aðeins á ensku
Structure of Test-Bed Telescope 2 is lowered into its dome
Structure of Test-Bed Telescope 2 is lowered into its dome
texti aðeins á ensku
Guiding the structure of the Test-Bed Telescope 2 into place
Guiding the structure of the Test-Bed Telescope 2 into place
texti aðeins á ensku
The Test-Bed Telescope 2 inside its dome during assembly
The Test-Bed Telescope 2 inside its dome during assembly
texti aðeins á ensku
The open dome of the Test-Bed Telescope 2 at La Silla
The open dome of the Test-Bed Telescope 2 at La Silla
texti aðeins á ensku
The Test-Bed Telescope 2 with other La Silla telescopes in the background
The Test-Bed Telescope 2 with other La Silla telescopes in the background
texti aðeins á ensku
The Test-Bed Telescope 2 at sunset
The Test-Bed Telescope 2 at sunset
texti aðeins á ensku
The Test-Bed Telescope 2 dome at night
The Test-Bed Telescope 2 dome at night
texti aðeins á ensku
Location of the Test-Bed Telescope 2 at La Silla
Location of the Test-Bed Telescope 2 at La Silla
texti aðeins á ensku
Image of the Centaurus A galaxy taken during the Test-Bed Telescope first light tests
Image of the Centaurus A galaxy taken during the Test-Bed Telescope first light tests
texti aðeins á ensku

Myndskeið

Testbed Asteroid Hunter Sees First Light (ESOcast 237 Light)
Testbed Asteroid Hunter Sees First Light (ESOcast 237 Light)
texti aðeins á ensku
ESOcast 168: NEOs — Near Earth Objects
ESOcast 168: NEOs — Near Earth Objects
texti aðeins á ensku
Artist's animation of incoming asteroid
Artist's animation of incoming asteroid
texti aðeins á ensku