eso2017is — Fréttatilkynning

Nóbelsverðlaunin í eðlisfræði 2020 veitt fyrir rannsóknir með sjónaukum ESO á risasvartholi Vetrarbrautarinnar

6. október 2020

Reinhard Genzel og Andrea Ghez skipta á milli sín helmingi Nóbelsverðlaunanna í eðlisfræði árið 2020 fyrir uppgötvanir sínar á risasvartholi, Sagittarius A*, í miðju Vetrarbrautarinnar. Genzel er forstöðumaður Max Planck stofnunarinnar í geimeðlisfræði í Þýsklandi og hefur hann ásamt teymi sínu gert mælingar á risasvartholinu í nærri 30 ár með ýmsum mælitækjum á sjónaukum European Southern Observatory (ESO).

Genzel deilir helmingi verðlaunanna með Ghez sem er prófessor við Kaliforníuháskóla í Los Angeles í Bandaríkjunum „fyrir uppgötvun á þéttu fyrirbæri í miðju Vetrarbrautarinnar“. Hinn helmingurinn er veittur Roger Penrose, prófessor við Oxfordháskóla í Bretlandi, „fyrir þá uppgötvun að myndun svarthola er traust spá almennu afstæðiskenningarinnar.“

„Til hamingju allir þrír Nóbelsverðlaunahafar! Við erum í skýjunum með að rannsóknir á risasvartholinu í miðju Vetrarbrautarinnar hafi hlotið Nóbelsverðlaunin í eðlisfræði árið 2020. Við erum ákaflega stolt af því að sjónaukar ESO og stjörnustöðvarnar okkar í Chile hafi leikið lykilhlutverk í uppgötvuninni,“ sagði Xavier Barcons, aðalritari ESO. „Rannsóknir Reinhard Genzel með sjónaukum ESO og Andreu Ghez með Keck sjónaukunum á Hawaii gerðu mögulegar einstakar mælingar á Sagittarius A* sem staðfestu spár almennu afstæðiskenningar Einsteins.“

ESO hefur átt í nánu samstarfi við Genzel og teymi hans í um 30 ár. Frá því snemma á tíunda áratug 20. aldar hefur Genzel og teymi hans unnið með ESO að þróun mælitækja sem eru hönnuð til að rekja slóðir stjarnanna á Sagittarius A* í miðju Vetrarbrautarinnar.

Rannsóknir hófust árið 1992 með SHARP mælitækinu á New Technology Telescope (NTT) í La Silla stjörnustöð ESO í Chile. Hópurinn notaði síðar geysinákvæm mælitæki á Very Large Telescope (VLT) ESO og Very Large Telescope víxlmælinn í Paranal-stjörnustöðinni, þ.e. NACO, SINFONI og GRAVITY til að halda áfram rannsóknum á Sagittarius A*.

Árið 2008, eftir að hafa fylgst með stjörnum sveima um Sagittarius A* í sextán ár, fann teymið bestu sönnunargögnin fyrir því að risasvarthol væri í raun að finna í miðju Vetrarbrautarinnar. Hópar bæði Genzels og Ghez röktu ssérstaklega sporbraut einnar stjörnu, S2, nákvæmlega, sem komst næst svartholinu í maí árið 2018. ESO uppfærði fjölda mælitækja og annan búnað í Paranal til að gera nákvæmar mælingar á staðsetningu og hraða S2 mögulegar. Hópurinn, undir forystu Genzels, komst að raun um að ljósið frá stjörnunni, þegar hún var næst risasvartholinu, hliðraðist eða strekktist yfir á lengri bylgjulengdir. Slík áhrif kallast þyngdarrauðvik og er fyrsta staðfestingin á þeim áhrifum sem almenna afstæðiskenning Einsteins spáir fyrir um að verði í námunda við risasvarthol. Fyrr á þessu ári tilkynnti hópurinn svo um að þau hefðu séð stjörnuna S2 „dansa“ í kringum risasvartholið, sem sýndi að sprobraut hennar er í laginu eins og rósetta. Það eru áhrif sem kallast Schwarzschild-framsókn og kenning Einsteins spáir fyrir um.

Genzel og hópur hans taka þátt í þróun mælitækis sem verður á Extremely Large Telescope sem ESO er með í smíðum þessi misserin í Atacamaeyðimörkinni í Chile. Sjónaukinn mun gera þeim kleift að kanna umhverfi risasvartholsins enn betur.

Frekari upplýsingar

ESO er fremsta fjölþjóðlega stjörnustöð Evrópu og lang öflugasta stjörnustöð heims. Hún nýtur stuðnings 16 landa: Austurríkis, Belgíu, Tékklands, Danmörku, Finnlands, Frakklands, Þýskalands, Ítalíu, Írlands, Hollands, Póllands, Portúgals, Spánar, Svíþjóðar, Sviss og Bretlands, auk gestaþjóðarinnar Chile. ESO heldur úti metnaðarfullum verkefnum sem miða að hönnun, smíði og starfsemi öflugra stjörnustöðva á jörðinni sem gera stjörnufræðingum kleift að gera mikilvægar uppgötvanir. ESO leikur líka lykilhlutverk í að efla og skipuleggja samstarf í stjarnvísindarannsóknum. ESO starfrækir þrjár stjörnuathugunarstöðvar í heimsflokki: La Silla, Paranal og Chajnantor. Á Paranalfjalli starfrækir ESO Very Large Telescope, fullkomnustu stjörnusjónauka heims sem notaðir eru til athugana á sýnilegu ljósi og tvo kortlagningarsjónauka. VISTA er stærsti kortlagningarsjónauki veraldar fyrir innrautt ljós og VLT Survey Telescope er stærsti sjónauki heims sem eingöngu er ætlað að kortleggja himinn í sýnilegu ljósi. ESO er stór þátttakandi í ALMA, stærsta stjarnvísindaverkefni heims. Á Cerro Armazones, skammt frá Paranal, er ESO að smíða 39 metra risasjónauka, Extremely Large Telescope eða ELT sem verður „stærsta auga jarðar“.

Tenglar

Tengiliðir

Sævar Helgi Bragason
Stjörnufræðivefurinn
Ísland
Farsími: 8961984
Tölvupóstur: eson-iceland@eso.org

Bárbara Ferreira
ESO Public Information Officer
Garching bei München, Germany
Sími: +49 89 3200 6670
Tölvupóstur: pio@eso.org

Connect with ESO on social media

Þetta er þýðing á fréttatilkynningu ESO eso2017.

Um fréttatilkynninguna

Fréttatilkynning nr.:eso2017is
Nafn:Black hole, Sagittarius A*, Sgr A*
Tegund:Unspecified : People : Scientist
Facility:New Technology Telescope, Very Large Telescope, Very Large Telescope Interferometer
Instruments:GRAVITY, NACO, SINFONI

Myndir

The centre of the Milky Way*
The centre of the Milky Way*
texti aðeins á ensku
Professor Reinhard Genzel at the Paranal Observatory
Professor Reinhard Genzel at the Paranal Observatory
texti aðeins á ensku
A laser beam towards the Milky Way's centre*
A laser beam towards the Milky Way's centre*
texti aðeins á ensku
Orbits of stars around black hole at the heart of the Milky Way
Orbits of stars around black hole at the heart of the Milky Way
texti aðeins á ensku
Orbit diagram of S2 around black hole at centre of the Milky Way
Orbit diagram of S2 around black hole at centre of the Milky Way
texti aðeins á ensku

Myndskeið

Testing general relativity at the Galactic Centre — compilation
Testing general relativity at the Galactic Centre — compilation
texti aðeins á ensku