eso2008is — Fréttatilkynning

Sjónauki ESO sér merki um reikistjörnu verða til

Hnútur markar staðsetninguna

20. maí 2020

Mælingar sem gerðar voru með Very Large Telescope ESO (VLT) benda til þess að sólkerfi sé að verða til í kringum stjörnuna AB Aurigae. Í kringum stjörnuna er þétt þyrillaga gas- og rykskífa þar sem sjá má áberandi hnút sem markar þann stað þar sem reikistjarna er líklega að verða til. Hnúturinn gæti verið fyrsta beina sönnunin fyrir reikistjörnu að fæðast.

„Hingað til hafa mörg þúsund fjarreikistjörnur fundist en lítið er vitað um hvernig þær verða til,“ sagði Anthony Boccaletti, sem hafði forystu um rannsóknina, en hann starfar hjá Paris Observatory í Meudon í Frakklandi. Stjörnufræðingar vita að reikistjörnur verða til í rykskífum umhverfis ungar stjörnur eins og AB Aurigae þar sem kalt gas og ryk kastast í kekki. Nýjar mælingar VLT sjónauka ESO, sem greint er frá í tímaritinu Astronomy & Astrophysics hjálpa vísindamönnum að skilja myndunarferlið betur,.

„Við þurfum að skoða mjög ung kerfi til að fanga augnablikið þegar plánetur myndast,“ sagði Boccaletti. Til þessa hafa stjörnufræðingar ekki náð að taka nógu skarpar og djúpar myndir af svo ungum skífum til að sjá hnúta; staðina þar sem plánetur gætu verið að myndast.

Á nýju myndunum sjást glæsilegir gas- og rykþyrlar umhverfis AB Aurigae sem er í 520 ljósára fjarlægð frá Jörðinni í stjörnumerkinu Ökumanninum. Þyrilform af þessu tagi eru fyrstu merkin um reikistjörnur í mótun. Frumreikistjörnurnar ýta gasinu til og valda „röskun á skýinu svo til verða bylgjur, svipað og kjölfar báta á siglingu,“ sagði Emmanuel Di Folco við Astrophysics Laboratory of Bordeaux (LAB) í Frakklandi sem tók einnig þátt í rannsókninni. Þegar plánetan snýst í kringum stjörnuna í miðjunni mótast bylgjurnar í þyrilarma. Bjarti, guli hnúturinn fyrir miðju á myndinni af AB Aurigae, sem er í álíka mikilli fjarlægð frá stjörnunni og Neptúnus er frá sólinni okkar, er eitt þessara svæða sem stjörnufræðingarnir telja að pláneta sé að verða til.

Fyrir nokkrum árum voru gerðar athuganir á AB Aurigae með Atacama Large Millimeter/submillimeter Array (ALMA), sem ESO er þátttakandi í, og fundust þá veitti fyrstu merkin um sólkerfi væri að verða til í kringum stjörnuna. Í gögnum ALMA sáu stjörnufræðingar tvo þyrilarma nálægt stjörnunni í innri hluta skífunnar. Seinna, árið 2019 og snemma árs 2020, tóku Boccaletti og hópur stjörnufræðinga frá Frakklandi, Taívan, Bandaríkjunum og Belgíu, enn skýrari mynd af stjörnunni með SPHERE mæitækinu á VLT sjónauka ESO í Chile. Ljósmyndir SPHERE eru þær dýpstu myndir sem teknar hafa verið af AB Aurigae kerfinu til þessa.

Með hjálp SPHERE sáu stjörnufræðingar dauft ljós frá litlum rykkornum og bjarma frá innri hluta skífunnar. Myndirnar staðfestu þyrilarmana sem ALMA hafði mælt áður. Á myndunum sást þó önnur merkilegri myndun: Hnútur sem bendir til þess að pláneta sé að myndast í skífunni. „Líkön um myndun reikistjarna gera ráð fyrir að hnútar geti myndast – einn sem vindur sig inn að braut plánetunnar og hinn út á við – og mætast þar sem plánetan er. Þarna er gas og ryk úr skífunni að safnast saman á reikistjörnuna sem vex fyrir vikið,“ sagði Anne Dutrey, einnig hjá LAB.

ESO byggir nú annan risasjónauka, 39 metra Extremely Large Telescope, sem mun fylgja eftir mælingum ALMA og SPHERE á öðrum sólkerfum. Boccaletti segir að þessi öflugi sjónauki muni gera stjörnufræðingum kleift að fá enn nákvæmari mynd af reikistjörnum í fæðingum. „Við ættum að geta séð með enn nákvæmari hætti hvernig tilfærsla gass leiðir til myndunar reikistjarna,“ sagði hann að lokum.

Frekari upplýsingar

Greint er frá rannsókninni í greininni „Are we witnessing ongoing planet formation in AB Aurigae? A showcase of the SPHERE/ALMA synergy“ sem birtist í Astronomy & Astrophysics (doi: 10.1051/0004-6361/202038008).

Í rannsóknarteyminu eru A. Boccaletti (LESIA, Observatoire de Paris, Université PSL, CNRS, Sorbonne Université, Univ. Paris Diderot, Sorbonne Paris Cité, CNRS, France), E. Di Folco (Laboratoire d’Astrophysique de Bordeaux, Université de Bordeaux, CNRS, France [Bordeaux]), E. Pantin (Laboratoire CEA, IRFU/DAp, AIM, Université Paris-Saclay, Université Paris Diderot, Sorbonne Paris Cité, CNRS, France), A. Dutrey (Bordeaux), S. Guilloteau (Bordeaux), Y. W. Tang (Academia Sinica, Institute of Astronomy and Astrophysics, Taipei, Taiwan), V. Piétu (IRAM, Domaine Universitaire, France), E. Habart (Institut d’astrophysique spatiale, CNRS UMR 8617, Université Paris-Sud 11, France), J. Milli (CNRS, IPAG, Univ. Grenoble Alpes, France), T. L. Beck (Space Telescope Science Institute, Baltimore, MD, USA), og A.-L. Maire (STAR Institute, Université de Liège, Belgium).

ESO er fremsta fjölþjóðlega stjörnustöð Evrópu og lang öflugasta stjörnustöð heims. Hún nýtur stuðnings 16 landa: Austurríkis, Belgíu, Tékklands, Danmörku, Finnlands, Frakklands, Þýskalands, Ítalíu, Írlands, Hollands, Póllands, Portúgals, Spánar, Svíþjóðar, Sviss og Bretlands, auk gestaþjóðarinnar Chile. ESO heldur úti metnaðarfullum verkefnum sem miða að hönnun, smíði og starfsemi öflugra stjörnustöðva á jörðinni sem gera stjörnufræðingum kleift að gera mikilvægar uppgötvanir. ESO leikur líka lykilhlutverk í að efla og skipuleggja samstarf í stjarnvísindarannsóknum. ESO starfrækir þrjár stjörnuathugunarstöðvar í heimsflokki: La Silla, Paranal og Chajnantor. Á Paranalfjalli starfrækir ESO Very Large Telescope, fullkomnustu stjörnusjónauka heims sem notaðir eru til athugana á sýnilegu ljósi og tvo kortlagningarsjónauka. VISTA er stærsti kortlagningarsjónauki veraldar fyrir innrautt ljós og VLT Survey Telescope er stærsti sjónauki heims sem eingöngu er ætlað að kortleggja himinn í sýnilegu ljósi. ESO er stór þátttakandi í ALMA, stærsta stjarnvísindaverkefni heims. Á Cerro Armazones, skammt frá Paranal, er ESO að smíða 39 metra risasjónauka, Extremely Large Telescope eða ELT sem verður „stærsta auga jarðar“.

Atacama Large Millimeter/submillimeter Array (ALMA), alþjóðleg stjörnustöð, er samstarfsverkefni ESO, National Science Foundation (NSF) í Bandaríkjunum og National Institutes of Natural Sciences (NINS) í Japan, í samvinnu við Chile. ALMA er fjármögnuð af ESO fyrir hönd aðildarríkja þess, af NSF í samstarfi við National Research Council of Canada (NRC) og National Science Council of Taiwan (NSC) og NINS í samvinnu við Academia Sinica (AS) í Taívan og Korea Astronomy and Space Science Institute (KASI). ESO sér um smíði og rekstur ALMA fyrir hönd aðildarríkjanna en National Radio Astronomy Observatory (NRAO), sem lýtur stjórn Associated Universities, Inc. (AUI), fyrir hönd Norður Ameríku og National Astronomical Observatory of Japan (NAOJ) fyrir hönd austur Asíu. Samþætt stjórnun á smíði, prófun og rekstri ALMA er í umsjá Joint ALMA Observatory (JAO).

Tenglar

Tengiliðir

Sævar Helgi Bragason
Stjörnufræðivefurinn
Ísland
Tölvupóstur: saevarhb@gmail.com

Anthony Boccaletti
Laboratory for Space Science and Astrophysical Instrumentation (LESIA), Observatoire de Paris - PSL
Meudon, France
Farsími: +33 (0)675465583
Tölvupóstur: anthony.boccaletti@observatoiredeparis.psl.eu

Emmanuel Di Folco
Astrophysics Laboratory of Bordeaux (LAB)
Bordeaux, France
Farsími: +33 (0)633966142
Tölvupóstur: emmanuel.difolco@u-bordeaux.fr

Anne Dutrey
Astrophysics Laboratory of Bordeaux (LAB)
Bordeaux, France
Tölvupóstur: anne.dutrey@u-bordeaux.fr

Bárbara Ferreira
ESO Public Information Officer
Garching bei München, Germany
Sími: +49 89 3200 6670
Farsími: +49 151 241 664 00
Tölvupóstur: pio@eso.org

Connect with ESO on social media

Þetta er þýðing á fréttatilkynningu ESO eso2008.

Um fréttatilkynninguna

Fréttatilkynning nr.:eso2008is
Nafn:AB Aurigae
Tegund:Milky Way : Star : Type : Variable
Facility:Atacama Large Millimeter/submillimeter Array, Very Large Telescope
Instruments:SPHERE
Science data:2020A&A...637L...5B

Myndir

SPHERE image of the disc around AB Aurigae
SPHERE image of the disc around AB Aurigae
texti aðeins á ensku
SPHERE image of the inner disc around AB Aurigae
SPHERE image of the inner disc around AB Aurigae
texti aðeins á ensku
SPHERE images of the AB Aurigae system (side by side)
SPHERE images of the AB Aurigae system (side by side)
texti aðeins á ensku
SPHERE images of the AB Aurigae system (side by side, annotated)
SPHERE images of the AB Aurigae system (side by side, annotated)
texti aðeins á ensku
Location of AB Aurigae in the constellation of Auriga
Location of AB Aurigae in the constellation of Auriga
texti aðeins á ensku
Wide-field view of the region of the sky where AB Aurigae is located
Wide-field view of the region of the sky where AB Aurigae is located
texti aðeins á ensku

Myndskeið

ESOcast 221 Light: ESO Telescope Sees Signs of Planet Birth
ESOcast 221 Light: ESO Telescope Sees Signs of Planet Birth
texti aðeins á ensku
Zooming in to the inner region of the AB Aurigae system
Zooming in to the inner region of the AB Aurigae system
texti aðeins á ensku
Zooming in to AB Aurigae
Zooming in to AB Aurigae
texti aðeins á ensku