eso2002is — Fréttatilkynning

ALMA tekur mynd af afleiðingum samkrullis tveggja stjarna

5. febrúar 2020

Stjörnufræðingar sem notuðu Atacama Large Millimeter/submillimeter Array (ALMA), sem ESO á aðild að, fundu sérkennilegt gasský sem rekja má til samkrulls tveggja stjarna. Önnur stjarnan óx svo að hún gleypti nágranna sinn sem þá hverfiðst inn á við og leiddi til þess að sú fyrrnefnda varpaði frá sér enn meira efni.

Stjörnur eins og við öll breytast með aldrinum og deyja að lokum. Í tilviki stjarna eins og sólarinnar okkar á þessi þróun sér stað þegar vetnið er uppurið í kjarna hennar svo hún þenst út og breytist í bjartan rauðan risa. Á endanum þeytir sólin frá sér ytri lögum sínum út í geiminn svo kjarninn einn situr eftir, heitur og þéttur hvítur dvergur.

„Stjörnukerfið HD 101584 er einstakt að því leyti að „dauðaferlinu“ lauk skyndilega og á undan áætlun á nokkuð tilþrifamikinn hátt þegar risastjarnan gleypti nálæga lágmassastjörnu,“ sagði Hans Olofsson, stjörnufræðingur við Tækniháskólann í Chalmers í Svíþjóð, sem hafði umsjón með rannsókninni. Greint er frá niðurstöðum hennar í tímaritinu Astronomy & Astrophysics.

Mælingar ALMA og Atacama Pathfinder Experiment (APEX), sem ESO starfrækir, gerðu Hans og teymi hans kleift að finna út að það sem átti sér í tvístirnakerfinu HD 101584 líktist einna helst slagsmálum tveggja stjarna. Þegar stærri stjarnan þandist út í rauðan risa varð hún nógu stór til þess að gleypa lágmassastjörnuna sem snerist um hana. Við það hringsnerist minni stjarnan inn í átt að risanum án þess þó að rekast á hann. Þess í stað leiddi það til þess að stærri stjarnan hóf að kasta meira efni frá sér svo eftir sat nakinn kjarninn umvafinn gashjúpi.

Að sögn stjörnufræðinganna urðu mynstrin í HD 101584 þokunni til þegar smærri stjarnan féll inn að rauða risanum en líka vegna þeirra gasstróka sem urðu til við það. Bylmingshöggið kom þegar þessir strókar stungust í gegnum efni sem þegar hafði kastast út í geiminn og mynduðu gashring og björtu bláu og rauðleitu bólurnar í þokunni.

Þessi hálfgerði bardagi milli stjarnanna hjálpar stjörnufræðingum að skilja betur þokastigin í þróun stjarna eins og sólarinnar. „Sem stendur getum við lýst dauðastríðinu sem stjörnur á borð við sólina heyja, en við getum ekki útskýrt hvers vegna eða nákvæmllega hvernig þau gerast. HD 101584 gefur okkur mikilvægar vísbendingar til að leysa ráðgátuna þar sem þetta stig er mjög skammvinnt í ævi stjörnu. Með nákvæmum myndum eins og af HD 101584 getum við áttað okkur á tengslunum milli risastjörnunnar eins og hún var áður og leifanna sem hún verður að fljótlega,“ sagði Sofia Ramstedt, meðhöfundur greinarinnar við Uppsalaháskóla í Svíþjóð.

Elizabeth Humphreys, meðhöfundur greinarinnar og stjörnufræðingur hjá ESO, leggur áherslu á að ALMA og APEX; sem eru í Atacamaeyðimörkinni í Chile, gerðu hópnum kleift að rannsaka bæði eðlisfræðina og efnafræðina í gasskýinu. Hún sagði ennfremur að „ekki hefði verið hægt að taka þessa glæsilegu mynd af HD 101584 án upplausnarinnar sem ALMA býður upp á.“

Sjónaukar nútímans gera stjörnufræðingum kleift að rannsaka gasið í kringum tvístirnið en stjörnurnar tvær eru of þétt saman til þess að hægt sé að greina þær í sundur. Olofsson segir að Extremely Large Telescope ESO, sem nú er í smíðum í Atacamaeyðimörkinni í Chile, komi til með að veita frekari upplýsingar um hjarta þokunnar í náinni framtíð.

Frekari upplýsingar

Greint var frá rannsókinni í tímaritinu Astronomy & Astrophysics.

Í teyminu eru H. Olofsson (Department of Space, Earth and Environment, Chalmers University of Technology, Onsala Space Observatory, Svíþjóð [Chalmers]), T. Khouri (Chalmers), M. Maercker (Chalmers), P. Bergman (Chalmers), L. Doan (Department of Physics and Astronomy, Uppsala University, Svíþjóð [Uppsala]), D. Tafoya (National Astronomical Observatory of Japan), W. H. T. Vlemmings (Chalmers), E. M. L. Humphreys (European Southern Observatory [ESO], Garching, Þýskalandi), M. Lindqvist (Chalmers), L. Nyman (ESO, Santiago, Chile), og S. Ramstedt (Uppsala).

Atacama Large Millimeter/submillimeter Array (ALMA), alþjóðleg stjörnustöð, er samstarfsverkefni ESO, National Science Foundation (NSF) í Bandaríkjunum og National Institutes of Natural Sciences (NINS) í Japan, í samvinnu við Chile. ALMA er fjármögnuð af ESO fyrir hönd aðildarríkja þess, af NSF í samstarfi við National Research Council of Canada (NRC) og National Science Council of Taiwan (NSC) og NINS í samvinnu við Academia Sinica (AS) í Taívan og Korea Astronomy and Space Science Institute (KASI). ESO sér um smíði og rekstur ALMA fyrir hönd aðildarríkjanna en National Radio Astronomy Observatory (NRAO), sem lýtur stjórn Associated Universities, Inc. (AUI), fyrir hönd Norður Ameríku og National Astronomical Observatory of Japan (NAOJ) fyrir hönd austur Asíu. Samþætt stjórnun á smíði, prófun og rekstri ALMA er í umsjá Joint ALMA Observatory (JAO).

ESO er fremsta fjölþjóðlega stjörnustöð Evrópu og lang öflugasta stjörnustöð heims. Hún nýtur stuðnings 16 landa: Austurríkis, Belgíu, Tékklands, Danmörku, Finnlands, Frakklands, Þýskalands, Ítalíu, Írlands, Hollands, Póllands, Portúgals, Spánar, Svíþjóðar, Sviss og Bretlands, auk gestaþjóðarinnar Chile. ESO heldur úti metnaðarfullum verkefnum sem miða að hönnun, smíði og starfsemi öflugra stjörnustöðva á jörðinni sem gera stjörnufræðingum kleift að gera mikilvægar uppgötvanir. ESO leikur líka lykilhlutverk í að efla og skipuleggja samstarf í stjarnvísindarannsóknum. ESO starfrækir þrjár stjörnuathugunarstöðvar í heimsflokki: La Silla, Paranal og Chajnantor. Á Paranalfjalli starfrækir ESO Very Large Telescope, fullkomnustu stjörnusjónauka heims sem notaðir eru til athugana á sýnilegu ljósi og tvo kortlagningarsjónauka. VISTA er stærsti kortlagningarsjónauki veraldar fyrir innrautt ljós og VLT Survey Telescope er stærsti sjónauki heims sem eingöngu er ætlað að kortleggja himinn í sýnilegu ljósi. ESO er stór þátttakandi í ALMA, stærsta stjarnvísindaverkefni heims. Á Cerro Armazones, skammt frá Paranal, er ESO að smíða 39 metra risasjónauka, Extremely Large Telescope eða ELT sem verður „stærsta auga jarðar“.

Tenglar

Tengiliðir

Sævar Helgi Bragason
Stjörnufræðivefurinn
Ísland
Tölvupóstur: eson-iceland@eso.org

Hans Olofsson
Chalmers University of Technology
Onsala, Sweden
Sími: +46 31 772 5535
Tölvupóstur: hans.olofsson@chalmers.se

Elizabeth Humphreys
European Southern Observatory (ESO)
Santiago, Chile
Sími: +56 2 2463 6912
Tölvupóstur: ehumphre@eso.org

Sofia Ramstedt
Uppsala University
Uppsala, Sweden
Sími: +46 18 471 5970
Tölvupóstur: sofia.ramstedt@physics.uu.se

Bárbara Ferreira
ESO Public Information Officer
Garching bei München, Germany
Sími: +49 89 3200 6670
Farsími: +49 151 241 664 00
Tölvupóstur: pio@eso.org

Connect with ESO on social media

Þetta er þýðing á fréttatilkynningu ESO eso2002.

Um fréttatilkynninguna

Fréttatilkynning nr.:eso2002is
Nafn:HD101584
Tegund:Milky Way : Star : Evolutionary Stage : Red Giant
Milky Way : Star : Grouping : Binary
Facility:Atacama Large Millimeter/submillimeter Array
Science data:2019A&A...623A.153O

Myndir

ALMA image of HD101584
ALMA image of HD101584
texti aðeins á ensku
Location of HD101584 in the constellation of Centaurus
Location of HD101584 in the constellation of Centaurus
texti aðeins á ensku
Wide-field view of the region of the sky where HD101584 is located
Wide-field view of the region of the sky where HD101584 is located
texti aðeins á ensku

Myndskeið

ESOcast 216 Light: ALMA Catches Beautiful Outcome of Stellar Fight
ESOcast 216 Light: ALMA Catches Beautiful Outcome of Stellar Fight
texti aðeins á ensku
Zooming into HD101584
Zooming into HD101584
texti aðeins á ensku