eso1903is — Fréttatilkynning

Bólur úr glænýjum stjörnum

6. febrúar 2019, Hafnarfjordur

Multi Unit Spectroscopic Explorer (MUSE) mælitækið á Very Large Telescope ESO tók þessa mynd af glæsilegu a stjörnumyndunarsvæði í Stóra Magellansskýinu. Í Stóra Magellansskýinu er tiltölulega lítið af ryki en það, auk greinigæða MUSE, gerði stjörnufræðingum kleift að greina smáatriði í skýinu.

Á þessari mynd sem tekin var með Multi Unit Spectroscopic Explorer (MUSE) mælitækinu á Very Large Telescope (VLT) ESO sést fallegt og litríkt svæði í Stóra Magellansskýinu. Það nefnist LHA 120-N 180B – N180 B til styttingar – og er tegund geimþoku sem kallast rafað vetnisský en þar eru stjörnur að fæðast.

Stóra Magellansskýið er fylgivetrarbraut okkar og sést aðallega frá suðurhveli Jarðar. Það er í aðeins um 160.000 ljósára fjarlægð frá Jörðinni, nánast í næsta bakgarði. Eini þyrilarmur Stóra Magellansskýsins liggur nánast beint við okkur sem gerir okkur auðvelt fyrir að rannsaka svæði eins og N180 B.

Röfuð vetnisský eru miðgeimsský úr jónuðu vetni – kjörnum vetnisatóma. Slík svæði eru stjörnuhreiður – og stjörnurnar nýfæddu jóna gasið í kring sem gerir það svona glæsilegt. N180 B er risavaxin kúla úr jónuðu vetni en í kring eru fjórar minni kúlur.

Djúpt í þessu glóandi skýi hefur MUSE fundið strók frá ungri efnismikilli stjörnu sem er tólf sinnum massameiri en sólin. Strókurinn allast Herbig-Haro 1177 eða HH 1177 og sést í allri sinni dýrð á meðfylgjandi mynd. Þetta er í fyrsta sinn sem strókur af þessu tagi hefur sést í sýnilegu ljósi fyrir utan Vetrarbrautina okkar, þar sem þeir eru jafnan huldir ryki. Í Stóra Magellanskský er ekki mjög mikið ryk svo hægt er að kanna HH 1177 í sýnilegu ljósi. Hann er næstum 33 ljósár á lengd og því með lengstu strókum sem sést hafa.

HH 1177 veitir okkur upplýsingar um fyrstu æviár stjarna. Strókurinn er mjög samstilltur, þ.e. hann dreifist nánast ekkert á útleið sinni. Strókar á borð við þennan tengjast aðsópskringlum stjarnanna og geta varpað ljósi á hvernig stjarnan unga sankar að sér efni. Stjörnufræðingar hafa komist að því að bæði há- og lágmassa stjörnur gefa frá sér stróka eins og HH 1177 á svipaðan hátt – sem bendir til þess að efnismiklar stjörnur myndist á svipaðan hátt og lágmassastjörnur.

MUSE mælitækið hefur nýlega verið uppfært með Adaptive Optics Facility, aðlögunarsjóntækjabúnaði sem tekinn var í notkun árið 2017. Með aðlögunarsjóntækjum geta sjónaukar ESO leiðrétt ókyrrðina í lofthjúpi jarðar sem gerir myndir óskýrar og þannig gert þær skarpar. Eftir að þessi mynd var tekin fékk MUSE Narrow Field Mode sem gefur tækinu álíka skarpa sjón og Hubble geimsjónauki NASA og ESA – og þannig möguleikann á að kanna alheiminn í meiri smáatriðum en nokkru sinni fyrr.

Frekari upplýsingar

Greint er frá þessari rannsókn í greininni „An optical parsec-scale jet from a massive young star in the Large Magellanic Cloud“ sem birtist í tímaritinu Nature.

Í rannsóknarteyminu eru A. F. McLeod (sem gerði rannsóknina á meðan hann var í University of Canterbury, Nýja Sjálandi og er nú í Department of Astronomy, University of California, Berkeley, og Department of Physics and Astronomy, Texas Tech University, Bandaríkjunum), M. Reiter (Department of Astronomy, University of Michigan, Ann Arbor, Bandaríkjunum), R. Kuiper (Institute of Astronomy and Astrophysics, University of Tübingen, Þýskalandi), P. D. Klaassen (UK Astronomy Technology Centre, Royal Observatory Edinburgh, Bretlandi) og C. J, Evans (UK Astronomy Technology Centre, Royal Observatory Edinburgh, Bretlandi).

ESO er fremsta fjölþjóðlega stjörnustöð Evrópu og lang öflugasta stjörnustöð heims. Hún nýtur stuðnings 16 landa: Austurríkis, Belgíu, Tékklands, Danmörku, Finnlands, Frakklands, Þýskalands, Ítalíu, Írlands, Hollands, Póllands, Portúgals, Spánar, Svíþjóðar, Sviss og Bretlands, auk gestaþjóðarinnar Chile. ESO heldur úti metnaðarfullum verkefnum sem miða að hönnun, smíði og starfsemi öflugra stjörnustöðva á jörðinni sem gera stjörnufræðingum kleift að gera mikilvægar uppgötvanir. ESO leikur líka lykilhlutverk í að efla og skipuleggja samstarf í stjarnvísindarannsóknum. ESO starfrækir þrjár stjörnuathugunarstöðvar í heimsflokki: La Silla, Paranal og Chajnantor. Á Paranalfjalli starfrækir ESO Very Large Telescope, fullkomnustu stjörnusjónauka heims sem notaðir eru til athugana á sýnilegu ljósi og tvo kortlagningarsjónauka. VISTA er stærsti kortlagningarsjónauki veraldar fyrir innrautt ljós og VLT Survey Telescope er stærsti sjónauki heims sem eingöngu er ætlað að kortleggja himinn í sýnilegu ljósi. ESO er stór þátttakandi í ALMA, stærsta stjarnvísindaverkefni heims. Á Cerro Armazones, skammt frá Paranal, er ESO að smíða 39 metra risasjónauka, Extremely Large Telescope eða ELT sem verður „stærsta auga jarðar“.

Tenglar

Tengiliðir

Sævar Helgi Bragason
Stjörnufræðivefurinn
Iceland
Tölvupóstur: eson-iceland@eso.org

Anna McLeod
Postdoctoral Research Fellow — Texas Tech University & University of California Berkeley
Sími: +1 80 6834 2588
Tölvupóstur: anna.mcleod@ttu.edu

Calum Turner
ESO Public Information Officer
Garching bei München, Germany
Sími: +49 89 3200 6670
Tölvupóstur: pio@eso.org

Connect with ESO on social media

Þetta er þýðing á fréttatilkynningu ESO eso1903.

Um fréttatilkynninguna

Fréttatilkynning nr.:eso1903is
Nafn:LHA 120-N 180B
Tegund:Local Universe : Nebula : Type : Star Formation
Facility:Very Large Telescope
Instruments:MUSE
Science data:2018Natur.554..334M

Myndir

Bubbles of Brand New Stars
Bubbles of Brand New Stars
texti aðeins á ensku
Jumbo Jets
Jumbo Jets
texti aðeins á ensku
Digitized Sky Survey image around the HII region LHA 120-N 180B
Digitized Sky Survey image around the HII region LHA 120-N 180B
texti aðeins á ensku
The HII region LHA 120-N 180B in the constellation Mensa
The HII region LHA 120-N 180B in the constellation Mensa
texti aðeins á ensku
Jet Infographic
Jet Infographic
texti aðeins á ensku

Myndskeið

ESOcast 193 Light: Bubbles of Brand New Stars
ESOcast 193 Light: Bubbles of Brand New Stars
texti aðeins á ensku
Zooming in on the HII Region LHA 120-N 180B
Zooming in on the HII Region LHA 120-N 180B
texti aðeins á ensku
Panning across N180
Panning across N180
texti aðeins á ensku