eso1828is — Fréttatilkynning

Stjörnur og ryk í Kjalarþokunni

VISTA skyggnist með innrauðu ljósi inn í eina stærstu geimþoku Vetrarbrautarinnar

29. ágúst 2018

Kjalarþokan, ein stærsta og bjartasta geimþokan á næturhimninum, sést hér á þessari glæsilegu mynd sem tekin var með VISTA sjónaukanum í Paranal stjörnustöðinni í Chile. VISTA nemur innrautt ljós og getur því skyggnst í gegnum heitt gas og dimmt ryk í þokunni og sýnt okkur fjölda stjarna, bæði nýfæddar og í andarslitrunum.

Í um 7500 ljósára fjarlægð frá jörðinni, í stjörnumerkinu Kilinum, er geimþoka þar sem stjörnur bæði fæðast og deyja. Slíkir atburðir setja mark sitt á Kjalarþokuna svo hún er dýnamískt og síbreytilegt ský úr þunnu miðgeimsgasi og -ryki.

Efnismiklu stjörnurnar í skýinu gefa frá sér orkuríka geislun sem veldur því að gasið í kring byrjar að glóa. Önnur svæði eru dökkleit en í þeim eru nýfæddar stjörnur huldar sjónum okkar. Milli ryksins og stjarnanna í Kjalarþokunni ríkir hálfgerð orrusta og eru nýfæddu stjörnurnar að sigra. Geislunin og stjörnuvindarnir frá þeim vledur því að gasið og rykið fýkur burt af svæðinu sem skóp þær.

Kjalarþokan er um 300 ljósár í þvermál og því með stærstu stjörnumyndunarsvæðum Vetrarbrautarinnar. Hún sést leikandi með berum augum við góðar aðstæður, en aðeins frá suðurhveli jarðar.

Í Kjalarþokunni er stjarnan Eta Carinae sú sérkennilegasta. Hún er tröllaukin, raunar ekki ein stjarna heldur tvær orkuríkustu stjörnur svæðisins. Um miðja 19. öld varð stjarnan eitt bjartasta fyrirbæri himins en síðan hefur hún dofnað mjög. Stjarnan nálgast ævilok og er ein efnismesta og bjartasta í Vetrarbrautinni.

Eta Carinae er bjarti ljósdepillinn rétt undir „V“ laga rykskýjunum á myndinni. Hægra megin við Eta Carinae er Skráargatsþokan – lítið þétt ský úr köldum sameindum og gasi í Kjalarþokunni – sem geymir nokkrar efnismiklar stjörnur en útlit hennar hefur tekið nokkrum breytingum á liðnum öldum.

Upp úr 1750 fann Nicolas Louis de Lacaille Kjalarþokuna frá Góðrarvonarhöfða. Síðan hafa mörg þúsund myndir verið teknar af henni. VISTA – Visible and Infrared Survey Telescope for Astronomy — gefur framúrskarandi nákvæma mynd af svæðinu í innrauðu ljósi og afhjúpar um leið fjölda ungra stjarna sem eru sveipaðar ryki. Árið 2014 var VISTA notaður til þess að finna nærri fimm milljón stakar uppsprettur innrauðs ljóss í þokunni sem sýndi glöggt hversu öflug framleiðsla stjarna fer þar fram. VISTA er heimsins stærsti innrauði sjónauki sem helgaður er kortlagningarverkefnum en stór safnspegill hans, vítt sjónsvið og næm mælitæki gera stjörnufræðingum [1] kleift að öðlast nýja sýn á suðurhiminninn.

Skýringar

[1] Jim Emerson (School of Physics & Astronomy, Queen Mary University of London) hafði umsjón með rannsókninni sem þessi mynd var tekin fyrir. Samstarfsmenn hans voru Simon Hodgkin og Mike Irwin (Cambridge Astronomical Survey Unit, Cambridge University, Bretlandi). Gagnaúrvinnsla var í höndum Mike Irwin og Jim Lewis (Cambridge Astronomical Survey Unit, Cambridge University, Bretlandi).

Frekari upplýsingar

ESO er fremsta fjölþjóðlega stjörnustöð Evrópu og lang öflugasta stjörnustöð heims. Hún nýtur stuðnings 16 landa: Austurríkis, Belgíu, Tékklands, Danmörku, Finnlands, Frakklands, Þýskalands, Ítalíu, Hollands, Póllands, Portúgals, Spánar, Svíþjóðar, Sviss og Bretlands, auk gestaþjóðarinnar Chile. ESO heldur úti metnaðarfullum verkefnum sem miða að hönnun, smíði og starfsemi öflugra stjörnustöðva á jörðinni sem gera stjörnufræðingum kleift að gera mikilvægar uppgötvanir. ESO leikur líka lykilhlutverk í að efla og skipuleggja samstarf í stjarnvísindarannsóknum. ESO starfrækir þrjár stjörnuathugunarstöðvar í heimsflokki: La Silla, Paranal og Chajnantor. Á Paranalfjalli starfrækir ESO Very Large Telescope, fullkomnustu stjörnusjónauka heims sem notaðir eru til athugana á sýnilegu ljósi og tvo kortlagningarsjónauka. VISTA er stærsti kortlagningarsjónauki veraldar fyrir innrautt ljós og VLT Survey Telescope er stærsti sjónauki heims sem eingöngu er ætlað að kortleggja himinn í sýnilegu ljósi. ESO er stór þátttakandi í ALMA, stærsta stjarnvísindaverkefni heims. Á Cerro Armazones, skammt frá Paranal, er ESO að smíða 39 metra risasjónauka, Extremely Large Telescope eða ELT sem verður „stærsta auga jarðar“.

Tenglar

Tengiliðir

Sævar Helgi Bragason
Stjörnufræðivefurinn
Ísland
Tölvupóstur: eson-iceland@eso.org

Jim Emerson
School of Physics & Astronomy, Queen Mary University of London
London, UK
Tölvupóstur: j.p.emerson@qmul.ac.uk

Calum Turner
Public Information Officer
Garching bei München, Germany
Sími: +49 89 3200 6670
Tölvupóstur: pio@eso.org

Connect with ESO on social media

Þetta er þýðing á fréttatilkynningu ESO eso1828.

Um fréttatilkynninguna

Fréttatilkynning nr.:eso1828is
Nafn:Carina Nebula
Tegund:Milky Way : Nebula
Facility:Visible and Infrared Survey Telescope for Astronomy
Instruments:VIRCAM

Myndir

The Carina Nebula in infrared light
The Carina Nebula in infrared light
texti aðeins á ensku
A wider view of the Carina Nebula
A wider view of the Carina Nebula
texti aðeins á ensku
Digitized Sky Survey image of Eta Carinae Nebula
Digitized Sky Survey image of Eta Carinae Nebula
texti aðeins á ensku
The Carina Nebula in the constellation of Carina
The Carina Nebula in the constellation of Carina
texti aðeins á ensku

Myndskeið

ESOcast 175 Light: Stars and Dust in the Carina Nebula (4K UHD)
ESOcast 175 Light: Stars and Dust in the Carina Nebula (4K UHD)
texti aðeins á ensku
3D view of the Carina Nebula
3D view of the Carina Nebula
texti aðeins á ensku
Zoom into the Carina Nebula
Zoom into the Carina Nebula
texti aðeins á ensku
Pan across the Carina Nebula
Pan across the Carina Nebula
texti aðeins á ensku