eso1816is — Fréttatilkynning

Í nágrenni Tarantúlunnar

30. maí 2018, Hafnarfjordur

Í fylgivetrarbraut okkar, Stóra Magellansskýinu sem er í um 160.000 ljósára fjarlægð frá Jörðinni, skín Tarantúluþokan skært. Þessi glæsilega mynd af henni var tekin með VLT Survey Telescope í Paranal stjörnustöð ESO í Chile. Á myndinni sjást einstök smáatriði í þokunni. Þar glóa gasský, sprengistjörnuleifar og þyrpingar nýfæddra stjarna en myndin er sú skarpasta sem tekin hefur verið af svæðinu.

Stjörnufræðingar nýttu sér VLT Survey Telescope (VST) í Paranal stjörnustöð ESO í Chile til að taka þessa tilkomumiklu mynd af Tarantúluþokunni, auk annarra þoka og þyrpinga í nágrenni hennar. Tarantúluþokan gengur líka undir nafninu 30 Doradus og er hún bæði bjartasta og virkasta stjörnumyndunarsvæðið í Grenndarhópnum, hópi vetrarbrauta sem við tilheyrum.

Tarantúluþokan er efst á myndinni. Hún nær yfir nærri 1000 ljósára breitt svæði og er að finna í stjörnumerkinu Sverðfisknum á suðurhveli himins. Þokan tilheyrir Stóra Magellansskýinu sem er um 14.000 ljósára breið dvergvetrarbraut. Stóra Magellansskýið er ein nálægasta vetrarbrautin við okkur.

Í kjarna Tarantúluþokunnar er ung og risavaxin þyrping stjarna sem kallast NGC 2070. Þyrpingin varð til við hrinu stjörnumyndunar í. Í miðju þyrpingarinnar er R136 en er að finna nokkrar af efnismestu og björtustu stjörnum sem vitað er um. Franski stjörnufræðingurinn Nicolas-Louis de Lacaille uppgötvaði þokuna árið 1751.

Í Tarantúluþokunni er önnur mun eldri stjörnuþyrpin, Hodge 301. Í henni hafa að minnsta kosti 40 stjörnur sprungið og dreift gasi sínu um svæði. Dæmi um sprengistjörnuleifina er risabólan SNR N157B sem umlykur lausþyrpinguna NGC 2060. Breski stjörnufræðingurinn John Herschel bar hana fyrstur augum árið 1836 með 18,6 tommu spegilssjónauka frá Góðrarvonarhöfða í Suður Afríku. Í útjaðri Tarantúluþokunna, neðarlega hægra megin, sjást leifar hinnar frægu sprengistjörnu SN 1987A [1].

Vinstra megin við Tarantúluþokuna er björt lausþyrping stjarna sem kallast NGC 2100 en þar má sjá bjartan hóp blárra stjarna umkringdar rauðum stjörnum. Skoski stjörnufræðingurinn James Dunlop uppgötvaði þyrpinguna árið 1826 frá Ástralíu og notaði til þess heimasmíðaðan 9 tommu spegilssjónauka.

Á miðri mynd er stjörnuþyrpingin og ljómþokan NGC 2074, annað efnismikið stjörnumyndunarsvæði sem John Herschel fann. Þegar betur er að gáð sést sæhestalöguð rykslæða eða Sæheisturinn í Stóra Magellansskýinu. Þessi risavaxni rykstólpi er tæplega 20 ljósár að lengd, næstum fimmfalt lengri en bilið milli sólar og Alfa Centauri, nálægustu stjörnunnar við sólkerfið okkar. Stólpinn kemur til með að hverfa á næstu milljón árum þegar stjörnur myndast sem munu feykja burt rykinu.

Myndin var tekin með 256 megapixla myndavélinni OmegaCAM á VST. Myndir voru teknar í gegnum fjórar mismunandi litsíur, þar á meðal eina sem hleypir aðeins í gegn rauðum bjarma glóandi vetnis [2].

Skýringar

[1] SN 1987A var fyrsta sprengistjarnan sem var rannsökuð með nútíma sjónaukum og sú bjartasta frá því að sprengistjarna Keplers sást á himni árið 1604. SN 1987A var svo skær að hún skein með afli 100 milljón sóla í nokkra mánuði eftir að hún sást fyrst hinn 23. febrúar 1987.

[2] Vetnis-alfa línan er rauð litrófslína sem verður til þegar rafeind í vetnisatómi missir orku. Þetta gerist í vetni í kringum heitar, ungar stjörnur þegar gasið jónast af völdum orkuríkrar útfjólublárrar geislunar og rafeindirnar bindast aftur við róteindirnar. OmegaCAM getur numið þessa línu og þannig hjálpað stjörnufræðingum að skilja hvað er að gerast í risavöxnum sameindaskýjum sem stjörnur og plánetur myndast úr.

Frekari upplýsingar

ESO er fremsta fjölþjóðlega stjörnustöð Evrópu og lang öflugasta stjörnustöð heims. Hún nýtur stuðnings 16 landa: Austurríkis, Belgíu, Tékklands, Danmörku, Finnlands, Frakklands, Þýskalands, Ítalíu, Hollands, Póllands, Portúgals, Spánar, Svíþjóðar, Sviss og Bretlands, auk gestaþjóðarinnar Chile. ESO heldur úti metnaðarfullum verkefnum sem miða að hönnun, smíði og starfsemi öflugra stjörnustöðva á jörðinni sem gera stjörnufræðingum kleift að gera mikilvægar uppgötvanir. ESO leikur líka lykilhlutverk í að efla og skipuleggja samstarf í stjarnvísindarannsóknum. ESO starfrækir þrjár stjörnuathugunarstöðvar í heimsflokki: La Silla, Paranal og Chajnantor. Á Paranalfjalli starfrækir ESO Very Large Telescope, fullkomnustu stjörnusjónauka heims sem notaðir eru til athugana á sýnilegu ljósi og tvo kortlagningarsjónauka. VISTA er stærsti kortlagningarsjónauki veraldar fyrir innrautt ljós og VLT Survey Telescope er stærsti sjónauki heims sem eingöngu er ætlað að kortleggja himinn í sýnilegu ljósi. ESO er stór þátttakandi í ALMA, stærsta stjarnvísindaverkefni heims. Á Cerro Armazones, skammt frá Paranal, er ESO að smíða 39 metra risasjónauka, Extremely Large Telescope eða ELT sem verður „stærsta auga jarðar“.

Tenglar

Tengiliðir

Sævar Helgi Bragason
Stjörnufræðivefurinn
Iceland
Farsími: 8961984
Tölvupóstur: eson-iceland@eso.org

Richard Hook
ESO Public Information Officer
Garching bei München, Germany
Sími: +49 89 3200 6655
Farsími: +49 151 1537 3591
Tölvupóstur: rhook@eso.org

Connect with ESO on social media

Þetta er þýðing á fréttatilkynningu ESO eso1816.

Um fréttatilkynninguna

Fréttatilkynning nr.:eso1816is
Nafn:Tarantula Nebula
Tegund:Local Universe : Star : Grouping : Cluster
Local Universe : Nebula
Facility:VLT Survey Telescope
Instruments:OmegaCAM

Myndir

The rich region around the Tarantula Nebula in the Large Magellanic Cloud
The rich region around the Tarantula Nebula in the Large Magellanic Cloud
texti aðeins á ensku
Tarantula Nebula region in the constellation of Doradus
Tarantula Nebula region in the constellation of Doradus
texti aðeins á ensku
The rich region around the Tarantula Nebula in the Large Magellanic Cloud (annotated)
The rich region around the Tarantula Nebula in the Large Magellanic Cloud (annotated)
texti aðeins á ensku

Myndskeið

ESOcast 162 Light: A Crowded Neighbourhood (4K UHD)
ESOcast 162 Light: A Crowded Neighbourhood (4K UHD)
texti aðeins á ensku
Zooming in on the Tarantula Nebula
Zooming in on the Tarantula Nebula
texti aðeins á ensku