eso1804is — Fréttatilkynning

Sigur ljóssins á myrkrinu

31. janúar 2018

Á þessari glæsilegu víðmynd sést dökkt ský úr geimryki, lýst upp af nýjum og skærum stjörnum. Skýið þétta er stjörnumyndunarsvæði sem kallast Lupus 3 og í því eru funheitar stjörnur að fæðast úr geimefninu. Myndin var búin til úr ljósmyndum sem teknar voru með VLT Survey Telescope (VST) og 2,2 metra MPG/ESO sjónaukanum og er hún sú nákvæmasta sem tekin hefur verið af svæðinu til þessa.

Lupus 3 er stjörnumyndunarsvæði í aðeins 600 ljósára fjarlægð frá Jörðinni í stjörnumerkinu Sporðdrekanum. Svæðið er hluti af Lupus skýjunum sem draga nafn sitt af stjörnumerkinu Úlfinum. Skýin líkjast einna helst ólgandi reykjarmekki fyrir framan milljónir stjarna í bakgrunni. Skýin af þessu tagi eru kölluð skuggaþokur.

Geimþokur eru risavaxin ský úr gasi og ryki milli stjarnanna, stundum nokkur hundruð ljósár á breidd. Sterk geislun frá heitum stjörnum lýsir upp flestar geimþokur en skuggaþokurnar hylja ljósið frá stjörnunum innan í þeim. Skuggarþokurnar eru stundum líka kallaðar gleypiþokur vegna þess að þær eru úr köldum og þéttum rykögnum sem gleypa og driefa ljósi áður en það berst í gegnum skýið.

Kolapokinn og Miklaglufa eru fræg dæmi um skuggaþokur en þær eru nógu stórar til þess að sjást með berum augum fyrir framan stjörnuskara Vetrarbrautarinnar.

Lupus 3 er óreglulegt að lögun og minnir kannski einna helst á snák sem bylgjast um himinninn. Á svæðinu eru miklar andstæður með þykkum dökkum rykslæðum og skærum bláum stjörnum. Lupus 3 er virkt stjörnumyndunarsvæði sem samanstendur aðallega af frumstjörnum og mjög ungum stjörnum. Nálægar truflanir geta leitt til þess að skýið kastist í kekki og byrji að falla saman undan eigin þyngdarkrafti sem leiðir til myndunar frumstjarna.

Skæru stjörnurnar tvær á myndinni hafa þegar gengið í gegnum þetta ferli. Fyrr á ævinni huldi þykk geimþokan ljósið frá þeim svo það hefði aðeins verið sýnilegt í innrauðu ljós og á útvarpsbylgjusviðinu. Þegar þær urðu heitari og skærari varð geislunin og stjörnuvindarnir slíkir að gas og ryk fauk burt. Þannig má segja að stjörnurnar hafi brotist út úr þokunni og afhjúpað sig sjálfar.

Nauðsynlegt er að skilja geimþokur til að átta sig á ferlinu sem myndar stjörnur. Þannig er talið að sólin okkar hafi orðið til í samskonar stjörnumyndunarsvæði og Lupus 3 fyrir ríflega fjórum milljörðum ára. Lupus 3 er einn nálægasti fæðingarstaður stjarna við sólkerfið okkar og hefur þess vegna verið mikið rannsakað. Árið 2013 tók 2,2 metra MPG/ESO sjónaukinn í La Silla stjörnustöð ESO í Chile aðra mynd af hluta þokunnar sem sýnir dökka rykstólpa og skærar stjörnur (eso1303).

Frekari upplýsingar

ESO er fremsta fjölþjóðlega stjörnustöð Evrópu og lang öflugasta stjörnustöð heims. Hún nýtur stuðnings 16 landa: Austurríkis, Belgíu, Brasilíu, Tékklands, Danmörku, Finnlands, Frakklands, Þýskalands, Ítalíu, Hollands, Póllands, Portúgals, Spánar, Svíþjóðar, Sviss og Bretlands, auk gestaþjóðarinnar Chile. ESO heldur úti metnaðarfullum verkefnum sem miða að hönnun, smíði og starfsemi öflugra stjörnustöðva á jörðinni sem gera stjörnufræðingum kleift að gera mikilvægar uppgötvanir. ESO leikur líka lykilhlutverk í að efla og skipuleggja samstarf í stjarnvísindarannsóknum. ESO starfrækir þrjár stjörnuathugunarstöðvar í heimsflokki: La Silla, Paranal og Chajnantor. Á Paranalfjalli starfrækir ESO Very Large Telescope, fullkomnustu stjörnusjónauka heims sem notaðir eru til athugana á sýnilegu ljósi og tvo kortlagningarsjónauka. VISTA er stærsti kortlagningarsjónauki veraldar fyrir innrautt ljós og VLT Survey Telescope er stærsti sjónauki heims sem eingöngu er ætlað að kortleggja himinn í sýnilegu ljósi. ESO er stór þátttakandi í ALMA, stærsta stjarnvísindaverkefni heims. Á Cerro Armazones, skammt frá Paranal, er ESO að smíða 39 metra risasjónauka, Extremely Large Telescope eða ELT sem verður „stærsta auga jarðar“.

Tengiliðir

Sævar Helgi Bragason
Stjörnufræðivefurinn
Ísland
Farsími: 8961984
Tölvupóstur: eson-iceland@eso.org

Richard Hook
ESO Public Information Officer
Garching bei München, Germany
Sími: +49 89 3200 6655
Farsími: +49 151 1537 3591
Tölvupóstur: rhook@eso.org

Connect with ESO on social media

Þetta er þýðing á fréttatilkynningu ESO eso1804.

Um fréttatilkynninguna

Fréttatilkynning nr.:eso1804is
Nafn:Lupus 3
Tegund:Solar System : Nebula : Appearance : Dark
Milky Way : Nebula : Type : Star Formation
Facility:MPG/ESO 2.2-metre telescope
Instruments:WFI

Myndir

Star formation region Lupus 3
Star formation region Lupus 3
texti aðeins á ensku
Skuggaþokan Lupus 3 í stjörnumerkinu Sporðdrekanum
Skuggaþokan Lupus 3 í stjörnumerkinu Sporðdrekanum
Víðmynd af skuggaþokunni Lupus 3 og tengdum, heitum, ungum stjörnum
Víðmynd af skuggaþokunni Lupus 3 og tengdum, heitum, ungum stjörnum

Myndskeið

ESOcast 148 Light: Clouded Star Birth (4K UHD)
ESOcast 148 Light: Clouded Star Birth (4K UHD)
texti aðeins á ensku
Zooming in on the Lupus 3 star-forming region
Zooming in on the Lupus 3 star-forming region
texti aðeins á ensku
Panning across the Lupus 3 star-forming region
Panning across the Lupus 3 star-forming region
texti aðeins á ensku