eso1736is — Fréttatilkynning

Stjörnufræðingar finna tempraða reikistjörnu í kringum nálæga og rólega stjörnu

HARPS mælitæki ESO finnur fjarreikistjörnu á stærð við Jörðina í kringum Ross 128

15. nóvember 2017

Hópur stjörnufræðingar sem notaði HARPS mælitæki ESO hefur fundið reikistjörnu á stærð við Jörðina með temprað yfirborðshitastig í aðeins 11 ljósára fjarlægð frá sólkerfinu okkar. Fjarreikistjarnan hefur fengið nafnið Ross 128 b en hún er nú næst nálægasta tempraða plánetan sem fundist hefur. Aðeins Proxima b er nálægari. Ross 128 b er ennfremur nálægasta reikistjarnan sem finnst í kringum rólega rauða dvergstjörnu sem gæti aukið líkurnar á því að plánetan sé lífvænleg. Ross 128 b verður eitt af viðfangsefnum Extremely Large Telescope ESO sem mun leita að lífvísum í lofthjúpi hennar.

Hópur stjörnufræðinga sem notaði High Accuracy Radial velocity Planet Searcher (HARPS) í La Silla stjörnustöðinni í Chile hefur fundið massalitla reikistjörnu sem gengur um rauðu dvergstjörnuna Ross 128 á tæplega tíu dögum. Reikistjarnan er á stærð við Jörðina og ætti hitastigið að vera temprað, þ.e. ekki ósvipað yfirborðshitastiginu á Jörðinni. Ross 128 er „rólegasta“ nálæga stjarnan sem vitað að er hýsir tempraða fjarreikistjörnu.

„Uppgötvunin byggir á meira en áratugalöngum mælingum með HARPS, sem og fyrsta flokks gagnaúrvinnslu og greiningartækni. Aðeins HARPS býr yfir slíkri nákvæmni og er enn besta sjónstefnumælitæki heims, fimmtán árum eftir að það var tekið í notkun.“ útskýrir Nicola Astudillo-Defru (Stjörnustöð Genfar í Genfarháskóla í Sviss), meðhöfundur greinarinnar um uppgötvunina.

Rauðir dvergar eru meðal köldustu, daufustu — en algengustu — stjarna í alheiminum. Það gerir þær að mjög heppilegum viðfangsefnum í leitinni að fjarreikistjörnum og eru þær þess vegna vinsæl rannsóknarefni. Xavier Bonfils (Institut de Planétologie et d'Astrophysique de Grenoble – Université Grenoble-Alpes/CNRS, Grenoble, Frakklandi) hafði umsjón með rannsókninni en hann kallar HARPS verkefnið Styttri leið að hamingju, þar sem mun auðveldara er að finna litlar, kaldar systur Jarðar í kringum þessar stjörnur, öfugt við stjörnur sem líkjast sólinni okkar [1].

Margar rauðar dvergstjörnur, Proxima Centauri þeirra á meðal, eru þekktar fyrir öfluga sólblossa sem baða reikistjörnur á braut um þær í hættulegri útfjólubláu ljósi og röntgengeislum annað slagið. Ross 128 virðist aftur á móti miklu rólegri stjarna svo reikistjörnurnar hennar gætu verið nálægustu þekktu „þægilegu“ búsvæði hugsanlegs lífs.

Ross 128 er í aðeins 11 ljósára fjarlægð frá Jörðinni er stjarnan er að nálgast okkur og verður nálægasta stjarnan við sólkerfið okkar eftir aðeins 79.000 ár — augnablik á stjarnfræðilegan mælikvarða. Ross 128 b tekur þá við nafnbót Proxima Centauri b sem nálægasta fjarreikistjarnan við Jörðina!

Mælingar HARPS sýndu stjörnufræðingum að Ross 128 b er tuttugu sinnum nær móðurstjörnunni sinni en Jörðin er frá sólinni. Vegna nálægðarinnar fær Ross 128 b tæplega 40% meiri geislun en Jörðin fær frá sólinni okkar. Þrátt fyrir það er jafnvægishitastig Ross 128 b á bilinu -60 til 20°C vegna þess að rauði dvegurinn sem hún gengur um er lítil og dauf eða tæplega helmingi kaldari en sólin. Þótt vísindamennirnir sem fundu Ross 128 b telji reikistjörnuna tempraða ríkir óvissa um hvort plánetan sé innan, utan eða á brún lífbeltisins [2] þar sem fljótandi vatn gæti verið á yfirborði reikistjörnunnar.

Sífellt fleiri tempraðar fjarreikistjörnur koma í leitirnar og næsta skref er að rannsaka lofthjúpa, efnasamsetningu og efnafræði þeirra í smáatriðum. Næsta stóra skref er að finna hugsanlega lífvísa í lofthjúpum nálægustu fjarreikistjarnanna, þar á meðal súrefni, en það verður að öllum líkindum stigið þegar Extremely Large Telescope (ELT) sjónauki ESO verður tekinn í notkun [3].

„Nýjar stjörnustöðvar ESO munu stíga fyrstu mikilvæga skrefin í að skrásetja og greina eiginleika reikistjarna á stærð við Jörðina. Einkum og sér í lagi kemur NIRPS, innrauðu armurinn á HARPS, til með að auka greinigæðin á rauðum dvergum verulega en þær geisla að mestu frá sér innrauðu ljósi. Þá kemur ELT til með að mæla og greina stóran hluta af þessum reikistjörnum,“ sagði Xavier Bonfils að lokum.

Skýringar

[1] Reikistjarna á nálægri braut um efnislitla rauða dvergstjörnu hefur meiri þyngdaráhrif á hana en álíka stór reikistjarna á massameiri stjörnu eins og sólina en er lengra í burtu frá henni. Þess vegna er mun auðveldara að finna reikistjörnur í kringum litlar stjörnur en stórar. Sú staðreynd að rauðir dvergar eru daufari gerir mælingar þó öllu erfiðari.

[2] Lífbeltið er skilgreint sem það svæði eða belti í kringum stjörnu þar sem hitastigið er hvorki of lágt né of hátt til þess að vatn geti verið á fljótandi formi á yfirborði reikistjörnu.

[3] Þetta er eingöngu mögulegt í tilviki þeirra fáu fjarreikistjarna sem eru nógu nálægt okkur til þess að hægt sé að greina þær frá móðurstjörnunni.

Frekari upplýsingar

Greint var frá rannsókninni í greininni „A temperate exo-Earth around a quiet M dwarf at 3.4 parsecs“, eftir X. Bonfils et al., sem birtist í tímaritinu Astronomy & Astrophysics.

Í rannsóknarteyminu eru X. Bonfils (Univ. Grenoble Alpes, CNRS, IPAG, Grenoble, Frakklandi [IPAG]), N. Astudillo-Defru (Observatoire de Genève, Université de Genève, Sauverny, Sviss), R. Díaz (Universidad de Buenos Aires, Facultad de Ciencias Exactas y Naturales. Buenos Aires, Argentína), J.-M. Almenara (Observatoire de Genève, Université de Genève, Sauverny, Sviss), T. Forveille (IPAG), F. Bouchy (Observatoire de Genève, Université de Genève, Sauverny, Sviss), X. Delfosse (IPAG), C. Lovis (Observatoire de Genève, Université de Genève, Sauverny, Sviss), M. Mayor (Observatoire de Genève, Université de Genève, Sauverny, Sviss), F. Murgas (Instituto de Astrofísica de Canarias, La Laguna, Tenerife, Spáni), F. Pepe (Observatoire de Genève, Université de Genève, Sauverny, Sviss), N. C. Santos (Instituto de Astrofísica e Ciências do Espaço and Universidade do Porto, Portúgal), D. Ségransan (Observatoire de Genève, Université de Genève, Sauverny, Sviss), S. Udry (Observatoire de Genève, Université de Genève, Sauverny, Sviss) og A. Wü̈nsche (IPAG).

ESO er fremsta fjölþjóðlega stjörnustöð Evrópu og lang öflugasta stjörnustöð heims. Hún nýtur stuðnings 16 landa: Austurríkis, Belgíu, Brasilíu, Tékklands, Danmörku, Finnlands, Frakklands, Þýskalands, Ítalíu, Hollands, Póllands, Portúgals, Spánar, Svíþjóðar, Sviss og Bretlands, auk gestaþjóðarinnar Chile. ESO heldur úti metnaðarfullum verkefnum sem miða að hönnun, smíði og starfsemi öflugra stjörnustöðva á jörðinni sem gera stjörnufræðingum kleift að gera mikilvægar uppgötvanir. ESO leikur líka lykilhlutverk í að efla og skipuleggja samstarf í stjarnvísindarannsóknum. ESO starfrækir þrjár stjörnuathugunarstöðvar í heimsflokki: La Silla, Paranal og Chajnantor. Á Paranalfjalli starfrækir ESO Very Large Telescope, fullkomnustu stjörnusjónauka heims sem notaðir eru til athugana á sýnilegu ljósi og tvo kortlagningarsjónauka. VISTA er stærsti kortlagningarsjónauki veraldar fyrir innrautt ljós og VLT Survey Telescope er stærsti sjónauki heims sem eingöngu er ætlað að kortleggja himinn í sýnilegu ljósi. ESO er stór þátttakandi í ALMA, stærsta stjarnvísindaverkefni heims. Á Cerro Armazones, skammt frá Paranal, er ESO að smíða 39 metra risasjónauka, Extremely Large Telescope eða ELT sem verður „stærsta auga jarðar“.

Tenglar

Tengiliðir

Sævar Helgi Bragason
Stjörnufræðivefurinn
Ísland
Farsími: 8961984
Tölvupóstur: eson-iceland@eso.org

Xavier Bonfils
Institut de Planétologie et d'Astrophysique de Grenoble – Université Grenoble-Alpes/CNRS
Grenoble, France
Tölvupóstur: xavier.bonfils@univ-grenoble-alpes.fr

Nicola Astudillo-Defru
Geneva Observatory – University of Geneva
Geneva, Switzerland
Tölvupóstur: nicola.astudillo@unige.ch

Richard Hook
ESO Public Information Officer
Garching bei München, Germany
Sími: +49 89 3200 6655
Farsími: +49 151 1537 3591
Tölvupóstur: rhook@eso.org

Connect with ESO on social media

Þetta er þýðing á fréttatilkynningu ESO eso1736.

Um fréttatilkynninguna

Fréttatilkynning nr.:eso1736is
Nafn:Ross 128
Tegund:Milky Way : Star : Circumstellar Material : Planetary System
Facility:ESO 3.6-metre telescope
Instruments:HARPS
Science data:2018A&A...613A..25B

Myndir

Artist’s impression of the planet Ross 128 b
Artist’s impression of the planet Ross 128 b
texti aðeins á ensku
The sky around the red dwarf star Ross 128
The sky around the red dwarf star Ross 128
texti aðeins á ensku
The red dwarf star Ross 128 in the constellation of Virgo
The red dwarf star Ross 128 in the constellation of Virgo
texti aðeins á ensku

Myndskeið

ESOcast 137 Light: Temperate Planet Orbiting Quiet Red Dwarf (4K UHD)
ESOcast 137 Light: Temperate Planet Orbiting Quiet Red Dwarf (4K UHD)
texti aðeins á ensku
Zooming in on Ross 128
Zooming in on Ross 128
texti aðeins á ensku
Flying through the Ross 128 planetary system
Flying through the Ross 128 planetary system
texti aðeins á ensku