eso1735is — Fréttatilkynning

ALMA finnur kalt ryk í kringum nálægustu stjörnuna

3. nóvember 2017

Mælingar með ALMA sjónaukanum í Chile hafa leitt í ljós rykbelti í kringum Proxima Centauri, nálægustu stjörnuna við sólkerfið okkar. Mælingarnar sýna bjarma frá köldu ryki á svæði sem er einu til fjórum sinnum fjær Proxima Centauri en Jörðin er frá sólinni. Gögnin benda líka til þess að í sólkerfinu sé enn fjarlægara og kaldara rykbelti sem gæti bent til þess að Proxima Centauri sólkerfið sé margbrotið. Beltin eru svipuð mun stærri beltum í sólkerfinu okkar og eru ennfremur talin vera úr ryki og ísögnum sem urðu ekki að reikistjörnum.

Proxima Centauri er nálægasta stjarnan við sólkerfið okkar. Hún er rauður dvergur í fjögrurra ljósára fjarlægð í stjörnumerkinu Mannfáknum. Í kringum hana er reikistjarna á stærð við Jörðina, Proxima b, sem fannst árið 2016 og er nálægasta fjarreikistjarnan við sólkerfið okkar. Nýjar mælingar frá ALMA sýna að sólkerfið geymir ekki aðeins eina reikistjörnu, heldur líka kalt geimryk.

„Það er mikilvægt að finna ryk í kringum Proxima því í kjölfar þess að bergreikistjarnan Proxima b fannst eru þetta fyrstu vísbendingar okkar um að sólkerfið í kringum nálægustu stjörnuna við sólkerfið okkar sé margbrotið, en ekki aðeins stök reikistjarna“ sagði Guillem Anglada, stjörnufræðingur við Instituto de Astrofísica de Andalucía (CSIC) í Granada, aðalhöfundur greinar um rannsóknina.

Rykbeltin eru leifar efnis sem myndaði ekki stærri hnetti eins og reikistjörnur. Berg- og ísagnirnar í þessum beltum eru misstórar, frá smæstu rykögnum, innan við millímetri að stærð, upp í smástirni sem eru nokkrir kílómetrar í þvermál [2].

Mestur hluti ryksins virðist í belti sem nær nokkur hundruð milljón kílómetra frá Proxima Centauri en heildarefnismagn þess er álitið um hundraðasti hluti af massa Jarðar. Hitastigið í beltinu er líklega í kringum –230 gráður á Celsíus, álíka lágt og í Kuipersbeltinu í sólkerfinu okkar.

Í mælingum ALMA sjást líka merki um annað rykbelti, enn kaldara, um það bil tíu sinnum fjær stjörnunni. Ef sú er raunin er eðli ytra beltisins áhugavert vegna þess hve mikill kuldi ríkir svo langt frá stjörnu sem er bæði kaldari og daufari en sólin. Bæði beltin eru mun lengra frá Proxima Centauri en reikistjarnan Proxima b sem er aðeins fjórar milljónir kílómetra frá móðurstjörnunni.

„Niðurstöðurnar benda til þess að við Proxima Centauri séu fleiri reikistjörnur með ríka sögu víxlverkanna sem leiddi til myndunar rykbeltisins. Frekari rannsóknir gætu líka veitt upplýsingar sem gætu vísað á hvar fleiri reikistjörnur er að finna,“ sagði Guillem Anglada.

Sólkerfið Proxima Centauri er sérstaklega áhugavert vegna þess að uppi eru áætlanir — Starshot verkefnið — um að rannsaka kerfið með örgeimförum búnum leysigeislaseglum. Þekking á ryki í kringum stjörnuna er því nauðsynleg fyrir skipulagningu slíks leiðangurs.

Pedro Amado, meðhöfundur greinarinnar, einnig við Instituto de Astrofísica de Andalucía, segir að mælingarnar séu bara byrjunin: „Þessar fyrstu niðurstöður sýna að ALMA getur fundið ryk í kringum Proxima. Frekari mælingar munu gefa okkur nákvæmari mynd af Proxima sólkerfinu. Þær, ásamt rannsóknum á frumsólkerfisskífum í kringum ungar stjörnu, munu hjálpa okkur að skilja ferlin sem leiddu til myndunar Jarðar og sólkerfisins fyrir um 4600 milljónum ára. Það sem við sjáum núna er bara smjörþefurinn af því sem koma skal!“

Skýringar

[1] Fyrir tilviljun er umsjónarmaður rannsóknarinnar, Gullem Anglada, nafni stjörnufræðingsins sem leiddi hópinn sem fann Proxima Centauri b, Guillem Anglada-Escudé, en sá er einnig meðhöfundur sömu greinar. Þeir eru ekki skyldir.

[2] Proxima Centuari er nokkuð gömul stjarna, álíka gömul og sólkerfið okkar. Rykbeltin í kringum hana eru líklega svipuð Kuipersbeltinu og smástirnabeltinu í sólkerfinu okkar sem og rykinu sem myndar Sverðbjarmann. Skífurnar sem ALMA hefur komið auga á í kringum mun yngri stjörnur, eins og HL Tauri, innihalda miklu meira efni en í þeim eru reikistjörnur að myndast.

[3] Verði daufa, ytra beltið staðfest fá stjörnufræðingar leið til að áætla halla Proxima Centauri sólkerfisins. Beltið liti þá út fyrir að vera sporöskjulaga vegna hallans en telið er að beltið sé hringlaga. Þá væri hægt að ákvarða massa plánetunnar Proxima b en við þekkjum aðeins neðri mörkin.

Frekari upplýsingar

Greint var frá rannsókninni í greininni „ALMA Discovery of Dust Belts Around Proxima Centauri“, eftir Guillem Anglada o.fl., sem birtist í Astrophysical Journal Letters.

Í rannsóknarteyminu eru Guillem Anglada (Instituto de Astrofísica de Andalucía (CSIC), Granada, Spáni [IAA-CSIC]), Pedro J. Amado (IAA-CSIC), Jose L. Ortiz (IAA-CSIC), José F. Gómez (IAA-CSIC), Enrique Macías (Boston University, Massachusetts, Bandaríkjunum), Antxon Alberdi (IAA-CSIC), Mayra Osorio (IAA-CSIC), José L. Gómez (IAA-CSIC), Itziar de Gregorio-Monsalvo (ESO, Santiago, Chile; Joint ALMA Observatory, Santiago, Chile), Miguel A. Pérez-Torres (IAA-CSIC; Universidad de Zaragoza, Zaragoza, Spáni), Guillem Anglada-Escudé (Queen Mary University of London, London, Bretlandi), Zaira M. Berdiñas (Universidad de Chile, Santiago, Chile; IAA-CSIC),, James S. Jenkins (Universidad de Chile, Santiago, Chile), Izaskun Jimenez-Serra (Queen Mary University of London, London, Bretlandi), Luisa M. Lara (IAA-CSIC), Maria J. López-González (IAA-CSIC), Manuel López-Puertas (IAA-CSIC), Nicolas Morales (IAA-CSIC), Ignasi Ribas (Institut de Ciències de l’Espai, Barcelona, Spáni), Anita M. S. Richards (JBCA, University of Manchester, Manchester, Bretlandi), Cristina Rodríguez-López (IAA-CSIC) og Eloy Rodríguez (IAA-CSIC).

ESO er fremsta fjölþjóðlega stjörnustöð Evrópu og lang öflugasta stjörnustöð heims. Hún nýtur stuðnings 16 landa: Austurríkis, Belgíu, Brasilíu, Tékklands, Danmörku, Finnlands, Frakklands, Þýskalands, Ítalíu, Hollands, Póllands, Portúgals, Spánar, Svíþjóðar, Sviss og Bretlands, auk gestaþjóðarinnar Chile. ESO heldur úti metnaðarfullum verkefnum sem miða að hönnun, smíði og starfsemi öflugra stjörnustöðva á jörðinni sem gera stjörnufræðingum kleift að gera mikilvægar uppgötvanir. ESO leikur líka lykilhlutverk í að efla og skipuleggja samstarf í stjarnvísindarannsóknum. ESO starfrækir þrjár stjörnuathugunarstöðvar í heimsflokki: La Silla, Paranal og Chajnantor. Á Paranalfjalli starfrækir ESO Very Large Telescope, fullkomnustu stjörnusjónauka heims sem notaðir eru til athugana á sýnilegu ljósi og tvo kortlagningarsjónauka. VISTA er stærsti kortlagningarsjónauki veraldar fyrir innrautt ljós og VLT Survey Telescope er stærsti sjónauki heims sem eingöngu er ætlað að kortleggja himinn í sýnilegu ljósi. ESO er stór þátttakandi í ALMA, stærsta stjarnvísindaverkefni heims. Á Cerro Armazones, skammt frá Paranal, er ESO að smíða 39 metra risasjónauka, Extremely Large Telescope eða ELT sem verður „stærsta auga jarðar“.

Tenglar

Tengiliðir

Sævar Helgi Bragason
Stjörnufræðivefurinn
Ísland
Farsími: 8961984
Tölvupóstur: eson-iceland@eso.org

Guillem Anglada
Instituto de Astrofísica de Andalucía (CSIC)
Granada, Spain
Tölvupóstur: guillem@iaa.es

Pedro J. Amado
Instituto de Astrofísica de Andalucía (CSIC)
Granada, Spain
Tölvupóstur: pja@iaa.csic.es

Antxon Alberdi
Instituto de Astrofísica de Andalucía (CSIC)
Granada, Spain
Tölvupóstur: antxon@iaa.es

Enrique Macias
Boston University
Boston, USA
Tölvupóstur: emacias@bu.edu

Itziar de Gregorio-Monsalvo
ESO/ALMA
Santiago, Chile
Sími: +56 22 4676316
Tölvupóstur: idegrego@eso.org

Richard Hook
ESO Public Information Officer
Garching bei München, Germany
Sími: +49 89 3200 6655
Farsími: +49 151 1537 3591
Tölvupóstur: rhook@eso.org

Connect with ESO on social media

Þetta er þýðing á fréttatilkynningu ESO eso1735.

Um fréttatilkynninguna

Fréttatilkynning nr.:eso1735is
Nafn:Proxima Centauri
Tegund:Milky Way : Star : Circumstellar Material : Planetary System
Facility:Atacama Large Millimeter/submillimeter Array
Science data:2017ApJ...850L...6A

Myndir

Artist’s impression of the dust belts around Proxima Centauri
Artist’s impression of the dust belts around Proxima Centauri
texti aðeins á ensku
Proxima Centauri í stjörnumerkinu Mannfáknum
Proxima Centauri í stjörnumerkinu Mannfáknum
Staðsetning Proxima Centauri á suðurhimninum
Staðsetning Proxima Centauri á suðurhimninum
The sky around Alpha Centauri and Proxima Centauri (annotated)
The sky around Alpha Centauri and Proxima Centauri (annotated)
texti aðeins á ensku

Myndskeið

ESOcast 136 Light: ALMA Discovers Cold Dust Around Nearest Star (4K UHD)
ESOcast 136 Light: ALMA Discovers Cold Dust Around Nearest Star (4K UHD)
texti aðeins á ensku
Artist’s impression of the dust belts around Proxima Centauri
Artist’s impression of the dust belts around Proxima Centauri
texti aðeins á ensku