eso1728is — Fréttatilkynning

Xavier Barcons hefur störf sem framkvæmdarstjóri ESO

1. september 2017

Þann 1. september 2017 tók Xavier Barcons við sem áttundi framkvæmdarstjóri ESO og leysti þar með af hólmi Tim de Zeeuw sem hefur gengt stöðunni frá árinu 2007. Barcons hefur störf á spennandi tímum hjá ESO. Undirbúningur Extremely Large Telescope færist hratt áfram en hann verður tekinn í notkun árið 2024.

Xavier Barcons, nýr framkvæmdarstjóri ESO, hefur mikla reynslu af akademískum störfum og alþjóðlegum samtökum. Hann hefur þjónað ESO í meira en áratug og gegnt ýmsum hlutverkum, þar á meðal sem forseti ESO ráðsins milli 2012 og 2014. Hann lagði mikið af mörkum til nokkurra viðamikilla verkefna ESO, þar á meðal Atacama Large Millimeter/submillimeter Array (ALMA) og Extremely Large Telescope (ELT) sem var samþykktur á meðan hann gegndi forsetastöðu í ESO ráðinu.

Xavier Barcons hyggst halda áfram að færa ESO nær meginmarkmiðum sínum: Að efla stjarnvísindi í aðildarríkjum ESO. Hann er sannfærður um að ESO sé tilbúið að mæta tæknilegum og vísindalegum áskorunum í framtíðinni.

„Stjarnvísindi er ein kvikasta vísindagreinin og breytast markmiðin á hverjum degi,“ sagði Barcons. „ESO eru einstök samtök í heimi stjarnvísinda og eru vel búin fyrir þessar áskoranir.“

ESO rekur eða styður við fjölda sjónauka og mælitækja og býst nýi framkvæmdarstjórinn við að það hadi áfram á La Silla, Paranal, APEX og ALMA, á meðan þróun ELT heldur áfram.

„Ég vil þakka Tim de Zeeuw og öllu starfsfólki ESO fyrir hjálpina við að koma ESO í þá sterku stöðu sem samtökin eru nú í sem öflugasta stjörnustöð heims,“ sagði Xavier Barcons. „Það er mér heiður að taka við þessari stöðu, en ég veit líka hversu mikilvægt skref þetta er í mínu lífi. Ég hlakka til að takast á við þá ábyrgð sem hvílir á herðum framkvæmdarstjórans og þær áskoranir sem framundan eru.“

„Við munum einbeita okkur að smíði ELT, sem verður stærsti sjónauki heims fyrir sýnilegt ljós, og halda La Silla-Paranal og ALMA stjörnustöðvunum uppfærðum og opnum, til að tryggja að við séum áfram í fremstu víglínu stjörnustöðva. Við eigum von á enn stórkostlegri stjörnustöðvum þegar við höldum áfram að ýta tækniþróuninni fram á við í sjónaukum ESO, bæði í nútíð og framtíð,“ bætir hann við.

Hinn nýi framkvæmdarstjóri ESO segir frá sýn sinni á ESO og nýju starfi sínu í nýjasta þætti ESOcast og skrifar auk þess um mikilvægi stjörnustöðva ESO á ESOblog.

Frekari upplýsingar

ESO er fremsta fjölþjóðlega stjörnustöð Evrópu og lang öflugasta stjörnustöð heims. Hún nýtur stuðnings 16 landa: Austurríkis, Belgíu, Brasilíu, Tékklands, Danmörku, Finnlands, Frakklands, Þýskalands, Ítalíu, Hollands, Póllands, Portúgals, Spánar, Svíþjóðar, Sviss og Bretlands, auk gestaþjóðarinnar Chile. ESO heldur úti metnaðarfullum verkefnum sem miða að hönnun, smíði og starfsemi öflugra stjörnustöðva á jörðinni sem gera stjörnufræðingum kleift að gera mikilvægar uppgötvanir. ESO leikur líka lykilhlutverk í að efla og skipuleggja samstarf í stjarnvísindarannsóknum. ESO starfrækir þrjár stjörnuathugunarstöðvar í heimsflokki: La Silla, Paranal og Chajnantor. Á Paranalfjalli starfrækir ESO Very Large Telescope, fullkomnustu stjörnusjónauka heims sem notaðir eru til athugana á sýnilegu ljósi og tvo kortlagningarsjónauka. VISTA er stærsti kortlagningarsjónauki veraldar fyrir innrautt ljós og VLT Survey Telescope er stærsti sjónauki heims sem eingöngu er ætlað að kortleggja himinn í sýnilegu ljósi. ESO er stór þátttakandi í ALMA, stærsta stjarnvísindaverkefni heims. Á Cerro Armazones, skammt frá Paranal, er ESO að smíða 39 metra risasjónauka, Extremely Large Telescope eða ELT sem verður „stærsta auga jarðar“.

Tenglar

Tengiliðir

Sævar Helgi Bragason
Stjörnufræðivefurinn
Ísland
Farsími: 8961984
Tölvupóstur: eson-iceland@eso.org

Lars Lindberg Christensen
Head of ESO ePOD
Garching bei München, Germany
Sími: +49 89 3200 6761
Farsími: +49 173 3872 621
Tölvupóstur: lars@eso.org

Connect with ESO on social media

Þetta er þýðing á fréttatilkynningu ESO eso1728.

Um fréttatilkynninguna

Fréttatilkynning nr.:eso1728is
Nafn:ESO Director General
Tegund:Unspecified : People : Scientist

Myndir

Xavier Barcons starts as Director General of ESO
Xavier Barcons starts as Director General of ESO
texti aðeins á ensku

Myndskeið

ESOcast 125: Q&A with ESO's Incoming Director General Xavier Barcons — Taking up duty at ESO
ESOcast 125: Q&A with ESO's Incoming Director General Xavier Barcons — Taking up duty at ESO
texti aðeins á ensku