eso1722is — Fréttatilkynning

MASCARA opnar augun í Chile

Stöð til að leita að fjarreikistjörnum tekin í notkun í La Silla stjörnustöð ESO

19. júlí 2017

MASCARA (Multi-site All-Sky CAmeRA) stöðin í La Silla stjörnustöð ESO í Chile hefur verið tekin í notkun. Stöðin á að leita að fjarreikistjörnum með því að fylgjast með því þegar þær ganga fyrir bjartar móðurstjörnur sínar, kallað þverganga. Útbúin verður krá yfir fjarreikistjörnur sem stöðin finnur sem kannaðar verða betur með öðrum mælitækjum.

Í júní 2016 gerði ESO samkomulag við Leiden háskóla um að hýsa MASCARA stöðina í La Silla stjörnustöð ESO í Chile. Þar eru aðstæður framúrskarandi og hefur stöðin nú gert sínar fyrstu mælingar.

MASCARA stöðin í Chile er önnur til að hefja störf: Fyrri stöðin er á norðurhveli Jarðar, í Roque de los Muchachos stjörnustöðinni á La Palma, einni Kanaríeyja. Hvor stöð inniheldur nokkrar myndavélar í hitastigsstýrðu búri sem fylgist með nánast allri himinhvelfingunni yfir staðnum [1].

„Við þurfum stöðvar bæði á norður- og suðurhveli til að ná öllum himninum,“ sagði Ignas Snellen við Leidenháskóla og forsvarsmaður MASCARA verkefnisins. „Seinni stöðin er nú komin upp á La SIlla og getum við því fylgst með næstum öllum bjartari stjörnunum á himninum.“

MASCARA stöðin var smíðuð í Leiden háskóla í Hollandi og á hún að leita að reikistjörnum utan sólkerfisins. Stöðin er lítil og ódýr og lætur ekki mikið yfir sér en hönnun hennar er nýstárleg, sveigjanleg og mjög áreiðanleg. Í stöðinni eru fimm myndavélar sem gera endurteknar mælingar á birtu mörg þúsund stjarna og nota hugbúnað til að greina birtudeyfingu í ljósi stjörnu þegar reikistjarna gengur fyrir hana.

Þessi aðferð til að leita að fjarreikistjörnum kallast þvergönguaðferðin. Hægt er að leiða út stærð og braut reikistjörnunnar beint með henni og í bjartari sólkerfum er hægt að rannsaka lofthjúp reikistjörnunnar með stærri sjónaukum eins og Very Large Telescope ESO.

Megintilgangur MASCARA er að finna fjarreikistjörnur í kringum björtustu stjörnur himins sem aðrir sjónaukar hafa ekki kannað. Leit MASCARA beinist einkum að „heitum gasrisum“ — stórum reikistjörnum sem eru álíka stórar og Júpíter en mjög nálægt móðurstjörnunum sínum svo hitastigið er hátt og umferðartíminn aðeins fáeinar klukkustundir. Tugir heitra gasrisa hafa fundist með Doppler litrófsmælingum en sú aðferð mælir þyngdartog reikistjarna á móðurstjörnurnar.

„Enn sem komið er getum við ekki lært margt um reikistjörnurnar sem við finnum með Doppler litrófsmælingunum. Það krefst mun betri ljósmyndatækni til að aðskilja ljós köldu reikistjarnanna frá ægibjörtu ljósi móðurstjarnanna,“ sagði Snellen. „Auðveldara er að rannsaka reikistjörnu sem gengur fyrir stjörnuna sína.“

MASCARA stöðin getur líka fundið risajarðir og Neptúnusa. Einnig er ætlunin að útbúa skrá yfir nálægustu og björtustu viðfangsefnin til frekari rannsókna, sér í lagi til að rannsaka lofthjúpa þeirra.

Skýringar

[1] MASCARA getur fylgst með stjörnum niður í birtustig 8,4 — um það bil tíu sinnum daufari en við sjáum með berum augum á næturhimninum. Hönnunarinnar vegna er MASCARA ekki eins viðkvæmt fyrir veðuraðstæður en aðrir sjónaukar svo hægt er að gera mælingar þótt himinninn sé hálfskýjaður og mælingatíminn þar af leiðandi aukinn.

Frekari upplýsingar

ESO er fremsta fjölþjóðlega stjörnustöð Evrópu og lang öflugasta stjörnustöð heims. Hún nýtur stuðnings 16 landa: Austurríkis, Belgíu, Brasilíu, Tékklands, Danmörku, Finnlands, Frakklands, Þýskalands, Ítalíu, Hollands, Póllands, Portúgals, Spánar, Svíþjóðar, Sviss og Bretlands, auk gestaþjóðarinnar Chile. ESO heldur úti metnaðarfullum verkefnum sem miða að hönnun, smíði og starfsemi öflugra stjörnustöðva á jörðinni sem gera stjörnufræðingum kleift að gera mikilvægar uppgötvanir. ESO leikur líka lykilhlutverk í að efla og skipuleggja samstarf í stjarnvísindarannsóknum. ESO starfrækir þrjár stjörnuathugunarstöðvar í heimsflokki: La Silla, Paranal og Chajnantor. Á Paranalfjalli starfrækir ESO Very Large Telescope, fullkomnustu stjörnusjónauka heims sem notaðir eru til athugana á sýnilegu ljósi og tvo kortlagningarsjónauka. VISTA er stærsti kortlagningarsjónauki veraldar fyrir innrautt ljós og VLT Survey Telescope er stærsti sjónauki heims sem eingöngu er ætlað að kortleggja himinn í sýnilegu ljósi. ESO er stór þátttakandi í ALMA, stærsta stjarnvísindaverkefni heims. Á Cerro Armazones, skammt frá Paranal, er ESO að smíða 39 metra risasjónauka, Extremely Large Telescope eða ELT sem verður „stærsta auga jarðar“.

Tenglar

Tengiliðir

Sævar Helgi Bragason
Stjörnufræðivefurinn
Ísland
Farsími: 8961984
Tölvupóstur: eson-iceland@eso.org

Ignas Snellen
Leiden Observatory
Postbus 9513, 2300 RA Leiden, The Netherlands
Tölvupóstur: snellen@strw.leidenuniv.nl

Richard Hook
ESO Public Information Officer
Garching bei München, Germany
Sími: +49 89 3200 6655
Farsími: +49 151 1537 3591
Tölvupóstur: rhook@eso.org

Connect with ESO on social media

Þetta er þýðing á fréttatilkynningu ESO eso1722.

Um fréttatilkynninguna

Fréttatilkynning nr.:eso1722is
Nafn:MASCARA
Tegund:Unspecified : Technology : Observatory : Instrument
Facility:Multi-site All-Sky CAmeRA

Myndir

MASCARA planet hunting system at ESO’s La Silla Observatory
MASCARA planet hunting system at ESO’s La Silla Observatory
texti aðeins á ensku
MASCARA planet hunting system at ESO’s La Silla Observatory
MASCARA planet hunting system at ESO’s La Silla Observatory
texti aðeins á ensku
MASCARA planet hunting system at ESO’s La Silla Observatory
MASCARA planet hunting system at ESO’s La Silla Observatory
texti aðeins á ensku
MASCARA planet hunting system at ESO’s La Silla Observatory
MASCARA planet hunting system at ESO’s La Silla Observatory
texti aðeins á ensku
MASCARA planet hunting system at ESO’s La Silla Observatory
MASCARA planet hunting system at ESO’s La Silla Observatory
texti aðeins á ensku
MASCARA planet hunting system at ESO’s La Silla Observatory
MASCARA planet hunting system at ESO’s La Silla Observatory
texti aðeins á ensku

Myndskeið

ESOcast 117 Light: Eyes Wide Open for New Exoplanet Hunter (4K UHD)
ESOcast 117 Light: Eyes Wide Open for New Exoplanet Hunter (4K UHD)
texti aðeins á ensku