eso1721is — Fréttatilkynning

Ástralía gerir samstarfssamning við ESO

11. júlí 2017

Í Canberra í Ástralíu í dag var tíu ára samstarfssamningur milli ESO og Ástralíu undirritaður. Samstarfið mun styrkja enn frekar verkefni ESO, bæði vísinda- og tæknilega og gefa áströlskum stjörnufræðingum og iðnaði aðgang að La Silla Paranal stjörnustöðinni. Þetta gæti líka verið fyrsta skrefið í átt til þess að Ástralía verði fullgilt aðildarríki ESO.

Í maí árið 2017 tilkynnti ríkisstjórn Ástralíu um fyrirætlanir sínar að ganga til samstarfs við ESO og veita þar með áströlskum stjörnufræðingum aðgang að fyrsta flokks rannsóknartækjum ESO. Þetta samstarf er nú formlega orðið að verulega og hefst strax og þýðir að Ástralía leggur til fé til ESO í tíu ár með þann möguleika á að verða fullgilt aðildarríki. Samstarfið við Ástralíu var samþykkt samhljóða af ESO ráðinu.

Undirritun samningsins fór fram í Australian National University (ANU) í Canberra á ársfundi ástralska stjarnvísindafélagsins. Nóbelsverðlaunahafinn og varaforseti ANU, Brian Schmidt, flutti ræðu sem og framkvæmdarstjóri ESO, Tim de Zeeuw og ástralski iðnaðar-, nýsköpunar- og vísindaráðherrann Arthur Sinodinos sem síðan undirritaði samninginn. Fulltrúar frá ESO, meðlimir í ráðuneyti vísinda- og tækni og ráðamenn voru viðstaddir undirritunina.

„Þetta mikilvæga samstarf við samtök á heimsmælikvarða, eins og European Southern Observatory, gerir Ástralíu kleift að viðhalda framúrskarandi rannsóknargetu í stjarnvísindum og er mikilvægt tækifæri fyrir Ástralíu að hafa áhrif á vísindi og tækni, sem og örva alþjóðlegt rannsókna- og tæknisamstarf,“ sagði þingmaðurinn Arthur Sinodinos

„Í dag undirritum við samning sem gefur áströlskum stjörnufræðingum — sem og tæknistofnunum og iðnaði — aðgang að La Silla Paranal stjörnustöðinni,“ bætti Tim de Zeeuw, framkvæmdarstjóri ESO, við. „Samstarf milli Ástralíu og ESO hefur verið markmið mitt í meira en tvo áratugi og er ég hæstánægður að það sé nú orðið að veruleika.“

Samstarfið gerir áströlskum stjörnufræðingum kleift að taka þátt í öllum verkefnum sem tengjast La Silla Paranal stjörnustöð ESO — Very Large Telescope, Very Large Telescope víxlmælinn, VISTA, VST, 3,6 metra sjónauka ESO og New Technology Telescope. Samstarfið felur líka í sér tækifæri fyrir ástralska vísindamenn og ástralskan iðnað að vinna með stofnunum í aðildarríkjum ESO á þróun tækja sem verða sett upp í þessum stjörnustöðvum.

Sérfræðiþekking Ástrala í tækjabúnaði, þar á meðal aðlögunarsjóntækni og ljósleiðaratækni fellur vel að verkefnum ESO. Í staðinn fær Ástralía aðgang að iðnaði, tækjum og rannsóknartækifærum í La Silla Paranal stjörnustöðinni eins og um fullgilt aðildarríki í öllum málum sem tengjast þessum stjörnustöðvum sé að ræða. Afrakstur slíks samstarfs er beðið með óþreyju innan ESO samfélagsins.

„Framlag Ástralíu til þessa samstarfs styrkir ESO og stjörnustöðvar ESO munu hjálpa áströlskum stjörnufræðingum að gera margar uppgötvanir og þróa nýja kynsóð hátæknibúnaðar fyrir vísindi og tækni um allan heim. Ég tel að þetta sé líka lykilskref í átt að fullri aðild að ESO í framtíðinni,“ sagði Tim de Zeeuw ennfremur.

Ástralir hafa langa og ríka sögu af stjarnvísindarannsóknum í hæsta gæðafokki. Stjarnvísindasamfélagið þar er þegar mjög virkt og árangurinn leynir sér ekki. Það mun án efa njóta mjög góðs af framúrskarandi aðstöðu ESO. Þetta samstarf Evrópu og Ástralíu mun leiða til aukinnar framþróunar í vísindum og tækni sem hvorugur aðili gæti náð upp á eigin spýtur.

Frekari upplýsingar

ESO er fremsta fjölþjóðlega stjörnustöð Evrópu og lang öflugasta stjörnustöð heims. Hún nýtur stuðnings 16 landa: Austurríkis, Belgíu, Brasilíu, Tékklands, Danmörku, Finnlands, Frakklands, Þýskalands, Ítalíu, Hollands, Póllands, Portúgals, Spánar, Svíþjóðar, Sviss og Bretlands, auk gestaþjóðarinnar Chile. ESO heldur úti metnaðarfullum verkefnum sem miða að hönnun, smíði og starfsemi öflugra stjörnustöðva á jörðinni sem gera stjörnufræðingum kleift að gera mikilvægar uppgötvanir. ESO leikur líka lykilhlutverk í að efla og skipuleggja samstarf í stjarnvísindarannsóknum. ESO starfrækir þrjár stjörnuathugunarstöðvar í heimsflokki: La Silla, Paranal og Chajnantor. Á Paranalfjalli starfrækir ESO Very Large Telescope, fullkomnustu stjörnusjónauka heims sem notaðir eru til athugana á sýnilegu ljósi og tvo kortlagningarsjónauka. VISTA er stærsti kortlagningarsjónauki veraldar fyrir innrautt ljós og VLT Survey Telescope er stærsti sjónauki heims sem eingöngu er ætlað að kortleggja himinn í sýnilegu ljósi. ESO er stór þátttakandi í ALMA, stærsta stjarnvísindaverkefni heims. Á Cerro Armazones, skammt frá Paranal, er ESO að smíða 39 metra risasjónauka, Extremely Large Telescope eða ELT sem verður „stærsta auga jarðar“.

Tenglar

Tengiliðir

Sævar Helgi Bragason
Stjörnufræðivefurinn
Ísland
Farsími: 8961984
Tölvupóstur: eson-iceland@eso.org

Randal Markey
Office of the Minister for Industry, Innovation and Science
Parliament House, Canberra ACT, Australia
Sími: +61 2 6277 7070
Tölvupóstur: randal.markey@industry.gov.au

Richard Hook
ESO Public Information Officer
Garching bei München, Germany
Sími: +49 89 3200 6655
Farsími: +49 151 1537 3591
Tölvupóstur: rhook@eso.org

Connect with ESO on social media

Þetta er þýðing á fréttatilkynningu ESO eso1721.

Um fréttatilkynninguna

Fréttatilkynning nr.:eso1721is
Nafn:ESO Director General
Tegund:Unspecified
Facility:Other

Myndir

Australia signs arrangement with ESO
Australia signs arrangement with ESO
texti aðeins á ensku
Australia signs arrangement with ESO
Australia signs arrangement with ESO
texti aðeins á ensku
Australia signs arrangement with ESO
Australia signs arrangement with ESO
texti aðeins á ensku

Myndskeið

Australia signs arrangement with ESO
Australia signs arrangement with ESO
texti aðeins á ensku
Minister Arthur Sinodinos on ESO and Australia Partnership
Minister Arthur Sinodinos on ESO and Australia Partnership
texti aðeins á ensku