eso1639is — Fréttatilkynning

Stöplar eyðileggingarinnar

Nálægar stjörnur lýsa upp hina litríku Kjalarþoku

2. nóvember 2016

Stjörnufræðingar hafa tekið nýjar og glæsilegar myndir af risavöxnum gas- og rykstöplum í Kjalarþokunni með MUSE mælitækinu á Very Large Telescope ESO. Rannsóknir sýna að um er að ræða stöpla eyðileggingarinnar — öfugt við Stöpla sköpunarinnar í Arnarþokunni sem eru svipaðs eðlis.

Stöplarnir og slæðurnar á nýjum myndum af Kjalarþokunni eru risavaxin gas- og rykský í stjörnumyndunarsvæði í 7500 ljósára fjarlægð. Hópur stjörnufræðinga undir forystu Önnu McLeod, doktorsnema hjá ESO, rannsakaði stöplana með MUSE mælitækinu á Very Large Telescope ESO.

MUSE mælitækið getur tekið þúsundir mynda af þokunni samtímis á mismunandi bylgjulengdum. Það gerir stjörnufræðingum kleift að kortleggja eiginleika efnis á mismunandu stöðum í þokunni.

Myndir af svipuðum formum, hinum frægu Stöplum sköpunarinnar [1] í Arnarþokunni og í NGC 3603, voru skoðaðar með myndunum sem hér sjást. Í heild voru tíu stöplar rannsakaðir og sáust tengsl á milli geislunar frá massamiklum stjörnum og formum í stöplunum sjálfum.

Ein fyrsta afleiðing myndunar massamikillar stjörnu er að hún byrjar að eyðileggja skýið sem hún myndaðist úr. Sú hugmynd að efnismiklar stjörnur hafi mikil áhrif á umhverfi sitt er ekki ný af nálinni: Vitað er að slíkar stjörnur gefa frá sér mikla og öfluga jónandi geislun sem rífur rafeindir af atómum. Erfitt er að gera mælingar á samspili slíkra stjarna við umhverfið.

Stjörnufræðingarnir rannsökuðu áhrif orkuríkrar geislunar á stöplana, nánar tiltekið ferli sem kallast ljósuppgufun, þ.e. þegar gas jónast og dreifist síðan burt. Með því að fylgjast með afleiðingum ljósuppgufunnar — sem hefur massatap úr stöplunum í för með sér — komu sökudólgarnir í ljós. Augljós tengsl voru milli styrk jónandi geislunar frá nálægum stjörnum og eyðileggingu stöplanna.

Þetta hljómar eflaust eins og hörmungar, þegar stórar stjörnur ráðast gegn skapara sínum. Hins vegar eru ferlin milli stjarnanna og stöplanna flókin og torskilin. Stöplarnir virðast þéttir en gasið og rykið er í raun mjög þunnt og dreift. Hugsanlegt er að geislun og stjörnuvindar frá efnismiklum stjörnum hjálpi í raun til við að mynda þéttari svæði innan stöplanna sem geta svo aftur orðið að stjörnum.

Þessar glæsilegu myndanir hafa margt að segja okkur og MUSE er tilvalið tæki til þess að rannsaka þær.

Skýringar

[1] Stöplar sköpunarinnar sjást á frægri mynd sem tekin var með Hubble geimsjónauka NASA og ESA. Stöplarnir eru eflaust frægastir sinnar tegundar en þeir eru líka kallaðir fílsranar og eru nokkur ljósár á lengd.

Frekari upplýsingar

Rannsóknin var kynnt í greininni „Connecting the dots: a correlation between ionising radiation and cloud mass-loss rate traced by optical integral field spectroscopy“ eftir A. F. McLeod o.fl., sem birtist í Monthly Notices of the Royal Astronomical Society.

Í rannsóknarteyminu eru A. F. McLeod (ESO, Garching, Þýskalandi), M. Gritschneder (Universitäts-Sternwarte, Ludwig-Maximilians-Universität, Munich, Þýskalandi), J. E. Dale (Universitäts-Sternwarte, Ludwig-Maximilians-Universität, Munich, Þýskalandi), A. Ginsburg (ESO, Garching, Þýskalandi), P. D.Klaassen (UK Astronomy Technology Centre, Royal Observatory Edinburgh, Bretlandi), J. C. Mottram (Max Planck Institute for Astronomy, Heidelberg, Þýskalandi), T. Preibisch (Universitäts-Sternwarte, Ludwig-Maximilians-Universität, Munich, Þýskalandi), S. Ramsay (ESO, Garching, Þýskalandi), M. Reiter (University of Michigan Department of Astronomy, Ann Arbor, Michigan, Bandaríkjunum) og L. Testi (ESO, Garching, Þýskalandi).

ESO er fremsta fjölþjóðlega stjörnustöð Evrópu og lang öflugasta stjörnustöð heims. Hún nýtur stuðnings 16 landa: Austurríkis, Belgíu, Brasilíu, Tékklands, Danmörku, Finnlands, Frakklands, Þýskalands, Ítalíu, Hollands, Póllands, Portúgals, Spánar, Svíþjóðar, Sviss og Bretlands, auk gestaþjóðarinnar Chile. ESO heldur úti metnaðarfullum verkefnum sem miða að hönnun, smíði og starfsemi öflugra stjörnustöðva á jörðinni sem gera stjörnufræðingum kleift að gera mikilvægar uppgötvanir. ESO leikur líka lykilhlutverk í að efla og skipuleggja samstarf í stjarnvísindarannsóknum. ESO starfrækir þrjár stjörnuathugunarstöðvar í heimsflokki: La Silla, Paranal og Chajnantor. Á Paranalfjalli starfrækir ESO Very Large Telescope, fullkomnustu stjörnusjónauka heims sem notaðir eru til athugana á sýnilegu ljósi og tvo kortlagningarsjónauka. VISTA er stærsti kortlagningarsjónauki veraldar fyrir innrautt ljós og VLT Survey Telescope er stærsti sjónauki heims sem eingöngu er ætlað að kortleggja himinn í sýnilegu ljósi. ESO er stór þátttakandi í ALMA, stærsta stjarnvísindaverkefni heims. Á Cerro Armazones, skammt frá Paranal, er ESO að smíða 39 metra risasjónauka, European Extremely Large Telescope eða E-ELT sem verður „stærsta auga jarðar“.

Tenglar

Tengiliðir

Sævar Helgi Bragason
Stjörnufræðivefurinn
Ísland
Farsími: 8961984
Tölvupóstur: eson-iceland@eso.org

Anna Faye McLeod
ESO
Garching bei München, Germany
Sími: +49 89 3200 6321
Tölvupóstur: amcleod@eso.org

Mathias Jäger
Public Information Officer
Garching bei München, Germany
Sími: +49 176 62397500
Tölvupóstur: mjaeger@partner.eso.org

Connect with ESO on social media

Þetta er þýðing á fréttatilkynningu ESO eso1639.

Um fréttatilkynninguna

Fréttatilkynning nr.:eso1639is
Nafn:Carina Nebula
Tegund:Milky Way : Nebula
Facility:Very Large Telescope
Instruments:MUSE
Science data:2016MNRAS.462.3537M

Myndir

Region R44 in the Carina Nebula
Region R44 in the Carina Nebula
texti aðeins á ensku
Pillars of destruction
Pillars of destruction
texti aðeins á ensku
Region R18 in the Carina Nebula
Region R18 in the Carina Nebula
texti aðeins á ensku
Region R37 in the Carina Nebula
Region R37 in the Carina Nebula
texti aðeins á ensku
Region R45 in the Carina Nebula
Region R45 in the Carina Nebula
texti aðeins á ensku
Star cluster Trumpler 14
Star cluster Trumpler 14
texti aðeins á ensku
Bok Globule in the Carina Nebula
Bok Globule in the Carina Nebula
texti aðeins á ensku
Mystic Mountain
Mystic Mountain
texti aðeins á ensku

Myndskeið

3D Animation of the Carina Nebula
3D Animation of the Carina Nebula
texti aðeins á ensku
Þysjað inn að Kjalarþokunni
Þysjað inn að Kjalarþokunni