eso1625is — Fréttatilkynning

Dýpsta myndin af Sverðþokunni í Óríon

Innrauðar ljósmyndir frá VLT leiða í ljós óvæntan fjölda efnislítilla fyrirbæra

12. júlí 2016

Stjörnufræðingar notuðu innrauða mælitækið HAWK-I á Very Large Telescope (VLT) ESO í Chile til að skyggnast dýpra inn í Sverðþokuna í Óríon en nokkru sinni fyrr. Myndirnar eru glæsilegar og sýna þær tífalt fleiri brúna dverga og staka hnetti, álíka efnismikla og reikistjörnur, sem voru áður óþekkt. Uppgötvunin hefur áhrif á viðteknar hugmyndir manna um stjörnumyndunarsögu Sverðþokunnar.

Alþjóðlegt teymi stjörnufræðinga hefur notað HAWK-I mælitækið á Very Large Telescope (VLT) ESO til að taka dýpstu og nákvæmustu myndina til þess af Sverðþokunni í Óríon [1]. Myndin er ekki aðeins stórglæsileg, heldur leiddi hún í ljós mikinn fjölda brúnna dverga auk stakra hnatta álíka efnismikilla og reikistjörnur Tilvist þessara efnislitlu fyrirbæra veitir spennandi innsýn í sögu stjörnumyndunar í þokunni.

Sverðþokan er um 24 ljósár á breidd í stjörnumerkinu Óríon. Hún sést vel frá Jörðinni, jafnvel með berum augum sem daufur þokublettur í sverði Óríons. Margar geimþokur eins og Sverðþokan eru lýstar upp af orkuríku útfjólubláu ljósi sem margar heitar stjörnur í þokunum gefa frá sér. Við það jónast gasið og glóir.

Nálægð Sverðþokunnar [2] gerir hana að fyrirtaks viðfangsefni stjörnufræðinga sem rannsaka ferli og sögu stjörnumyndunar, sem og til að skilja hvernig margar mismassamiklar stjörnur verða til.

„Mikilvægt er að finna út hversu mörg lágmassafyrirbæri Sverðþokan inniheldur til þess að geta sett skorður á kenningar um myndun stjarna. Nú vitum við að myndun þessara massalitlu fyrirbæra veltur á umhverfi sem þær eru í,“ sagði Amelia Bayo (Universidad de Valparaíso, Valparaíso, Chile; Max-Planck Institut für Astronomie, Königstuhl, Þýskalandi), meðhöfundur greinarinnar um rannsóknina og meðlimur í rannsóknarteyminu.

Á nýju myndinni fannst óvæntur fjöldi mjög massalítilla fyrirbæra sem benda til þess að í Sverðþokunni séu að verða til mun fleiri efnislítil fyrirbæri en í öðrum nálægum og síður virkum stjörnumyndunarsvæðum.

Til að reyna að skilja myndunarferli mismassamikilla fyrirbæra telja stjörnufræðinga hve mörg slík verða til innan í svæðum eins og Sverðþokunni [3]. Áður en þessi rannsókn var gerð hafði mest fundist af fyrirbærum sem voru um fjórðungur af massa sólarinnar. Uppgötvun á aragrúa mun efnisminni fyrirbæra í Sverðþokunni setur ný mörk á fjölda og dreifingu lágmassahnatta í þokunni.

Rannsóknin gefur einnig vísbendingu um að fjöldi hnatta á stærð við reikistjörnur gæti verið mun meiri en áður var talið. Þótt tæknin sem þar til að finna og rannsaka slíka hnetti sé enn ekki til er European Extremely Large Telescope (E-ELT) ESO, sem verður tekinn í notkun árið 2024, hugsaður til þess.

„Fyrir mér gefa niðurstöður okkar nasaþefinn af nýjum tímum í rannsóknum á myndun stjarna og reikistjarna. Sá mikli fjöldi stakra reikistjarna sem við erum nú á mörkum þess að geta rannsakað vekur upp vonir um að við munum finna ótal hnetti á stærð við Jörðina með E-ELT,“sagði Holger Drass (Astronomisches Institut, Ruhr-Universität Bochum, Bochum, Þýskalandi; Pontificia Universidad Católica de Chile, Santiago, Chile), sem hafði umsjón með rannsókninni.

Skýringar

[1] Geimþokur eru stór ský úr gasi og ryki þar sem stjörmyndun á sér stað í geimnum.

[2] Sverðþokan er í um 1350 ljósára fjarlægð frá Jörðinni.

[3] Þessar upplýsingar eru notaðar til að búa til það sem kallast upphafsmassafall — aðferð til að reikna út hve margar stjörnur með mismunandi massa eru í stjörnuhópi við fæðingu. Það veitir innsýn í uppruna stjörnuhópa. Með öðrum orðum er nákvæm ákvörðun á upphafsmassafallinu og góð kenning til að lýsa uppruna upphafsmassafallsins grundvöllur að rannsóknum á myndun stjarna.

Frekari upplýsingar

Greint er frá rannsókninni í greininni „The bimodal initial mass function in the Orion Nebula Cloud“, eftir H. Drass o.fl., sem birtist í Monthly Notices of the Royal Astronomical Society.

Í rannsóknarteyminu eru H. Drass (Astronomisches Institut, Ruhr-Universität Bochum, Bochum, Þýskalandi; Pontificia Universidad Católica de Chile, Santiago, Chile), M. Haas (Astronomisches Institut, Ruhr-Universität Bochum, Bochum, Þýskalandi), R. Chini (Astronomisches Institut, Ruhr-Universität Bochum, Bochum, Þýskalandi; Universidad Católica del Norte, Antofagasta, Chile), A. Bayo (Universidad de Valparaíso, Valparaíso, Chile; Max-Planck Institut für Astronomie, Königstuhl, Þýskalandi) , M. Hackstein (Astronomisches Institut, Ruhr-Universität Bochum, Bochum, Þýskalandi), V. Hoffmeister (Astronomisches Institut, Ruhr-Universität Bochum, Bochum, Þýskalandi), N. Godoy (Universidad de Valparaíso, Valparaíso, Chile) og N. Vogt (Universidad de Valparaíso, Valparaíso, Chile).

ESO er fremsta fjölþjóðlega stjörnustöð Evrópu og lang öflugasta stjörnustöð heims. Hún nýtur stuðnings 16 landa: Austurríkis, Belgíu, Brasilíu, Tékklands, Danmörku, Finnlands, Frakklands, Þýskalands, Ítalíu, Hollands, Póllands, Portúgals, Spánar, Svíþjóðar, Sviss og Bretlands, auk gestaþjóðarinnar Chile. ESO heldur úti metnaðarfullum verkefnum sem miða að hönnun, smíði og starfsemi öflugra stjörnustöðva á jörðinni sem gera stjörnufræðingum kleift að gera mikilvægar uppgötvanir. ESO leikur líka lykilhlutverk í að efla og skipuleggja samstarf í stjarnvísindarannsóknum. ESO starfrækir þrjár stjörnuathugunarstöðvar í heimsflokki: La Silla, Paranal og Chajnantor. Á Paranalfjalli starfrækir ESO Very Large Telescope, fullkomnustu stjörnusjónauka heims sem notaðir eru til athugana á sýnilegu ljósi og tvo kortlagningarsjónauka. VISTA er stærsti kortlagningarsjónauki veraldar fyrir innrautt ljós og VLT Survey Telescope er stærsti sjónauki heims sem eingöngu er ætlað að kortleggja himinn í sýnilegu ljósi. ESO er stór þátttakandi í ALMA, stærsta stjarnvísindaverkefni heims. Á Cerro Armazones, skammt frá Paranal, er ESO að smíða 39 metra risasjónauka, European Extremely Large Telescope eða E-ELT sem verður „stærsta auga jarðar“.

Tenglar

Tengiliðir

Sævar Helgi Bragason
Stjörnufræðivefurinn
Ísland
Farsími: 8961984
Tölvupóstur: eson-iceland@eso.org

Holger Drass
Pontificia Universidad Católica de Chile / Astronomisches Institut, Ruhr-Universität Bochum
Santiago / Bochum, Chile / Germany
Farsími: +491714890578
Tölvupóstur: hdrass@aiuc.puc.cl

Amelia Bayo
Universidad de Valparaíso / Max-Planck Institut für Astronomie
Valparaíso / Königstuhl, Chile / Germany
Farsími: +56 981381715
Tölvupóstur: amelia.bayo@uv.cl

Richard Hook
ESO Public Information Officer
Garching bei München, Germany
Sími: +49 89 3200 6655
Farsími: +49 151 1537 3591
Tölvupóstur: rhook@eso.org

Connect with ESO on social media

Þetta er þýðing á fréttatilkynningu ESO eso1625.

Um fréttatilkynninguna

Fréttatilkynning nr.:eso1625is
Nafn:M 42, Messier 42, Orion Nebula
Tegund:Milky Way : Nebula : Appearance : Emission : H II Region
Facility:Very Large Telescope
Instruments:HAWK-I
Science data:2016MNRAS.461.1734D

Myndir

A deep infrared view of the Orion Nebula from HAWK-I
A deep infrared view of the Orion Nebula from HAWK-I
texti aðeins á ensku
Highlights from a new infrared image of the Orion Nebula
Highlights from a new infrared image of the Orion Nebula
texti aðeins á ensku
The jewel in Orion’s sword
The jewel in Orion’s sword
texti aðeins á ensku

Myndskeið

Panning across a deep infrared image of the Orion Nebula
Panning across a deep infrared image of the Orion Nebula
texti aðeins á ensku
Zooming into a deep infrared image of the Orion Nebula
Zooming into a deep infrared image of the Orion Nebula
texti aðeins á ensku
Cross-fade between visible and infrared light images of the Orion Nebula
Cross-fade between visible and infrared light images of the Orion Nebula
texti aðeins á ensku