eso1616is — Fréttatilkynning

Skrautsýning á himinhvolfinu

18. maí 2016

Á þessari mynd Very Large Telescope (VLT) ESO sést hvernig ljós frá björtum bláum stjörnum örvar gasleifar úr nýlegri stjörnumyndunarhrinu. Afraksturinn er litrík ljómþoka sem kallast LHA 120-N55 en stjörnurnar innan í henni eru enn sveipaðar glóandi gasi. Stjörnufræðingar rannsaka þessi fögru fyrirbæri til að læra meira um aðstæðurnar sem ríkja þar sem stjörnur fæðast.

LHA 120-N55, eða N66 eins og hún er alla jafna kölluð, er glóandi gasský í Stóra Magellansskýinu, fylgivetrarbraut okkar sem er í um 163.000 ljósára fjarlægð. N55 er innan í risaefnisskel eða risabólu sem kallast LMC 4. Risabólur eru gjarnan hundruð ljósára í þvermál og myndast þegar ölfugir vindar frá nýmynduðum stjörnum og höggbylgjur frá sprengistjörnum feykja burtu stórum hluta gassins og ryksins af svæðinu svo úr verða stórar bólulaga eyður.

Á stöku stað í N55 sátu hins vegar eftir litlar leifar gass og ryks sem nú er orðið að stakri þoku innan í risabólunni. Nokkur hundruð milljónum ára eftir atburðina sem skópu risabóluna varð til hópur skærra blárrra og hvítra stjarna — kallaður LH 72 — innan í bólinni. Stjörnurnar í LH 72 hópnum eru aðeins nokkurra milljóna ára gamlar og hafa því ekki leikið neitt hlutverk í að hreinsa svæðið í kringum N55. Þær eru einungis merki um seinni tíma stjörnumyndun á svæðinu.

Ný kynslóð stjarna skýrir líka litadýrðina í kringum stjörnurnar á myndinni. Orkuríkt ljós frá björtum bláhvítum stjörnum rífur rafeindir af vetnisatómum í N55 sem glóir fyrir vikið og gefur frá sér sinn einkennandi bleika lit. Stjörnufræðingar vita að þetta fingrafar glóandi vetnisgass í vetrarbrautinni er merki um myndun nýrra stjarna.

Þótt stjörnumyndunarsvæðið N55 virki rólegt nú um stundir eru miklar breytingar framundan. Eftir nokkrar milljónir ára munu sumar af massamiklu og björtu stjörnunum í LH 72 hópnum springa og dreifa innihaldi N55 um geiminn. Úr verður bóla innan í risabólinni. Hringrás upphafs og endaloka stjarna heldur áfram í þessum nágranna Vetrarbrautarinnar okkar.

Myndin var tekin með FOcal Reducer and low dispersion Spectrograph (FORS2) mælitækinu á VLT sjónauka ESO. Myndin var tekin fyrir ESO Cosmic Gems verkefnið snýst eingöngu um að útbúa fallegar ljósmyndir af himingeimnum í þeim tilgangi að miðla vísindum til almennings. Verkefnið fær eingöngu úthlutuðum þeim tíma í sjónaukunum þegar aðstæður bjóða ekki upp á nákvæmar vísindalegar mælingar en eru nógu góðar til að taka fallegar myndir af áhugaverðum, forvitnilegum og fallegum fyrirbærum í geimnum. Gögnin eru síðan gerð aðgengileg stjörnufræðingum í gagnasafni ESO.

Frekari upplýsingar

ESO er fremsta fjölþjóðlega stjörnustöð Evrópu og lang öflugasta stjörnustöð heims. Hún nýtur stuðnings 16 landa: Austurríkis, Belgíu, Brasilíu, Tékklands, Danmörku, Finnlands, Frakklands, Þýskalands, Ítalíu, Hollands, Póllands, Portúgals, Spánar, Svíþjóðar, Sviss og Bretlands, auk gestaþjóðarinnar Chile. ESO heldur úti metnaðarfullum verkefnum sem miða að hönnun, smíði og starfsemi öflugra stjörnustöðva á jörðinni sem gera stjörnufræðingum kleift að gera mikilvægar uppgötvanir. ESO leikur líka lykilhlutverk í að efla og skipuleggja samstarf í stjarnvísindarannsóknum. ESO starfrækir þrjár stjörnuathugunarstöðvar í heimsflokki: La Silla, Paranal og Chajnantor. Á Paranalfjalli starfrækir ESO Very Large Telescope, fullkomnustu stjörnusjónauka heims sem notaðir eru til athugana á sýnilegu ljósi og tvo kortlagningarsjónauka. VISTA er stærsti kortlagningarsjónauki veraldar fyrir innrautt ljós og VLT Survey Telescope er stærsti sjónauki heims sem eingöngu er ætlað að kortleggja himinn í sýnilegu ljósi. ESO er stór þátttakandi í ALMA, stærsta stjarnvísindaverkefni heims. Á Cerro Armazones, skammt frá Paranal, er ESO að smíða 39 metra risasjónauka, European Extremely Large Telescope eða E-ELT sem verður „stærsta auga jarðar“.

Tenglar

Tengiliðir

Sævar Helgi Bragason
Stjörnufræðivefurinn
Ísland
Farsími: 8961984
Tölvupóstur: eson-iceland@eso.org

Richard Hook
ESO Public Information Officer
Garching bei München, Germany
Sími: +49 89 3200 6655
Farsími: +49 151 1537 3591
Tölvupóstur: rhook@eso.org

Connect with ESO on social media

Þetta er þýðing á fréttatilkynningu ESO eso1616.

Um fréttatilkynninguna

Fréttatilkynning nr.:eso1616is
Nafn:LHA 120-N 55
Tegund:Local Universe : Nebula : Type : Star Formation
Facility:Very Large Telescope
Instruments:FORS2

Myndir

The glowing gas cloud LHA 120-N55 in the Large Magellanic Cloud
The glowing gas cloud LHA 120-N55 in the Large Magellanic Cloud
texti aðeins á ensku
LHA 120-N55 in the constellation of Dorado
LHA 120-N55 in the constellation of Dorado
texti aðeins á ensku

Myndskeið

Zooming in on the glowing gas cloud LHA 120-N55 in the Large Magellanic Cloud
Zooming in on the glowing gas cloud LHA 120-N55 in the Large Magellanic Cloud
texti aðeins á ensku
Close-up view of the glowing gas cloud LHA 120-N55 in the Large Magellanic Cloud
Close-up view of the glowing gas cloud LHA 120-N55 in the Large Magellanic Cloud
texti aðeins á ensku