eso1614is — Fréttatilkynning

Einstakt brot frá myndun Jarðar snýr aftur eftir milljarða ára dvöl í frystikistu

Halalausa halastjarnan Manx kemur úr Oortsskýinu með vísbendingar um uppruna sólkerfisins

29. apríl 2016

Stjörnufræðingar hafa fundið einstakt fyrirbæri sem virðist úr sama efni og innra sólkerfið frá þeim tíma þegar Jörðin var að myndast en hefur varðveist í milljarða ára í Oortsskýinu. Mælingar Very Large Telescope ESO og Canada France Hawaii sjónaukanum sýna að C/2014 S3 (PANSTARRS) er fyrsta fyrirbærið sem finnst á samskonar braut og langferðahalastjörnur en hefur sömu eiginleika og ósnortin smástirni í innra sólkerfinu. Fyrirbærið gæti gefið okkur mikilvægar upplýsingar um myndun sólkerfisins.

Í grein sem birtist í dag í tímaritinu Science Advances komast Karen Meech við Stjörnufræðistofnun Hawaiiháskóla og samstarfsmenn hannar, að þeirri niðurstöðu að C/2014 S3 (PANSTARRS) hafi myndast í innra sólkerfinu á sama tíma og Jörðin en síðan kastast utar í sólkerfið snemma í árdaga þess.

Athuganir stjörnufræðinganna benda til þess að um sé að ræða ævafornan berghnött en ekki dæmigert smástirni sem hafi ýst örlítið út á við. Fyrir vikið gæti þessi berghnöttur verið einn af mögulegum byggingareiningum berghnatta eins og Jarðarinnar sem þeyttist út úr innra sólkerfinu en varðveittist í frystikistu Oortsskýsins í milljarða ára.

„Við þekkjum mörg smástirni en þau hafa bakast í sólinni í milljarða ára sökum nálægðar við hana. Þetta er eitt fyrsta óbakaða smástirnið sem við höfum fundið því það hefur varðveist vel í bestu frystikistu sem til er,“ segir Karen Meech um þessar óvæntu niðurstöður.

C/2014 S3 (PANSTARRS) fannst með Pan-STARRS sjónaukanum og var þá talið að um væri að ræða halastjörnu með mjög litla virkni. Halastjarnan var þá tvöfalt lengra frá sólinni en Jörðin. Umferðartími hennar um sólina er mjög langur (um 860 ár) sem bendir til þess að hún hafi komið úr Oortsskýinu og tiltölulega nýlega komist á braut nálægt sólinni.

Stjörnufræðingarnir tóku strax eftir því að C/2014 S3 (PANSTARRS) var óvenjuleg: Hún hafði ekki sama yfirbragð og aðrar langferðahalastjörnur þegar þær nálgast sólina. Fyrir vikið var hún kölluð Manx halastjarnan eftir halalausa kettinum. Skömmu eftir að hún fannst tókst stjörnufræðingum að ná litrófsmælingum af henni með Very Large Telescope ESO í Chile sem gaf frekari upplýsingar um fyrirbærið.

Mælingarnar sýndu að C/2014 S3 (PANSTARRS) líktist miklu fremur dæmigerðum smástirnum af S-gerð, sem venjulega eru í innri hluta smástirnabeltisins. Hnötturinn lítur ekki út eins og dæmigerð halastjarna sem myndast utarlega í sólkerfinu og eru úr ís en ekki bergi. Svo virðist sem efnið í hnettinum hafi ekki tekið miklum breytingum sem bendir til þess að hnötturinn hafi haldist gaddfreðinn í mjög langan tíma. Sú litla halastjörnuvirkni sem sást á C/2014 S3 (PANSTARRS) kemur heim og saman við þurrgufun vatnsíss en virknin er um milljón sinnum minni en virkni annarra langferðahalastjarna álíka langt frá sólinni.

Stjörnufræðingarnir draga því þá ályktun að líklega sé um að ræða ósnortinn berghnött úr innra sólkerfinu sem hafi varðveist í Oortsskýinu en sé nú á leið aftur inn í innra sólkerfið.

Fjölmörg tölvulíkön hafa verið búin til til þess að skýra uppbyggingu sólkerfisins. Munur er á spám líkananna um eðli fyrirbæranna í Oortsskýinu og spá þau mörg hver á mjög mismunandi hátt um hlutföll íss og bergs þar. Uppgötvun á berghnetti úr Oortsskýinu er því mikilvægur prófsteinn fyrir mismunandi spár líkananna. Stjörnufræðingarnir áætla að gera þurfi mælingar á 50-100 Manx halastjörnum til þess að geta fundið út hvaða líkön passa best. Takist þeim að finna svo mörg fyrirbæri opnast nýr gluggi í rannsóknum á uppruna sólkerfisins.

„Við höfum fundið fyrstu berghalastjörnuna og erum að leita að öðrum. Það fer eftir því hve margar við finnum hvort risareikistjörnurnar flökkuðu um sólkerfið þegar þær voru ungar, eða hvort þær uxu rólega án þess að færa sig mikið um set,“ segir Olivier Hainaut (ESO, Garching, Þýskalandi) meðhöfundur greinarinnar að lokum.

Frekari upplýsingar

Rannsóknin var kynnt í greininni „Inner Solar System Material Discovered in the Oort Cloud“, eftir Karen Meech o.fl., í tímaritinu Science Advances.

Í rannsóknarteyminu eru Karen J. Meech (Institute for Astronomy, University of Hawai`i, Bandaríkjunum), Bin Yang (ESO, Santiago, Chile), Jan Kleyna (Institute for Astronomy, University of Hawai`i, Bandaríkjunum), Olivier R. Hainaut (ESO, Garching, Þýskalandi), Svetlana Berdyugina (Institute for Astronomy, University of Hawai’i, Bandaríkjunum; Kiepenheuer Institut für Sonnenphysik, Freiburg, Þýskalandi), Jacqueline V. Keane (Institute for Astronomy, University of Hawai`i, Bandaríkjunum), Marco Micheli (ESA, Frascati, Ítalíu), Alessandro Morbidelli (Université de Nice Sophia-Antipolis, Nice, Frakklandi) og Richard J. Wainscoat (Institute for Astronomy, University of Hawai`i, Bandaríkjunum).

ESO er fremsta fjölþjóðlega stjörnustöð Evrópu og lang öflugasta stjörnustöð heims. Hún nýtur stuðnings 16 landa: Austurríkis, Belgíu, Brasilíu, Tékklands, Danmörku, Finnlands, Frakklands, Þýskalands, Ítalíu, Hollands, Póllands, Portúgals, Spánar, Svíþjóðar, Sviss og Bretlands, auk gestaþjóðarinnar Chile. ESO heldur úti metnaðarfullum verkefnum sem miða að hönnun, smíði og starfsemi öflugra stjörnustöðva á jörðinni sem gera stjörnufræðingum kleift að gera mikilvægar uppgötvanir. ESO leikur líka lykilhlutverk í að efla og skipuleggja samstarf í stjarnvísindarannsóknum. ESO starfrækir þrjár stjörnuathugunarstöðvar í heimsflokki: La Silla, Paranal og Chajnantor. Á Paranalfjalli starfrækir ESO Very Large Telescope, fullkomnustu stjörnusjónauka heims sem notaðir eru til athugana á sýnilegu ljósi og tvo kortlagningarsjónauka. VISTA er stærsti kortlagningarsjónauki veraldar fyrir innrautt ljós og VLT Survey Telescope er stærsti sjónauki heims sem eingöngu er ætlað að kortleggja himinn í sýnilegu ljósi. ESO er stór þátttakandi í ALMA, stærsta stjarnvísindaverkefni heims. Á Cerro Armazones, skammt frá Paranal, er ESO að smíða 39 metra risasjónauka, European Extremely Large Telescope eða E-ELT sem verður „stærsta auga jarðar“.

Tenglar

Tengiliðir

Sævar Helgi Bragason
Stjörnufræðivefurinn
Ísland
Farsími: 8961984
Tölvupóstur: eson-iceland@eso.org

Karen Meech
Institute for Astronomy, University of Hawai`i
Honolulu, HI, USA
Sími: +1 808 956 6828
Farsími: +1 720 231 7048
Tölvupóstur: meech@ifa.hawaii.edu

Olivier Hainaut
ESO Astronomer
Garching bei München, Germany
Sími: +49 89 3200 6752
Farsími: +49 151 2262 0554
Tölvupóstur: ohainaut@eso.org

Richard Hook
ESO Public Information Officer
Garching bei München, Germany
Sími: +49 89 3200 6655
Farsími: +49 151 1537 3591
Tölvupóstur: rhook@eso.org

Connect with ESO on social media

Þetta er þýðing á fréttatilkynningu ESO eso1614.

Um fréttatilkynninguna

Fréttatilkynning nr.:eso1614is
Nafn:C/2014 S3
Tegund:Solar System : Interplanetary Body : Comet
Facility:Very Large Telescope

Myndir

Artist's impression of the unique rocky comet C/2014 S3 (PANSTARRS)
Artist's impression of the unique rocky comet C/2014 S3 (PANSTARRS)
texti aðeins á ensku
The unique rocky comet C/2014 S3 (PANSTARRS)
The unique rocky comet C/2014 S3 (PANSTARRS)
texti aðeins á ensku
The unique rocky comet C/2014 S3 (PANSTARRS)
The unique rocky comet C/2014 S3 (PANSTARRS)
texti aðeins á ensku

Myndskeið

The unique rocky comet C/2014 S3 (PANSTARRS)
The unique rocky comet C/2014 S3 (PANSTARRS)
texti aðeins á ensku