eso1612is — Fréttatilkynning

Í miðju Ofnsins

VLT Survey Telescope tekur mynd af Ofnþyrpingunni

13. apríl 2016

Á þessari nýju mynd frá VLT Survey Telescope (VST) í Paranal stjörnustöð ESO í Chile sést safn vetrarbrauta sem kallast Ofnþyrpingin, kennd við stjörnumerkið Ofninn. Í þyrpingunni er fjöldinn allur af vetrarbrautum af ýmsum stærðum og gerðum og búa sumar yfir mörgum leyndarmálum.

Vetrarbrautir eru félagsverur því þær hópa sig jafnan saman í stórar vetrarbrautaþyrpingar. Þyngdarkrafturinn heldur þyrpingunum saman en hann má rekja til mikils magns hulduefns sem og vetrarbrautanna sjálfra. Í þyrpingum sem þessum geta verið milli 100 til 1000 vetrarbrautir á svæði sem er 5 til 30 milljónir ljósára á breidd.

Vetrarbrautaþyrpingar hafa enga tiltekna lögun svo erfitt getur reynst að segja til um hvar þær byrja og enda. Hins vegar hafa stjörnufræðingar áætlað að miðja Ofnþyrpingarinnar sé í um 65 milljón ljósára fjarlægð frá Jörðinni. Fjöldi vetrarbrauta í þyrpingunni er þó betur þekktur: Í henni eru sextíu stórar vetrarbrautir og álíka margar dvergvetrarbrautir. Þyrpingar af þessu tagi eru algengar í alheiminum og sýna vel áhrif þyngdarkraftsins yfir miklar fjarlægðir þar sem hann dregur saman stakar vetrarbrautir inn á eitt svæði.

Í miðju þyrpingarinnar, miðbletturinn af þremur vinstra megin á myndinni, er svokölluð cD vetrarbraut — vetrarbrautaæta. cD vetrarbrautir eins og þessi sem kallast NGC 1399 líkjast sporvöluvetrarbrautum en eru stærri og hafa umfangsmikla en daufa stjörnuhjúpa [1]. Ástæðan er sú að þær hafa vaxið með því að gleypa smærri vetrarbrautir og draga þær inn að miðju þyrpingarinnar [2].

Vísbendingar eru um að þetta hafi einmitt gerst, ef vel er að gáð. Nýlegar rannsóknir stjörnufræðinga undir forystu Enrichedda Iodice (INAF — Osservatorio di Capodimonte í Napolí á Ítalíu) [3] á gögnum frá VST sjónauka ESO leiddi í ljós daufa ljósbrú milli NGC 1399 og smærri vetrarbrautar, NGC 1387, hægra megin við hana. Þessi brú hafði ekki sést áður (og er of dauf til að koma fram á myndinni) en hún er nokkuð blárri en hin vetrarbrautin sem bendir til þess að hún samanstandi af stjörnum sem mynduðust úr gasi sem NGC 1399 hrifsaði úr NGC 1387. Þrátt fyrir að engar vísbendingar séu um að samruni vetrarbrauta sé að eigi sér stað í Ofnþyrpingunni virðist sem NGC 1399 sé að minnsta kosti að nærast á nágrönnum sínum.

Neðarlega hægra megin á myndinni er stór bjálkaþyrilþoka, NGC 1365. Hún er sérstaklega gott dæmi um vetrarbraut af þessari gerð því hún hefur áberandi bjálka sem gengur í gegnum miðjuna og þyrilarma sem liggja út frá endum hans. NGC 1365 telst að auki til Seyfert vetrarbrauta því hún hefur bjartan og virkan kjarna sem geymir rissasvarthol í miðjunni.

Þessi glæsilega mynd var tekin með VLT Survey Telescope (VST) í Paranal stjörnustöð ESO í Chile. Þótt sjónaukinn sé 2,6 metrar í þvermál er hann fjarri því stór á mælikvarða nútímans. Hann er hins vegar sérhannaður til að kortleggja stóran hluta af himninum. Það sem skilur hann frá öðrum sjónaukum er stórt sjónsvið og 256 megapixla myndavélin, OmegaCAM, sem var útbúin sérstaklega til að kortleggja himininn. Með þessari myndavél getur VST tekið djúpar myndir af stórum svæðum á himninum hratt sem stærri sjónaukar — eins og Very Large Telescope (VLT) ESO — geta svo rannsakað betur.

Skýringar

[1] Á myndinni sjást aðeins miðsvæði Ofnþyrpingarinnar; þyrpingin teygir sig yfir mun stærra svæði á himninum.

[2] Vetrarbrautin í miðju þyrpinga er alla jafna sú bjartasta í þyrpingu en í þessu tilviki er bjartasta vetrarbrautin, NGC 1315 við endimörk þyrpingarinnar, rétt fyrir utan myndina. Hún er einnig kölluð Fornax A og er ein öflugasta uppspretta útvarpsbylgna á himninum. Útvarpsbylgjurnar mælast með útvarpssjónaukum en þær má rekja til tveggja risavaxinna sepa sem teygja sig langt út í geiminn frá sín hvorri hlið vetrarbrautarinnar. Orkan sem knýr útvarpsbylgjurnar stafar frá risasvartholi sem lúrir í miðju vetrarbrautarinnar og sendir frá sér tvo háorkustróka. Þessir strókar framkalla útvarpsbylgjur þegar þeir plægja sig í gegnum gas í geimnum milli vetrarbrauta í þyrpingunni.

[1] „The Fornax Deep Survey with VST. I. The extended and diffuse stellar halo of NGC1399 out to 192 kpc” eftir E. Iodice, M. Capaccioli , A. Grado , L. Limatola, M. Spavone, N.R. Napolitano, M. Paolillo, R. F. Peletier, M. Cantiello, T. Lisker, C. Wittmann, A. Venhola , M. Hilker , R. D’Abrusco, V. Pota, og P. Schipani var birt í Astrophysical Journal.

Frekari upplýsingar

ESO er fremsta fjölþjóðlega stjörnustöð Evrópu og lang öflugasta stjörnustöð heims. Hún nýtur stuðnings 16 landa: Austurríkis, Belgíu, Brasilíu, Tékklands, Danmörku, Finnlands, Frakklands, Þýskalands, Ítalíu, Hollands, Póllands, Portúgals, Spánar, Svíþjóðar, Sviss og Bretlands, auk gestaþjóðarinnar Chile. ESO heldur úti metnaðarfullum verkefnum sem miða að hönnun, smíði og starfsemi öflugra stjörnustöðva á jörðinni sem gera stjörnufræðingum kleift að gera mikilvægar uppgötvanir. ESO leikur líka lykilhlutverk í að efla og skipuleggja samstarf í stjarnvísindarannsóknum. ESO starfrækir þrjár stjörnuathugunarstöðvar í heimsflokki: La Silla, Paranal og Chajnantor. Á Paranalfjalli starfrækir ESO Very Large Telescope, fullkomnustu stjörnusjónauka heims sem notaðir eru til athugana á sýnilegu ljósi og tvo kortlagningarsjónauka. VISTA er stærsti kortlagningarsjónauki veraldar fyrir innrautt ljós og VLT Survey Telescope er stærsti sjónauki heims sem eingöngu er ætlað að kortleggja himinn í sýnilegu ljósi. ESO er stór þátttakandi í ALMA, stærsta stjarnvísindaverkefni heims. Á Cerro Armazones, skammt frá Paranal, er ESO að smíða 39 metra risasjónauka, European Extremely Large Telescope eða E-ELT sem verður „stærsta auga jarðar“.

Tenglar

Tengiliðir

Sævar Helgi Bragason
Stjörnufræðivefurinn
Reykjavík, Ísland
Farsími: 8961984
Tölvupóstur: eson-iceland@eso.org

Richard Hook
ESO Public Information Officer
Garching bei München, Germany
Sími: +49 89 3200 6655
Farsími: +49 151 1537 3591
Tölvupóstur: rhook@eso.org

Connect with ESO on social media

Þetta er þýðing á fréttatilkynningu ESO eso1612.

Um fréttatilkynninguna

Fréttatilkynning nr.:eso1612is
Nafn:Fornax Cluster
Tegund:Local Universe : Galaxy : Grouping : Cluster
Facility:VLT Survey Telescope
Instruments:OmegaCAM
Science data:2016ApJ...820...42I

Myndir

VST image of the Fornax galaxy cluster
VST image of the Fornax galaxy cluster
texti aðeins á ensku
Finding chart for the Fornax Galaxy Cluster
Finding chart for the Fornax Galaxy Cluster
texti aðeins á ensku
The location of the Fornax Galaxy Cluster
The location of the Fornax Galaxy Cluster
texti aðeins á ensku
Wide-field view of the Fornax Galaxy Cluster
Wide-field view of the Fornax Galaxy Cluster
texti aðeins á ensku

Myndskeið

Zooming in on the Fornax Galaxy cluster
Zooming in on the Fornax Galaxy cluster
texti aðeins á ensku
VST image of the Fornax Galaxy Cluster
VST image of the Fornax Galaxy Cluster
texti aðeins á ensku