eso1611is — Fréttatilkynning

Nákvæmasta mynd ALMA af frumsólkerfisskífu

Sönnunargögn fyrir myndun reikistjarna á borð við Jörðina í kringum unga stjörnu

31. mars 2016

Á þessari nýju mynd frá Atacama Large Millimeter/submillimeter Array (ALMA) sést sólkerfi í mótun í kringum unga, nálæga stjörnu, TW Hydrae, sem svipar til sólarinnar, í meiri smáatriðum en nokkur sinni fyrr. Á myndinni sést forvitnileg geil í sömu fjarlægð frá stjörnunni og Jörðin er frá sólinni okkar, sem gæti þýtt að ung útgáfa af okkar eigin reikistjörnu, eða hugsanlega massameiri risajörð, sé að myndast þar.

Stjarnan TW Hydrae er vinsælt viðfangsefni stjörnufræðinga sökum nálægðar við Jörðina (aðeins 175 ljósár í burtu) og þá staðreynd að hún er ung stjarna (um 10 milljón ára). Þar að auki horfum við ofan á hana frá Jörðu séð. Fyrir vikið fá stjörnufræðingar sjaldséða og ótruflaða mynd af heilli frumsólkerfisskífu í kringum stjörnu.

„Eldri rannsóknir með venjulegum sjónaukum og útvarpssjónaukum staðfesta að TW Hydrae hefur gas- og rykskífu með myndunum sem benda sterklega til þess að reikistjörnur séu byrjaðar að þjappast saman,“ sagði Sean Andrews við Harvard-Smithsonian Center for Astrophysics í Cambridge í Massachusetts í Bandaríkjunum, aðalhöfundur greinar um rannsóknina sem birt var í dag í Astrophysical Journal Letters. „Nýja myndin frá ALMA sýnir skífuna í ótrúlegum smáatriðum og leiðir í ljós raðir þéttra og bjartra rykhringa og dökkra geila, þar á meðal áhugaverðar myndanir sem gætu bent til þess að reikistjarna með svipaða sporbraut og Jörðin sé að myndast þar.“

Á myndinni sjást ennfremur aðrar áberandi geilar sem eru þrjá milljarða og sex milljarða kílómetra frá stjörnunni í miðjunni, eða sem nemur fjarlægðinni frá sólinni til Úranusar og Plútós í sólkerfinu okkar. Geilarnar urðu sennilega til eftir að agnir festust saman og mynduðu reikistjörnur sem síðan hreinsuðu sporbrautir sínar af gasi og ryki og ýttu afgöngum efnisins í vel afmörkuð bönd.

Í nýju mælingunum á TW Hydrae mældu stjörnufræðingar daufa útvarpsgeislun sem berst frá rykögnum í kringum millímetri að stærð í skífunni og komu þá fram ótrúleg smáatriði. Þessar nákvæmu mælingar voru mögulegar vegna þess loftnet ALMA voru færð lengst í sundur, allt að 15 kílómetra, sem gerir sjónaukanum kleift að auka upplausnina og greina fínni smáatriði. „Þessi ljósmynd ALMA af frumsólkerfisskífu er í mestu upplausn sem náðst hefur og það met verður ekki slegið svo auðveldlega í framtíðinni!“ sagði Andrews [1].

„TW Hydrae er mjög sérstök. Hún er ein nálægasta þekkta frumsólkerfisskífa við Jörðina og gæti líkst sólkerfinu okkar þegar það var aðeins 10 milljón ára,“ segir meðhöfundurinn David Wilner, einnig við Harvard-Smithsonian Center for Astrophysics.

Eldri mælingar ALMA á öðru kerfi, HL Tauri, sýna að jafnvel yngri frumsólkerfisskífur — aðeins milljón ára gamlar — geta haft svipuð merki um myndun reikistjarna. Með því að rannsaka eldri TW Hydrae skífur vonast stjörnufræðingar til að skilja betur þróun okkar eigin reikistjörnu og möguleikana á svipuðum sólkerfum í Vetrarbrautinni.

Stjörnufræðingarnir vilja nú finna út hversu algengar þessar myndanir eru í skífum í kringum aðrar ungar stjörnur og hvernig þær breytast með tímanum eða í mismunandi umhverfi.

Skýringar

[1] Upplausn myndanna af HL Tauri var svipuð þessum nýju mælingum en TW Hydrae er miklu nær Jörðinni svo fínni smáatriði koma fram.

Frekari upplýsingar

Rannsóknin var kynnt í greininni „Ringed Substructure and a Gap at 1 AU in the Nearest Protoplanetary Disk“, eftir S.M. Andrews et al., sem birtist í Astrophysical Journal Letters.

Í rannsóknarteyminu eru Sean M. Andrews (Harvard-Smithsonian Center for Astrophysics, Cambridge, Massachusetts, Bandaríkjunum), David J. Wilner (Harvard-Smithsonian Center for Astrophysics, Cambridge, Massachusetts, Bandaríkjunum) , Zhaohuan Zhu (Princeton University, Princeton, New Jersey, Bandaríkjunum), Tilman Birnstiel (Max-Planck-Institut für Astronomie, Heidelberg, Þýskalandi), John M. Carpenter (Joint ALMA Observatory, Santiago, Chile), Laura M. Peréz (Max-Planck-Institut für Radioastronomie, Bonn, Þýskalandi), Xue-Ning Bai (Harvard-Smithsonian Center for Astrophysics, Cambridge, Massachusetts, Bandaríkjunum), Karin I. Öberg (Harvard-Smithsonian Center for Astrophysics, Cambridge, Massachusetts, Bandaríkjunum), A. Meredith Hughes (Wesleyan University, Van Vleck Observatory, Middletown, Bandaríkjunum), Andrea Isella (Rice University, Houston, Texas, Bandaríkjunum) og Luca Ricci (Harvard-Smithsonian Center for Astrophysics, Cambridge, Massachusetts, Bandaríkjunum).

Atacama Large Millimeter/submillimeter Array (ALMA), alþjóðleg stjörnustöð, er samstarfsverkefni ESO, National Science Foundation (NSF) í Bandaríkjunum og National Institutes of Natural Sciences (NINS) í Japan, í samvinnu við Chile. ALMA er fjármögnuð af ESO fyrir hönd aðildarríkja þess, af NSF í samstarfi við National Research Council of Canada (NRC) og National Science Council of Taiwan (NSC) og NINS í samvinnu við Academia Sinica (AS) í Taívan og Korea Astronomy and Space Science Institute (KASI).

ESO sér um smíði og rekstur ALMA fyrir hönd aðildarríkjanna en National Radio Astronomy Observatory (NRAO), sem lýtur stjórn Associated Universities, Inc. (AUI), fyrir hönd Norður Ameríku og National Astronomical Observatory of Japan (NAOJ) fyrir hönd austur Asíu. Samþætt stjórnun á smíði, prófun og rekstri ALMA er í umsjá Joint ALMA Observatory (JAO).

ESO er fremsta fjölþjóðlega stjörnustöð Evrópu og lang öflugasta stjörnustöð heims. Hún nýtur stuðnings 16 landa: Austurríkis, Belgíu, Brasilíu, Tékklands, Danmörku, Finnlands, Frakklands, Þýskalands, Ítalíu, Hollands, Póllands, Portúgals, Spánar, Svíþjóðar, Sviss og Bretlands, auk gestaþjóðarinnar Chile. ESO heldur úti metnaðarfullum verkefnum sem miða að hönnun, smíði og starfsemi öflugra stjörnustöðva á jörðinni sem gera stjörnufræðingum kleift að gera mikilvægar uppgötvanir. ESO leikur líka lykilhlutverk í að efla og skipuleggja samstarf í stjarnvísindarannsóknum. ESO starfrækir þrjár stjörnuathugunarstöðvar í heimsflokki: La Silla, Paranal og Chajnantor. Á Paranalfjalli starfrækir ESO Very Large Telescope, fullkomnustu stjörnusjónauka heims sem notaðir eru til athugana á sýnilegu ljósi og tvo kortlagningarsjónauka. VISTA er stærsti kortlagningarsjónauki veraldar fyrir innrautt ljós og VLT Survey Telescope er stærsti sjónauki heims sem eingöngu er ætlað að kortleggja himinn í sýnilegu ljósi. ESO er stór þátttakandi í ALMA, stærsta stjarnvísindaverkefni heims. Á Cerro Armazones, skammt frá Paranal, er ESO að smíða 39 metra risasjónauka, European Extremely Large Telescope eða E-ELT sem verður „stærsta auga jarðar“.

Tenglar

Tengiliðir

Sævar Helgi Bragason
Stjörnufræðivefurinn
Reykjavík, Ísland
Farsími: 8961984
Tölvupóstur: eson-iceland@eso.org

Sean M. Andrews
Harvard-Smithsonian Center for Astrophysics
Cambridge, Massachusetts, USA
Tölvupóstur: sandrews@cfa.harvard.edu

Charles Blue
NRAO Public Information Officer
Sími: +1 434 296-0314
Tölvupóstur: cblue@nrao.edu

Richard Hook
ESO Public Information Officer
Garching bei München, Germany
Sími: +49 89 3200 6655
Farsími: +49 151 1537 3591
Tölvupóstur: rhook@eso.org

Connect with ESO on social media

Þetta er þýðing á fréttatilkynningu ESO eso1611.

Um fréttatilkynninguna

Fréttatilkynning nr.:eso1611is
Nafn:TW Hydrae
Tegund:Milky Way : Star : Circumstellar Material : Disk : Protoplanetary
Facility:Atacama Large Millimeter/submillimeter Array
Science data:2016ApJ...820L..40A

Myndir

ALMA image of the disc around the young star TW Hydrae
ALMA image of the disc around the young star TW Hydrae
texti aðeins á ensku
ALMA image of the planet-forming disc around the young, Sun-like star TW Hydrae
ALMA image of the planet-forming disc around the young, Sun-like star TW Hydrae
texti aðeins á ensku
Inner region of the TW Hydrae protoplanetary disc as imaged by ALMA
Inner region of the TW Hydrae protoplanetary disc as imaged by ALMA
texti aðeins á ensku

Myndskeið

ALMA image of the disc around the young star TW Hydrae
ALMA image of the disc around the young star TW Hydrae
texti aðeins á ensku