eso1607is — Fréttatilkynning

Dvalarstaðir falinna risastjarna

2. mars 2016

Á þessari nýju mynd sjást skarlatsrauð gasský sem sjaldgæfar. massamiklar og nýmyndaðar sjtörnur, sem enn eru grafnar innan í þykkum rykskýjunum, lýsa upp. Tími þessara barnungu, brennheitu stjarna í sviðsljósinu er stuttur og uppruni þeirra er enn mikil ráðgáta. Þokan sem stjörnurnar urðu til úr, sem og tignarlegt umhverfi hennar, sést hér í smáatriðum á mynd sem tekin var með VLT Survey Telescope (VST) ESO í Paranal stjörnustöðinni í Chile.

RCW 106 er víðáttumikið gas- og rykský í um það bil 12.000 ljósára fjarlægð frá Jörðinni í stjörnumerkinu Hornmátinu. Skýið er 106. fyrirbærið í skrá yfir röfuð vetnisský á suðurhveli himins [1]. Röfuð vetnisský, eins og RCW 106, eru úr vetnisgasi sem hafa jónast eða rafast fyrir tilverknað orkuríks ljóss frá heitum, ungum stjörnum sem valda því að þau glóa og mótar einnig lögun þeirra.

RCW 106 er rauða skýið fyrir ofan miðja mynd, þótt stór hluti af þessu rafaða vetnisskýi sé falinn á bakvið ryk og er raunar miklu víðfeðmara en það sem við sjáum hér. Á myndinni frá VST sjást ennfremur mörg önnur ótengd fyrirbæri. Til dæmis eru slæðurnar vinstra megin á myndinni leifar sprengistjarna en slæðurnar rauðglóandi neðarlega vinstra megin umlykja óvenjulega og mjög heita stjörnu [2]. Dökkir rykkekkir sjást líka á víð og dreif.

Stjörnufræðingar hafa rannsakað RCW 106 um þó nokkurn tíma, þótt ekki séu það skarlatsrauðu skýin sem vekji áhuga þeirra, heldur dularfullur uppruni massamiklu og öflugu risastjarnan sem þau geyma. Þótt stjörnurnar séu afar skærar koma þær ekki fram á ljósmyndum af sýnilegu ljósi eins og þessari þar sem rykið í kring er of þykkt. Þær stjörnurnar sjást hins vegar vel á myndum sem teknar eru á lengri bylgjulengdum.Ferlið sem getur af sér efnisminni stjörnur eins og sólina liggur nokkuð ljóst fyrir — gasský fellur saman undan eigin þyngdarkrafti svo þétttleikinn eykst og hitastig hækkar uns kjarnasamruni hefst — en í tilviki flestra efnismeiri stjarna virðist sú skýring ekki duga. Þessar risastjörnur — sem stjörnufræðingar kalla O-stjörnur — eru margfalt massameiri en sólin okkar og ekki liggur fyrir hvernig þær safna saman nægilegu gasi til þess að myndast.

Stjörnur af O-gerð verða líklega til í þéttustu svæðum geimskýja eins og RCW 106 en einstaklega erfitt er að rannsaka slíkar stjörnur. Fyrir utan að vera oft sveipaðar ryki þá lifa O-stjörnur líka stutt sem skapar ákveðið vandamál. Þær brenna vetnisforða sínum á aðeins tíu milljón árum eða svo á meðan léttustu stjörnurnar endast í tugi milljarða ára. Þar sem O-stjörnurnar endast bæði stutt og myndast ekki svo auðveldlega eru þær mjög sjaldgæfar — aðeins ein af hverjum þremur milljónum stjarna í nágrenni okkar í geimnum er O-stjarna. Engin er nógu nálægt til að hægt sé að rannsaka slíka stjörnu í smáatriðum, svo myndun þeirra er enn hulin ráðgáta. Áhrif þeirra á umhverfið eru hins vegar augljós eins og þetta glóandi vetnisský er dæmi um.

Skýringar

[1] Þrír stjörnufræðingar við Stromlo-stjörnustöðina í Ástralíu, sem báru eftirnöfnin Rodgers, Campbell og Whiteoak, tóku skrána saman árið 1960, sbr. skammstöfunina RCW.

[2] Sprengistjörnuleifin er SNR G3332.4-00.4, einnig kölluð RCW 103. Hún er um 2000 ára gömul. Neðri slæðurnar eru RCW 104 í kringum Wolf-Rayet stjörnuna WR 75. Þótt þessi fyrirbæri beri RCW númer sýndu seinni tíma rannsóknir að hvorug þeirra voru röfuð vetnisský.

Frekari upplýsingar

ESO er fremsta fjölþjóðlega stjörnustöð Evrópu og lang öflugasta stjörnustöð heims. Hún nýtur stuðnings 16 landa: Austurríkis, Belgíu, Brasilíu, Tékklands, Danmörku, Finnlands, Frakklands, Þýskalands, Ítalíu, Hollands, Póllands, Portúgals, Spánar, Svíþjóðar, Sviss og Bretlands, auk gestaþjóðarinnar Chile. ESO heldur úti metnaðarfullum verkefnum sem miða að hönnun, smíði og starfsemi öflugra stjörnustöðva á jörðinni sem gera stjörnufræðingum kleift að gera mikilvægar uppgötvanir. ESO leikur líka lykilhlutverk í að efla og skipuleggja samstarf í stjarnvísindarannsóknum. ESO starfrækir þrjár stjörnuathugunarstöðvar í heimsflokki: La Silla, Paranal og Chajnantor. Á Paranalfjalli starfrækir ESO Very Large Telescope, fullkomnustu stjörnusjónauka heims sem notaðir eru til athugana á sýnilegu ljósi og tvo kortlagningarsjónauka. VISTA er stærsti kortlagningarsjónauki veraldar fyrir innrautt ljós og VLT Survey Telescope er stærsti sjónauki heims sem eingöngu er ætlað að kortleggja himinn í sýnilegu ljósi. ESO er stór þátttakandi í ALMA, stærsta stjarnvísindaverkefni heims. Á Cerro Armazones, skammt frá Paranal, er ESO að smíða 39 metra risasjónauka, European Extremely Large Telescope eða E-ELT sem verður „stærsta auga jarðar“.

Tenglar

Tengiliðir

Sævar Helgi Bragason
Stjörnufræðivefurinn
Reykjavík, Ísland
Farsími: 8961984
Tölvupóstur: eson-iceland@eso.org

Richard Hook
ESO education and Public Outreach Department
Garching bei München, Germany
Sími: +49 89 3200 6655
Farsími: +49 151 1537 3591
Tölvupóstur: rhook@eso.org

Connect with ESO on social media

Þetta er þýðing á fréttatilkynningu ESO eso1607.

Um fréttatilkynninguna

Fréttatilkynning nr.:eso1607is
Nafn:RCW 106
Tegund:Milky Way : Star : Type : Wolf-Rayet
Milky Way : Nebula : Type : Star Formation
Milky Way : Nebula : Type : Supernova Remnant
Facility:VLT Survey Telescope
Instruments:OmegaCAM

Myndir

The sky around the star formation region RCW 106
The sky around the star formation region RCW 106
texti aðeins á ensku
The sky around the star formation region RCW 106 (wide-field  view)
The sky around the star formation region RCW 106 (wide-field view)
texti aðeins á ensku
The sky around the star formation region RCW 106 (annotated)
The sky around the star formation region RCW 106 (annotated)
texti aðeins á ensku
The star formation region RCW 106 in the constellation of Norma
The star formation region RCW 106 in the constellation of Norma
texti aðeins á ensku

Myndskeið

A close look at the sky around the star formation region RCW 106
A close look at the sky around the star formation region RCW 106
texti aðeins á ensku