eso1547is — Fréttatilkynning

VLT skoðar forvitnilegan geimárekstur á ný

9. desember 2015

Á þessari nýju mynd frá Very Large Telescope ESO í Paranal stjörnustöðinni sjást afleiðingar áreksturs sem varð fyrir um 350 milljónum ára. Innan um brakið er sjaldséð og dularfull ung dvergvetrarbraut. Þessi vetrarbraut gefur stjörnufræðingum gott tækifæri til að læra meira um samskonar vetrarbrautir sem taldar eru hafa verið algengar í árdaga alheimsins en eru alla jafna of fjarlægar og daufar til að greinast í sjónaukum nútímans.

Þokukenndi, gyllti klumpurinn á miðri myndinni er sporvöluvetrarbrautin NGC 5291, sem er í nærri 200 milljón ljósára fjarlægð frá Jörðinni í stjörnumerkinu Mannfáknum. Fyrir rúmum 350 milljónum ára lenti NGC 5291 harkalega saman við aðra vetrarbraut sem rakst á miklum hraða á kjarna hennar. Við áreksturinn þeyttist „brakið“, risavaxnir gastaumar, út í geiminn í kring sem þjöppuðust saman í hring í kringum NGC 5291 [1].

Með tímanum safnaðist efnið í hringnum saman í tugi stjörnumyndunarsvæða og nokkrar litlar vetrarbrautir sem sjást sem fölblá og ljósleit svæði á víð og dreif í krignum NGC 5291 á þessari nýju mynd frá FORS mælitækinu á VLT. Stærsti og bjartasti efniskökkurinn hægra megin við NGC 5291 er ein þessara dvergvetrarbrauta en hún kallast NGC 5291N.

Talið er að Vetrarbrautin okkar, eins og allar stórar vetrarbrautir, hafi myndast við samruna dvergvetrarbrauta snemma í sögu alheimsins. Ef þessar litlu vetrarbrautir lifðu af fram til dagsins í dag innihalda þær venjulega margar mjög gamlar stjörnur.

NGC 5291N virðist hins vegar ekki geyma neinar gamlar stjörnur. Ítarlegar rannsóknir með MUSE litrófsritanum [2] sýndu þvert á móti að í útjöðrum hennar voru merki um myndun nýrrra stjarna, þvert á það sem spár gerðu ráð fyrir. Stjörnufræðingar telja að þetta gæti verið vegna risaáreksturs gasskýja á svæðinu.

NGC 5291N lítur ekki út eins og dæmigerð dvergvetrarbraut heldur ber hún merki kekkjóttra myndana sem við sjáum í mörgum hrinuvetrarbrautum. Fyrir vikið er þessi dvergvetrarbraut einstök í nágrenni okkar í geimnum og mikilvæg fyrir rannsóknir á gasríkum vetrarbrautum, sem venjulega eru alltof fjarlægar til að hægt sé að rannsaka þær með sjónaukum nútímans.

Ýmsir sjónaukar á Jörðu niðri hafa verið notaðir til að rannsaka þetta óvenjulega kerfi, þar á meðal 3,6 metra sjónauki ESO í La Silla stjörnustöðinni [3]. Greinigeta MUSE, FORS og Very Large Telescope hafa hins vegar aðeins nýlega gert mönnum kleift að átta sig á sögu og eiginleikum NGC 5291N.

Frekari mælingar, þar á meðal með European Extremely Large Telescope (E-ELT) ESO, gætu gert stjörnufræðingunm kleift að ráða betur fram úr leyndardómum dvergvetrarbrautarinnar.

Skýringar

[1] NGC 5291 víxlverkar líka við MCG-05-33-005 — Skeljavetrarbrautina svonefndu — sem er sérkennilega kommulaga vetrarbrautin rétt fyrir neðan bjartan kjarna NGC 5291.

[2] Mælingar á NGC 5291N voru gerðar með heildarsviðslitrófsritanum MUSE. Heildarsviðslitrófsritar gera litrófsmælingar á öllum punktum á því svæði á himninum sem verið er að rannsaka og útbýr þannig þrívíða mynd af viðfangsefninu. Mælingar MUSE sýndu óvænt ljómlínur súrefnis og vetnis í útjöðrum NGC 5291N.

[3] Stjörnufræðingar rannsökuðu NGC 5291 með 3,6 metra sjónauka ESO í La Silla stjörnustöðinni árið 1978. Mælingarnar sýndu miikið magn efnis í geimnum í kringum vetrarbrautina sem við vitum nú að eru stjörnumyndunarsvæði og nokkrar dvergvetrarbrautir sem urðu til úr samþjöppuninni í gashringum.

Frekari upplýsingar

Rannsóknin var kynnt í greininni „Ionization processes in a local analogue of distant clumpy galaxies: VLT MUSE IFU spectroscopy and FORS deep images of the TDG NGC 5291N”, eftir J. Fensch o.fl., sem birtist í tímaritinu Astronomy & Astrophysics.

Í rannsóknarteyminu eru J. Fensch (Laboratoire AIM Paris-Saclay, CEA/IRFU/SAp, Universite Paris Diderot, Gif-sur-Yvette, Frakklandi [CEA]), P.-A. Duc (CEA) , P. M. Weilbacher (Leibniz-Institut für Astrophysik, Potsdam, Þýskalandi), M. Boquien (University of Cambridge, Bretlandi; Universidad de Antofagasta, Antofagasta, Chile) og E. Zackrisson (Uppsala University, Uppsala, Svíþjóð).

ESO er fremsta fjölþjóðlega stjörnustöð Evrópu og lang öflugasta stjörnustöð heims. Hún nýtur stuðnings 16 landa: Austurríkis, Belgíu, Brasilíu, Tékklands, Danmörku, Finnlands, Frakklands, Þýskalands, Ítalíu, Hollands, Póllands, Portúgals, Spánar, Svíþjóðar, Sviss og Bretlands, auk gestaþjóðarinnar Chile. ESO heldur úti metnaðarfullum verkefnum sem miða að hönnun, smíði og starfsemi öflugra stjörnustöðva á jörðinni sem gera stjörnufræðingum kleift að gera mikilvægar uppgötvanir. ESO leikur líka lykilhlutverk í að efla og skipuleggja samstarf í stjarnvísindarannsóknum. ESO starfrækir þrjár stjörnuathugunarstöðvar í heimsflokki: La Silla, Paranal og Chajnantor. Á Paranalfjalli starfrækir ESO Very Large Telescope, fullkomnustu stjörnusjónauka heims sem notaðir eru til athugana á sýnilegu ljósi og tvo kortlagningarsjónauka. VISTA er stærsti kortlagningarsjónauki veraldar fyrir innrautt ljós og VLT Survey Telescope er stærsti sjónauki heims sem eingöngu er ætlað að kortleggja himinn í sýnilegu ljósi. ESO er stór þátttakandi í ALMA, stærsta stjarnvísindaverkefni heims. Á Cerro Armazones, skammt frá Paranal, er ESO að smíða 39 metra risasjónauka, European Extremely Large Telescope eða E-ELT sem verður „stærsta auga jarðar“.

Tenglar

Tengiliðir

Sævar Helgi Bragason
Háskóli Íslands
Reykjavík, Ísland
Farsími: 8961984
Tölvupóstur: eson-iceland@eso.org

Jérémy Fensch
Laboratoire AIM Paris-Saclay, CEA/IRFU/SAp, Universite Paris Diderot
Gif-sur-Yvette, France
Tölvupóstur: jeremy.fensch@gmail.com

Richard Hook
ESO Public Information Officer
Garching bei München, Germany
Sími: +49 89 3200 6655
Farsími: +49 151 1537 3591
Tölvupóstur: rhook@eso.org

Connect with ESO on social media

Þetta er þýðing á fréttatilkynningu ESO eso1547.

Um fréttatilkynninguna

Fréttatilkynning nr.:eso1547is
Nafn:NGC 5291
Tegund:Local Universe : Galaxy : Type : Interacting
Facility:Very Large Telescope
Instruments:FORS2
Science data:2016A&A...585A..79F

Myndir

The surroundings of the interacting galaxy NGC 5291
The surroundings of the interacting galaxy NGC 5291
texti aðeins á ensku
The interacting galaxy NGC 5291 in the constellation of Centaurus
The interacting galaxy NGC 5291 in the constellation of Centaurus
texti aðeins á ensku
Wide-field view of the sky around the interacting galaxy NGC 5291
Wide-field view of the sky around the interacting galaxy NGC 5291
texti aðeins á ensku
The surroundings of the interacting galaxy NGC 5291 (annotated)
The surroundings of the interacting galaxy NGC 5291 (annotated)
texti aðeins á ensku

Myndskeið

Zooming in on the interacting galaxy system NGC 5291
Zooming in on the interacting galaxy system NGC 5291
texti aðeins á ensku
Close-up view of the surroundings of the interacting galaxy NGC 5291
Close-up view of the surroundings of the interacting galaxy NGC 5291
texti aðeins á ensku