eso1543is — Fréttatilkynning

Fyrstu mælingar SEPIA

Nýtt mælitæki á APEX leitar að vatni í geimnum

4. nóvember 2015

Nýju mælitæki sem komið hefur verið fyrir á hinum 12 metra breiða Atacama Pathfinder Experiment (APEX) sjónauka, sem er í 5000 metra hæð yfir sjávarmáli í Andesfjöllum Chile, hefur opnað nýjan og áður ókannaðann glugga út í alheiminn. Sænski-ESO PI móttakarinn fyrir APEX (SEPIA) á að mæla dauf merki frá vatni og öðrum sameindum í Vetrarbrautinni okkar, öðrum nálægum vetrarbrautum og frá árdögum alheimsins.

Fyrr á þessu ári var SEPIA mælitækinu [1] komið fyrir á APEX sjónaukanum en tækið nemur ljós með 1,4 til 1,8 millímetra bylgjulengd [2]. Á Chajnantor hásléttunni í norðurhluta Chile er mjög þurrt og allar aðstæður til stjörnuathugana framúrskarandi sem þýðir að SEPIA getur fundið dauf merki um vatn í geimnum, þrátt fyrir að vatnsgufa í lofthjúpi Jarðar gleypi slíka geislun alla jafna í sig.

Stjörnufræðingar hafa mikinn áhuga á þessum bylgjulengdum sem vatn í geimnum geislar frá sér. Vatn er mikilvægt í mörgum stjarneðlisfræðilegum ferlum, þar á meðal í myndun stjarna, og er talið leika mikilvægt hlutverk í uppruna lífs. Búist er við að rannsóknir á vatni í geimnum — í sameindaskýjum, stjörnumyndunarsvæðum og halastjörnum í sólkerfinu okkar — veiti nauðsynlegar upplýsingar um hlutverk vatns í Vetrarbrautinni okkar og í sögu Jarðar. Þar fyrir utan er SEPIA einstaklega öflugt tæki til að nema kolmónoxíð og jónað kolefni í vetrarbrautum í árdaga alheimsins.

Nýi SEPIA móttakarinn var notaður í tilraunamælingar með APEX á þessu ári. Samskonar mælitæki verða sett upp í loftnetum ALMA. Niðurstöðurnar sýna að nýja mælitækið á APEX virkar vel. Fyrir vikið er SEPIA nú orðið aðgengilegt fyrir stjarnvísindamenn almennt og geta þeir nú loks óskað eftir gögnum frá tækinu.

„Fyrstu mælingar SEPIA og APEX sýna að nýr gluggi er að opnast í leit að vatni í geimnum. SEPIA mun gera stjörnufræðingum kleift að finna fyrirbæri sem síðan verða skoðuð betur þegar samskonar tæki verða tekin í notkun í ALMA sjónaukaröðinni,“ segir John Conway, framkvæmdarstjóri Onsala Space Observatory við Chalmers tækniháskólann í Svíþjóð.

Mjög þurrar aðstæður þarf til að nema merki frá vatni í geimnum á löngum bylgjulengdum á sama hátt og dimmur himinn er nauðsynlegur til að sjá stjarnfræðileg fyrirbæri í sýnilegu ljósi. Ekki aðeins þarf að vera þurrt heldur verður að kæla mælitækin niður í –269°C — aðeins 4 gráður yfir alkuli — til þess að þau virki sem skildi. Nýlegar tækniframfarir hafa nú loks gert þessi mælitæki möguleg og nothæf.

APEX, sem er samstarfsverkefni Max Planck Institute for Radio Astronomy (MPIfR), Onsala Space Observatory (OSO) og ESO, er stærsti staki hálfsmillímetra-sjónaukinn á suðurhveli Jarðar og er byggður á frumgerð loftnetanna sem reist voru fyrir ALMA verkefnið.

Skýringar

[1] SEPIA stendur fyrir „Swedish ESO PI receiver for APEX“. SEPIA var hannað og smíðað af Group for Advanced Receiver Developement (GARP) hópnum í Onsala Space Observatory við Chalmers tækniháskólann í Svíþjóð með stuðningi ESO. SEPIA getur tekið við þremur móttökurum og er einn móttakari nú þegar í tækinu. Hylkið fyrir móttakarana var upphaflega þróað og prófað fyrir ALMA Band 6 sem hluti af verkefni Evrópuráðsins sem stutt var af 6 rammaáætluninni (ALMA Enhancement). ESO lagði til sveifluvaka en NRAO rafbúnaðinn. (ann15059)

Sepia (rauðbrúnn) er líka litur sem tengist vatni. Rauðbrúni liturinn, einkennislitur bleks sem safnað er úr smokkfisktegundinni Sepia (sem finnst bæði við Svíþjóð og Chile), hefur verið notaður sem blek frá alda öðli. Rauðbrúnir tónar gefa ljósmyndum líka lengri líftíma.

[2] Tíðnin er milli 158 og 211 GHz.

Frekari upplýsingar

APEX er samstarfsverkefni Stofnunar Max Planck í útvarpsstjörnufræði (MPIfR) Onsala Space Observatory (OSO) og ESO, sem sér jafnframt um rekstur sjónaukans. ESO sér um smíði og rekstur ALMA fyrir hönd Evrópu.

ALMA er samvinnuverkefni ESO (fyrir hönd aðildarríkja sinna), NSF (Bandaríkin) og NINS (Japan), auk NRC (Kanada), NSC og ASIAA (Taívan) og KASI (Suður Kórea), í samstarfi við Chile. Joint ALMA Observatory er í umsjá ESO, AUI/NRAO og NAOJ.

ESO er fremsta fjölþjóðlega stjörnustöð Evrópu og lang öflugasta stjörnustöð heims. Hún nýtur stuðnings 16 landa: Austurríkis, Belgíu, Brasilíu, Tékklands, Danmörku, Finnlands, Frakklands, Þýskalands, Ítalíu, Hollands, Póllands, Portúgals, Spánar, Svíþjóðar, Sviss og Bretlands, auk gestaþjóðarinnar Chile. ESO heldur úti metnaðarfullum verkefnum sem miða að hönnun, smíði og starfsemi öflugra stjörnustöðva á jörðinni sem gera stjörnufræðingum kleift að gera mikilvægar uppgötvanir. ESO leikur líka lykilhlutverk í að efla og skipuleggja samstarf í stjarnvísindarannsóknum. ESO starfrækir þrjár stjörnuathugunarstöðvar í heimsflokki: La Silla, Paranal og Chajnantor. Á Paranalfjalli starfrækir ESO Very Large Telescope, fullkomnustu stjörnusjónauka heims sem notaðir eru til athugana á sýnilegu ljósi og tvo kortlagningarsjónauka. VISTA er stærsti kortlagningarsjónauki veraldar fyrir innrautt ljós og VLT Survey Telescope er stærsti sjónauki heims sem eingöngu er ætlað að kortleggja himinn í sýnilegu ljósi. ESO er stór þátttakandi í ALMA, stærsta stjarnvísindaverkefni heims. Á Cerro Armazones, skammt frá Paranal, er ESO að smíða 39 metra risasjónauka, European Extremely Large Telescope eða E-ELT sem verður „stærsta auga jarðar“.

Tenglar

Tengiliðir

Sævar Helgi Bragason
Háskóli Íslands
Reykjavík, Ísland
Farsími: 8961984
Tölvupóstur: eson-iceland@eso.org

Carlos De Breuck
ESO APEX Programme Scientist
Garching bei München, Germany
Sími: +49 89 3200 6613
Tölvupóstur: cdebreuc@eso.org

Richard Hook
ESO Public Information Officer
Garching bei München, Germany
Sími: +49 89 3200 6655
Farsími: +49 151 1537 3591
Tölvupóstur: rhook@eso.org

Connect with ESO on social media

Þetta er þýðing á fréttatilkynningu ESO eso1543.

Um fréttatilkynninguna

Fréttatilkynning nr.:eso1543is
Nafn:First Light, SEPIA
Tegund:Unspecified : Technology : Observatory : Instrument
Facility:Atacama Pathfinder Experiment
Instruments:SEPIA

Myndir

New APEX instrument for finding water in the Universe
New APEX instrument for finding water in the Universe
texti aðeins á ensku
New APEX instrument for finding water in the Universe
New APEX instrument for finding water in the Universe
texti aðeins á ensku
SEPIA instrument being installed on APEX
SEPIA instrument being installed on APEX
texti aðeins á ensku
Schematic drawing of the SEPIA instrument
Schematic drawing of the SEPIA instrument
texti aðeins á ensku
Observations of the star W Hydrae using SEPIA
Observations of the star W Hydrae using SEPIA
texti aðeins á ensku