eso1542is — Fréttatilkynning

VISTA uppgötvar áður óþekkt svæði í Vetrarbrautinni okkar

28. október 2015

Stjörnufræðingar sem notuðu VISTA sjónaukann í Paranal stjörnustöð ESO hafa fundið áður óþekktan hluta af Vetrarbrautinni okkar. Með því að kortleggja hvar Sefíta, stjörnur sem breyta birtu sinni lotubundið, er að finna á bak við þykk rykský í miðbungu Vetrarbrautarinnar, kom óvænt í ljós skífa úr ungum stjörnum.

VISTA Variables in the Vía Láctea Survey (VVV) [1] er kortlagningarverkefni ESO sem snýst um að nota VISTA sjónaukann í Paranal stjörnustöðinni til að taka innrauðar ljósmyndir af miðsvæðum Vetrarbrautarinnar á mismunandi tímum [2]. Í verkefninu hefur fjöldi nýrra fyrirbæra fundist, þar á meðal sveiflustjörnur, þyrpingar og sprengistjörnur (eso1101, eso1128, eso1141).

Hópur stjörnufræðinga undir forystu Istvan Dékány við Pontificia Universidad Católica de Chile, notaði gögn úr verkefninu sem aflað var milli 2010 og 2014 og gerði merkilega uppgötvun á áður óþekktu svæði í Vetrarbrautinni okkar.

„Talið er að í miðbungu Vetrarbrautarinnar sé aragrúi gamalla stjarna. Gögn frá VISTA hafa hins vegar leitt í ljós nýtt svæði sem inniheldur mjög ungar stjörnur á stjarnfræðilegan mælikvarða!“ segir Istvan Dékány, aðalhöfundur greinar um rannsóknina.

Rannsókn stjörnufræðinganna leiddi í ljós 655 sveiflustjörnur af gerð Sefíta. Stjörnur af þessu tagi þenjast út og dragast saman í lotum sem standa yfir í allt frá fáeinum dögum upp í nokkra mánuði. Um leið sveiflast birta þeirra umtalsvert.

Birtubreytingarnar eru lengri fyrir bjartari Sefíta en styttri fyrir daufari Sefíta. Bandaríska stjarnvísindakonan Henrietta Swan Leavitt uppgötvaði þetta nákvæma samband árið 1908 en það gerir Sefíta að einu bestu aðferðinni til að mæla fjarlægðir og kortleggja fjarlæg fyrirbæri í Vetrarbrautinni og utan hennar.

Þó er einn hængur á. Sefítar eru ekki allir af sama meiði og skiptast í tvo flokka þar sem annar samanstendur af mun yngri stjörnum en hinn. Af Sefítunum 655 fundu stjörnufræðingarnir 35 stjörnur sem tilheyra undirflokki sem kallast sígildir Sefítar, sem eru ungar og bjartar stjörnur og gerólíkir hefðbundum eldri stjörnum í miðbungu Vetrarbrautarinnar.

Stjörnufræðingarnir öfluðu gagna um birtu, sveiflulotur og reiknuðu út fjarlægðir til þessara 35 sígildu Sefíta. Sveifluloturnar, sem tengjast náið aldri stjarnanna, leiddu í ljós að þær Sefítarnir voru óvenju ungir.

„Allir 35 sígildu Sefítarnir sem við uppgötvuðum eru innan við 100 milljón ára gamlar. Yngsti Sefítinn gæti jafnvel verið aðeins um 25 milljón ára en við getum ekki útilkokað hugsanlega tilvist enn yngri og bjartari Sefíta,“ segir Dante Minniti við Universidad Andres Bello í Santiago í Chile, annar meðhöfundur greinarinnar.

Aldur sígildu Sefítanna sannar að áður óþekkt en stöðugt framboð hefur verið af nýmynduðum stjörnum inn í miðsvæði Vetrarbrautarinnar síðastliðin 100 milljón ár. Það var hins vegar ekki það eina áhugaverða uppgötvunin.

Með því að kortleggja hvar Sefítana er að finna komu stjörnufræðingarnir auga á nýtt svæði í Vetrarbrautinni — þunna skífu úr ungum stjörnum sem liggja meðfram bungunni. Þetta áður óþekkta svæði hefur ekki sést áður í öðrum rannsóknum því það er falið á bak við þykk rykský. Uppgötvunin sýnir einstök greinigæði VISTA sjónaukans sem hannaður var til að rannsaka uppbyggingu Vetrarbrautarinnar með því að taka víðmyndir í hárri upplausn á innrauðum bylgjulengdum.

„Rannsóknin er gott dæmi um getu VISTA sjónaukans til að kanna falin svæði í Vetrarbrautinni sem enginn annar sjónauki í heiminum er fær um,“ segir Dékány.

„Þetta svæði í Vetrarbrautinni var alveg óþekkt uns það fannst í VVV kortlagningunni,“ bætir Minniti við.

Frekari rannsóknir þarf til að meta hvort þessir Sefítar urðu til á þeim slóðum sem þeir eru núna, eða hvort mynduðust utar. Skilningur á grundvallareiginleikum þeirra og þróun er lykill að því að skilja þróun Vetrarbrautarinnar.

Skýringar

[1] VVV kortlagningarverkefnið snýst um að rannsaka miðsvæði Vetrarbrautarinnar á fimm nær-innrauðum bylgjulengdum. Heildarsvæðið er 520 fergráður að flatarmáli og inniheldur að minnsta kosti 355 lausþyrpingar og 33 kúluþyrpingar. VVV er ætlað að rannsaka fjölda breytilegra fyrirbæra á ýmsum aldri og mun þegar yfir líkur skila meira en 100 nákvæmum mælingum á öllum fyrirbærunum á mismunandi tímum. Úr mælingunum verður til skrá með um milljarði punktuppspretta, þar á meðal meira en milljón breytilegum fyrirbærum. Skráin verður notuð til að útbúa þrívítt kort af bungu Vetrarbrautarinnar.

[2] Rykskýin í geimnum gleypa og dreifa sýnilegu ljósi mjög vel sem gerir þau ógegnsæ. Á lengri bylgjulengdum, eins og þeim sem VISTA rannsakar, eru skýin mun gegnsærri sem gerir stjörnufræðingum kleift að rannsaka það sem leynist handan þeirra.

Frekari upplýsingar

Rannsóknin var kynnt í greininni „The VVV Survey reveals classical Cepheids tracing a young and thin stellar disk across the Galaxy’s bulge“, eftir I. Dékány o.fl., í Astrophysical Journal Letters.

Í rannsóknarteyminu eru I. Dékány (Instituto Milenio de Astrofísica, Santiago, Chile; Pontificia Universidad Católica de Chile, Santiago, Chile), D. Minniti (Universidad Andres Bello, Santiago, Chile; Instituto Milenio de Astrofísica MAS og Basal CATA, Santiago, Chile; og Vatican Observatory, Vatikaninu), D. Majaess (Saint Mary’s University, Halifax, Nova Scotia, Canada; Mount Saint Vincent University, Halifax, Nova Scotia, Kanada) , M. Zoccali (Pontificia Universidad Católica de Chile, Santiago, Chile; Instituto Milenio de Astrofísica, Santiago, Chile), G. Hajdu (Pontificia Universidad Católica de Chile, Santiago, Chile; Instituto Milenio de Astrofísica, Santiago, Chile), J. Alonso-García (Universidad de Antofagasta, Antofagasta, Chile; Instituto Milenio de Astrofísica, Santiago, Chile), M. Catelan (Pontificia Universidad Católica de Chile, Santiago, Chile; Instituto Milenio de Astrofísica, Santiago, Chile), W. Gieren (Universidad de Concepción, Concepción, Chile; Instituto Milenio de Astrofísica, Santiago, Chile) og J. Borissova (Universidad de Valparaíso, Valparaíso, Chile; Instituto Milenio de Astrofísica, Santiago, Chile).

ESO er fremsta fjölþjóðlega stjörnustöð Evrópu og lang öflugasta stjörnustöð heims. Hún nýtur stuðnings 16 landa: Austurríkis, Belgíu, Brasilíu, Tékklands, Danmörku, Finnlands, Frakklands, Þýskalands, Ítalíu, Hollands, Póllands, Portúgals, Spánar, Svíþjóðar, Sviss og Bretlands, auk gestaþjóðarinnar Chile. ESO heldur úti metnaðarfullum verkefnum sem miða að hönnun, smíði og starfsemi öflugra stjörnustöðva á jörðinni sem gera stjörnufræðingum kleift að gera mikilvægar uppgötvanir. ESO leikur líka lykilhlutverk í að efla og skipuleggja samstarf í stjarnvísindarannsóknum. ESO starfrækir þrjár stjörnuathugunarstöðvar í heimsflokki: La Silla, Paranal og Chajnantor. Á Paranalfjalli starfrækir ESO Very Large Telescope, fullkomnustu stjörnusjónauka heims sem notaðir eru til athugana á sýnilegu ljósi og tvo kortlagningarsjónauka. VISTA er stærsti kortlagningarsjónauki veraldar fyrir innrautt ljós og VLT Survey Telescope er stærsti sjónauki heims sem eingöngu er ætlað að kortleggja himinn í sýnilegu ljósi. ESO er stór þátttakandi í ALMA, stærsta stjarnvísindaverkefni heims. Á Cerro Armazones, skammt frá Paranal, er ESO að smíða 39 metra risasjónauka, European Extremely Large Telescope eða E-ELT sem verður „stærsta auga jarðar“.

Tenglar

Tengiliðir

Sævar Helgi Bragason
Háskóli Íslands
Reykjavík, Ísland
Farsími: 8961984
Tölvupóstur: eson-iceland@eso.org

Istvan Dékány
Instituto Milenio de Astrofí­sica, Pontificia Universidad Católica de Chile
Santiago, Chile
Tölvupóstur: idekany@astro.puc.cl

Dante Minniti
Universidad Andres Bello
Santiago, Chile
Sími: +56 2 2661 8732
Tölvupóstur: dante@astrofisica.cl

Daniel Majaess
Saint Mary’s University, Mount Saint Vincent University
Halifax, Canada
Tölvupóstur: dmajaess@ap.smu.ca

Richard Hook
ESO Public Information Officer
Garching bei München, Germany
Sími: +49 89 3200 6655
Farsími: +49 151 1537 3591
Tölvupóstur: rhook@eso.org

Connect with ESO on social media

Þetta er þýðing á fréttatilkynningu ESO eso1542.

Um fréttatilkynninguna

Fréttatilkynning nr.:eso1542is
Nafn:Milky Way
Tegund:Milky Way
Facility:Visible and Infrared Survey Telescope for Astronomy
Science data:2015ApJ...812L..29D

Myndir

VISTA finds hidden feature of Milky Way
VISTA finds hidden feature of Milky Way
texti aðeins á ensku

Myndskeið

VISTA finds hidden feature of Milky Way
VISTA finds hidden feature of Milky Way
texti aðeins á ensku
VISTA finds hidden feature of Milky Way
VISTA finds hidden feature of Milky Way
texti aðeins á ensku