eso1539is — Fréttatilkynning
Yfirfullur Kolapoki
Hluti af geimskýinu Kolapokanum í nærmynd
14. október 2015
Dökkir blettir hylja næstum allan stjörnuskaran á þessari nýju mynd frá Wide Field Imager myndavélinni á 2,2 metra MPG/ESO sjónaukanum í La Silla stjörnustöð ESO í Chile. Biksvörtu svæðin eru hlutar af stórri skuggaþoku sem kallast Kolapokinn, einu mest áberandi fyrirbæri sinnar tegundar sem sést með berum augum á himninum. Eftir milljónir ára mun kvikna á „kolamolunum“ í Kolapokunum og þeir skína með bjarma ótal ungra stjarna.
Kolapokinn er í um 600 ljósára fjarlægð frá Jörðinni í stjörnumerkinu Suðurkrossinum. Þetta stóra rykský myndar áberandi skuggamynd fyrir framan bjartan stjörnuskara Vetrarbrautarinnar. Þess vegna mafa íbúar á suðurhveli þekkt til þokunnar frá örófi alda.
Árið 1499 tilkynnti spænski landkönnuðurinn Vicente Yáñez Pinzón fyrstur um tilvist þokunnar í Evrópu. Síðar var Kolapokanum gefið gælunafnið Svarta Magellansskýið til að aðgreina það frá björtum bjarma Magellansskýjanna tveggja sem eru fylgivetrarbrautir Vetrarbrautarinnar. Þessi björtu ský tvö eru greinileg berum augum á suðurhveli himins og vöktu athygli Evrópumanna í könnunarferðum Ferdinands Magellans á 16. öld. Kolapokinn er hins vegar ekki vetrarbraut. Líkt og aðrar skuggaþokur er um að ræða geimský úr ryki sem er svo þykkt að það byrgir sýn á stjörnur í bakgrunni.
Í skuggaþokunni er mikill fjöldi agna húðaðar frosnu vatni, nitri, kolmónoxíði og öðrum einföldum sameindum. Þessar agnir koma í veg fyrir að sýnilegt ljós berist í gegnum geimskýið. Til að sjá hve dimmur Kolapokinn er í raun og veru gerði finnski stjörnufræðingurinn Kalevi Mattila rannsókn árið 1970 sem sýndi að birta Kolapokans er í raun aðeins 10% af birtu Vetrarbrautarinnar í kring. Örlítill ljóstíra berst þó í gegnum Kolapokann eins og sjá má á myndinni nýju frá ESO og öðrum myndum sem teknar eru í dag.
Sá litli bjarmi sem berst í gegnum þokuna kemur ekki óbreytt út hinumegin. Ljósið sem við sjáum á myndinni lítur út fyrir að vera rauðara en ella. Ástæðan er sú að rykið í skuggaþokum gleypir og dreifir bláu ljósi frá stjörnum meira en rauðu sem gefur þeim rauðleitari blæ.
Eftir milljónir ára verða dimmir dagar Kolapokans á enda. Þykk geimský eins og Kolapokinn innihalda mikið gas og ryk — hráefnið í nýjar stjörnur. Þegar efnið í Kolapokunum fellur saman vegna þyngdarkraftsins kvikna stjörnur. „Kolamolarnir“ í Kolapokanum kvikna eins og þeir hafi komist í snertingu við loga.
Frekari upplýsingar
ESO er fremsta fjölþjóðlega stjörnustöð Evrópu og lang öflugasta stjörnustöð heims. Hún nýtur stuðnings 16 landa: Austurríkis, Belgíu, Brasilíu, Tékklands, Danmörku, Finnlands, Frakklands, Þýskalands, Ítalíu, Hollands, Póllands, Portúgals, Spánar, Svíþjóðar, Sviss og Bretlands, auk gestaþjóðarinnar Chile. ESO heldur úti metnaðarfullum verkefnum sem miða að hönnun, smíði og starfsemi öflugra stjörnustöðva á jörðinni sem gera stjörnufræðingum kleift að gera mikilvægar uppgötvanir. ESO leikur líka lykilhlutverk í að efla og skipuleggja samstarf í stjarnvísindarannsóknum. ESO starfrækir þrjár stjörnuathugunarstöðvar í heimsflokki: La Silla, Paranal og Chajnantor. Á Paranalfjalli starfrækir ESO Very Large Telescope, fullkomnustu stjörnusjónauka heims sem notaðir eru til athugana á sýnilegu ljósi og tvo kortlagningarsjónauka. VISTA er stærsti kortlagningarsjónauki veraldar fyrir innrautt ljós og VLT Survey Telescope er stærsti sjónauki heims sem eingöngu er ætlað að kortleggja himinn í sýnilegu ljósi. ESO er stór þátttakandi í ALMA, stærsta stjarnvísindaverkefni heims. Á Cerro Armazones, skammt frá Paranal, er ESO að smíða 39 metra risasjónauka, European Extremely Large Telescope eða E-ELT sem verður „stærsta auga jarðar“.
Tenglar
- Myndir af La Silla stjörnustöð ESO
- Myndir af 2,2 metra sjónauka MPG/ESO
- Myndir teknar með 2,2 metra sjónauka MPG/ESO
Tengiliðir
Sævar Helgi Bragason
Háskóli Íslands
8961984, Ísland
Farsími: 8961984
Tölvupóstur: eson-iceland@eso.org
Richard Hook
ESO education and Public Outreach Department
Garching bei München, Germany
Sími: +49 89 3200 6655
Farsími: +49 151 1537 3591
Tölvupóstur: rhook@eso.org
Um fréttatilkynninguna
Fréttatilkynning nr.: | eso1539is |
Nafn: | Coalsack G2, Coalsack Nebula, TGU H1867 |
Tegund: | Milky Way : Nebula : Appearance : Dark |
Facility: | MPG/ESO 2.2-metre telescope |
Instruments: | WFI |