eso1537is — Fréttatilkynning

Margnefnd geimrós

23. september 2015

Þessi nýja mynd af rósrauða stjörnumyndunarsvæðinu Messier 17 var tekin með Wide Field Imager á 2,2 metra MPG/ESO sjónaukanum í La Silla stjörnustöð ESO í Chile. Myndin er ein sú besta sem náðst hefur af þokunni í heild sinni. Hún sýnir þokuna ekki aðeins í öllu sínu veldi, heldur gas- og rykský og stjörnur í smáatriðum.

Í gegnum tíðina hefur þokan á myndinni líklega hlotið fleiri heiti en nokkurt annað fyrirbæri sömu gerðar á himninum. Formlega nefnist hún Messier 17 en er líka kölluð Omegaþokan, Svansþokan, Hakið, Skeifuþokan og Humarþokan.

Messier 17 er við flöt Vetrarbrautarinnar í um 5.500 ljósára fjarlægð frá Jörðinni í stjörnumerkinu Bogmanninum. Gas- og rykskýið er ansi stórt á himninum eða um 15 ljósár á breidd. Efnið í skýinu knýr myndun nýrra stjarna og á víðmyndinni sjást margar stjörnur fyrir framan, innan í og á bak við þokuna.

Þokan lítur út fyrir að vera flókin rauð myndun með bleikum blæbrigðum. Liturinn er einkennisgeislun vetnisgass. Skammlífar bláar stjörnur, sem urðu til nýlega í Messier 17, gefa frá sér nógu mikið útfjólublátt ljós til þess gasið í skýinu taki að glóa. Í miðjunni eru litirnir ljósari og sum svæði eru hvít. Hvíti liturinn er raunverulegur og stafar af blöndun ljóss frá heitasta gasinu og ljósi frá stjörnunum sem rykið endurvarpar.

Í þokunni er efni sem dygði í meira en 30.000 sólir. Í henni er lausþyping um 35 stjarna sem kallast NGC 6618 [1]. Heildarfjöldi stjarna í þokunni er hins vegar miklu meiri. Í miðjunni eru næstum 800 stjörnur og enn fleiri eru að myndast í ytri svæðunum.

Inn á milli rósrauða bjarmans eru vefir úr dökkum rykskýjum sem gleypa ljós. Rykið gefur raunar líka frá sér ljós þótt svæðin sýnist dökk á myndinni sem tekin er af sýnilegu ljósi. Rykskýin skína skært í innrauðu ljósi.

Þokan ber nafn franska halastjörnuleitarans Charles Messier sem færði hana í fræga skrá sína árið 1764 [2]. Þrátt fyrir að formlega heitð sé heldur tilþrifalítið er þessi blómlega þoka einstaklega glæsileg.

Myndin var tekin fyrir ESO Cosmic Gems verkefnið [1].

Skýringar

[1] Skráarheitið er líka stundum notað fyrir allt stjörnumyndunarsvæðið.

[2] Stjörnufræðingurinn Jean Philippe de Chéseaux uppgötvaði þokuna árið 1745 en uppgötun hans vakti ekki mikla athygli. Þannig var Messier sjálfum ekki kunnugt um uppgötvun de Chéseaux þegar hann fann þokuna sjálfur og skrásetti hana næstum 20 árum síðar.

[3] ESO Cosmic Gems verkefnið snýst eingöngu um að útbúa fallegar ljósmyndir af himingeimnum í þeim tilgangi að miðla vísindum til almennings. Verkefnið fær eingöngu úthlutuðum þeim tíma í sjónaukunum þegar aðstæður bjóða ekki upp á nákvæmar vísindalegar mælingar en eru nógu góðar til að taka fallegar myndir af áhugaverðum, forvitnilegum og fallegum fyrirbærum í geimnum. Gögnin eru síðan gerð aðgengileg stjörnufræðingum í gagnasafni ESO.

Frekari upplýsingar

ESO er fremsta fjölþjóðlega stjörnustöð Evrópu og lang öflugasta stjörnustöð heims. Hún nýtur stuðnings 16 landa: Austurríkis, Belgíu, Brasilíu, Tékklands, Danmörku, Finnlands, Frakklands, Þýskalands, Ítalíu, Hollands, Póllands, Portúgals, Spánar, Svíþjóðar, Sviss og Bretlands, auk gestaþjóðarinnar Chile. ESO heldur úti metnaðarfullum verkefnum sem miða að hönnun, smíði og starfsemi öflugra stjörnustöðva á jörðinni sem gera stjörnufræðingum kleift að gera mikilvægar uppgötvanir. ESO leikur líka lykilhlutverk í að efla og skipuleggja samstarf í stjarnvísindarannsóknum. ESO starfrækir þrjár stjörnuathugunarstöðvar í heimsflokki: La Silla, Paranal og Chajnantor. Á Paranalfjalli starfrækir ESO Very Large Telescope, fullkomnustu stjörnusjónauka heims sem notaðir eru til athugana á sýnilegu ljósi og tvo kortlagningarsjónauka. VISTA er stærsti kortlagningarsjónauki veraldar fyrir innrautt ljós og VLT Survey Telescope er stærsti sjónauki heims sem eingöngu er ætlað að kortleggja himinn í sýnilegu ljósi. ESO er stór þátttakandi í ALMA, stærsta stjarnvísindaverkefni heims. Á Cerro Armazones, skammt frá Paranal, er ESO að smíða 39 metra risasjónauka, European Extremely Large Telescope eða E-ELT sem verður „stærsta auga jarðar“.

Tenglar

Tengiliðir

Sævar Helgi Bragason
Háskóli Íslands
Reykjavík, Ísland
Farsími: 8961984
Tölvupóstur: eson-iceland@eso.org

Richard Hook
ESO Public Information Officer
Garching bei München, Germany
Sími: +49 89 3200 6655
Farsími: +49 151 1537 3591
Tölvupóstur: rhook@eso.org

Connect with ESO on social media

Þetta er þýðing á fréttatilkynningu ESO eso1537.

Um fréttatilkynninguna

Fréttatilkynning nr.:eso1537is
Nafn:M 17, Messier 17, Omega Nebula, Swan Nebula
Tegund:Milky Way : Nebula : Appearance : Emission : H II Region
Facility:MPG/ESO 2.2-metre telescope
Instruments:WFI

Myndir

Stjörnumyndunarsvæðið Messier 17
Stjörnumyndunarsvæðið Messier 17
The star-forming region Messier 17 in the constellation of Sagittarius
The star-forming region Messier 17 in the constellation of Sagittarius
texti aðeins á ensku
Digitized Sky Survey Image of the Omega Nebula (M 17)
Digitized Sky Survey Image of the Omega Nebula (M 17)
texti aðeins á ensku

Myndskeið

Zooming in on the star formation region Messier 17
Zooming in on the star formation region Messier 17
texti aðeins á ensku
A close look at the star formation region Messier 17
A close look at the star formation region Messier 17
texti aðeins á ensku