eso1536is — Fréttatilkynning

Lítill og ógreinilegur nágranni Vetrarbrautarinnar

16. september 2015

Á þessari mynd sem tekin var með Wide Field Imager myndavélinni á 2,2 metra MPG/ESO sjónaukanum í La Silla stjörnustöð ESO, sést dvergvetrarbrautin í Myndhöggvaranum sem er einn af nágrönnum Vetrarbrautarinnar. Þrátt fyrir það eiga báðar vetrarbrautir ólíka sögu og bera mjög mismunandi einkenni. Þessi vetrarbraut er miklu minni og eldri en Vetrarbrautin okkar og hentar hún því vel til að rannsaka myndun stjarna og þróun vetrarbrauta snemma í sögu alheimsins. Aftur á móti er ekki ýkja auðvelt að rannsska hana sökum þess hve dauf hún er.

Dvergvetrarbrautin í Myndhöggvaranum — einnig þekkt sem sporvöludvergurinn í Myndhöggvaranum eða Myndöggvaradvergþokan — er dvergvetrarbraut og ein fjórtan fylgivetrarbrauta sem vitað er um í kringum Vetrarbrautina okkar [1]. Þessar fylgivetrarbrautir eru í hjúpi Vetrarbrautarinnar, kúlulaga svæði sem teygir sig langt út fyrir þyrilarma hennar. Líkt og nafnið bendir til er hún í stjörnumerkinu Myndhöggvaranum í um 280.000 ljósára fjarlægð frá Jörðinni. Þrátt fyrir nálægðina fannst hún ekki fyrr en árið 1937 þar sem stjörnur hennar eru daufar og dreifðar yfir himininn.

Þótt erfitt sé að koma auga á hana var Myndöggvaradvergþokan meðal fyrstu daufu dvergvetrarbrautanna sem fundust á í kringum Vetrarbrautina okkar. Lögun hennar vakti fljótt athygli stjörnufræðinga en í dag gegna rannsóknir á henni og öðrum sambærilegum lykilhlutverk í rannsóknum á þróun vetrarbrauta í árdaga alheimsins.

Talið er að Vetrarbrautin okkar hafi, eins og allar stórar vetrarbrautir, orðið til við samruna lítilla vetrarbrauta snemma í sögu alheimsins. Sumar þessara litlu vetrarbrauta eru enn til staðar í alheiminum í dag og ættu því að innihalda margar mjög gamlar stjörnur. Myndhöggvaradvergþokan er frumstæð vetrarbraut sem sést á áragrúa gamalla stjarna sem sjást á myndinni.

Stjörnufræðingar geta aldursgreint stjörnur í vetrarbrautum út frá fingraförum þungra frumefna sem þær innihalda. Þung frumefni safnast upp í vetrarbrautum í hverri kynslóð stjarna á fætur annarri. Stór hluti stjarna í Myndhöggvaraþokunni innihalda lítið af þungum frumefnum sem bendir til að þær séu gamlar.

Aldurhningnu stjörnurnar gera Myndhöggvaradvergþokuna að hentugu viðfangsefni til að rannsaka fyrstu skeið stjörnumyndunar. Í nýlegri rannsókn tóku stjörnufræðingar saman öll gögn sem til voru um vetrarbrautina og útbjuggu nákvæmustu skrá yfir myndun stjarna sem til er yfir dvergsporvöluþoku. Rannsóknin sýndi tvo aðskilda hópa stjarna í vetrarbrautinni. Fyrst bera að nefna stærri hópinn sem inniheldur gamlar stjörnur sem skortir þung frumefni. Hinn hópurinn er smærri en þungefnaríkari. Á sama hátt og ungt fólk vill gjarnan búa í miðborgu, er ungi stjörnuhópurinn næst miðju vetrarbrautarinnar.

Stjörnur í dvergvetrarbrautum eins og Myndhöggvaradvergþokunni geta búið yfir flókinni myndunarsögu. Flestar dvergvetrarbrautir hafa verið einangraðar frá öðrum og ekki víxlverkað í milljarða ára svo hver stjörnuhópur hefur farið sínar eigin þróunarleiðir. Rannsóknir á því hvað líkt er með sögu stjarna í dvergvetrarbrautum og að útskýra stöku afskekktar hjálpar okkur að skýra þróun allra vetrarbrauta, allt frá minnstu dvergum upp í stærstu þyrilvetrarbrautir. Stjörnufræðingar geta enn lært heilmargt um litlu nágranna Vetrarbrautarinnar.

Skýringar

[1] Ekki ætti að rugla þessari daufu vetrarbraut við Myndhöggvaraþokuna (NGC 253), sem er mun stærri og bjartari, í sama stjörnumerki.

Frekari upplýsingar

ESO er fremsta fjölþjóðlega stjörnustöð Evrópu og lang öflugasta stjörnustöð heims. Hún nýtur stuðnings 16 landa: Austurríkis, Belgíu, Brasilíu, Tékklands, Danmörku, Finnlands, Frakklands, Þýskalands, Ítalíu, Hollands, Póllands, Portúgals, Spánar, Svíþjóðar, Sviss og Bretlands, auk gestaþjóðarinnar Chile. ESO heldur úti metnaðarfullum verkefnum sem miða að hönnun, smíði og starfsemi öflugra stjörnustöðva á jörðinni sem gera stjörnufræðingum kleift að gera mikilvægar uppgötvanir. ESO leikur líka lykilhlutverk í að efla og skipuleggja samstarf í stjarnvísindarannsóknum. ESO starfrækir þrjár stjörnuathugunarstöðvar í heimsflokki: La Silla, Paranal og Chajnantor. Á Paranalfjalli starfrækir ESO Very Large Telescope, fullkomnustu stjörnusjónauka heims sem notaðir eru til athugana á sýnilegu ljósi og tvo kortlagningarsjónauka. VISTA er stærsti kortlagningarsjónauki veraldar fyrir innrautt ljós og VLT Survey Telescope er stærsti sjónauki heims sem eingöngu er ætlað að kortleggja himinn í sýnilegu ljósi. ESO er stór þátttakandi í ALMA, stærsta stjarnvísindaverkefni heims. Á Cerro Armazones, skammt frá Paranal, er ESO að smíða 39 metra risasjónauka, European Extremely Large Telescope eða E-ELT sem verður „stærsta auga jarðar“.

Tenglar

Tengiliðir

Sævar Helgi Bragason
Háskóli Íslands
Reykjavík, Ísland
Farsími: 8961984
Tölvupóstur: eson-iceland@eso.org

Richard Hook
ESO education and Public Outreach Department
Garching bei München, Germany
Sími: +49 89 3200 6655
Farsími: +49 151 1537 3591
Tölvupóstur: rhook@eso.org

Connect with ESO on social media

Þetta er þýðing á fréttatilkynningu ESO eso1536.

Um fréttatilkynninguna

Fréttatilkynning nr.:eso1536is
Nafn:Sculptor Dwarf Galaxy
Tegund:Local Universe : Galaxy : Size : Dwarf
Facility:MPG/ESO 2.2-metre telescope
Instruments:WFI

Myndir

Sculptor dwarf galaxy
Sculptor dwarf galaxy
texti aðeins á ensku
Location of the Sculptor dwarf galaxy
Location of the Sculptor dwarf galaxy
texti aðeins á ensku
Wide-field image of the sky around the Sculptor dwarf galaxy
Wide-field image of the sky around the Sculptor dwarf galaxy
texti aðeins á ensku

Myndskeið

A close-up look at the Sculptor Dwarf Galaxy
A close-up look at the Sculptor Dwarf Galaxy
texti aðeins á ensku