eso1535is — Fréttatilkynning

Endurvinnsla í geimnum

2. september 2015

Á þessari mynd sést hluti af risavaxinni geimþoku sem kallast Gum 56, upplýst af heitum og björtum ungstjörnum sem fæddust í henni. Stjörnur hafa orðið til úr gasi þokunnar í milljónir ára en sama efni skilar sér til baka þegar eldri stjörnur deyja hægt og rólega eða springa í tætlur. Myndin var tekin með 2,2 metra MPG/ESO sjónaukanum í La Silla stjörnustöðinni í Chile fyrir ESO Cosmic Gem verkefnið.

Djúpt í þessari risavöxnu stjörnuverksmiðju eru þrjár þyrpingar heitra, ungra stjarna — aðeins nokkurra milljóna ára gamlar — sem geisla frá sér orkuríku útfjólubláu ljósi sem veldur því að gasið í þokunni verður glóandi. Geislunin rífur rafeindir af atómum — ferli sem kallast jónun — en þegar rafeindirnar bindast aftur við atómin losnar orka á formi ljóss. Hvert frumefni hefur sinn einkennisbjarma en vetni í geimþokunni á sök á rauða litnum.

Þokan heitir Gum 56 — einnig kölluð IC 4628 og Rækjuþokan — og er nefnd eftir ástralska stjörnufræðingnum Colin Stanley Gum sem birti skrá yfir röfuð vetnisský árið 1955. Röfuð vetnisský eins og Gum 56 eru stór en þunn ský sem innihalda mikið af jónuðu vetni.

Rekja má stóran hluta af geisluninni í Gum 56 til tveggja stjarna af O-gerð sem eru heitar blá-hvítar stjörnur eða bláir risar [1]. Slíkar stjörnur eru sjaldgæfar vegna þess að þær eru svo efnismiklar að þær lifa stutt. Eftir innan við tíu milljónir ára hrynja þær saman og enda ævina sem sprengistjörnur, rétt eins og margar aðrar efnismiklar stjörnur í þokunni.

Í þokunni eru ekki aðeins margar nýfæddar stjörnur, heldur er svæðið enn uppfullt af ryki og gasi sem síðar verður að nýjum kynslóðum stjarna. Stjörnumyndunarsvæðin í þokunni birtast okkur sem þétt ský. Efnið sem myndar þessar nýju stjörnur innihalda leifar efnismestu stjarnanna úr eldri kynslóð sem fæddist í skýinu en eru þegar horfnar af sjónarsviðinu. Þannig heldur endurvinnslan áfram.

Það kemur kannski á óvart en svæðið hefur verið tiltölulega lítið rannsakað enn sem komið er þrátt fyrir tvær óvenjulegar bláa risastjörnur og hve björt þokan er í innrauðu ljósi og á útvarpsbylgjulengdum. Gum 56 er um 250 ljósár að þvermáli en þrátt fyrir mikla stærð hefur hún oft farið framhjá athugendum vegna þess hve dauf hún er. Hún gefur enda líka mestan hluta ljóssins frá sér á bylgjulengdum sem mannsaugað nemur ekki.

Þokan er í um 6000 ljósára fjarlægð frá Jörðinni í stjörnumerkinu Sporðdrekanum, þar sem hún er um fjórum sinnum stærri en fullt tungl á himninum [2].

Þessi mynd var tekin með Wide Field Imager á 2,2 metra MPG/ESO sjónaukanum fyrir ESO Cosmic Gems verkefnið sem snýst eingöngu um að útbúa fallegar ljósmyndir af himingeimnum í þeim tilgangi að miðla vísindum til almennings. Verkefnið fær eingöngu úthlutuðum þeim tíma í sjónaukunum þegar aðstæður bjóða ekki upp á nákvæmar vísindalegar mælingar en eru nógu góðar til að taka fallegar myndir af áhugaverðum, forvitnilegum og fallegum fyrirbærum í geimnum. Gögnin eru síðan gerð aðgengileg stjörnufræðingum í gagnasafni ESO.

Skýringar

[1] Athugaðu að þessar stjörnur eru fyrir utan sjónsvið myndarinnar og sjást því ekki hér.

[2] VLT Survey Telescope tók víðmynd af Rækjuþokunni og hefur hún þegar verið birt (eso1340a).

Frekari upplýsingar

ESO er fremsta fjölþjóðlega stjörnustöð Evrópu og lang öflugasta stjörnustöð heims. Hún nýtur stuðnings 16 landa: Austurríkis, Belgíu, Brasilíu, Tékklands, Danmörku, Finnlands, Frakklands, Þýskalands, Ítalíu, Hollands, Póllands, Portúgals, Spánar, Svíþjóðar, Sviss og Bretlands, auk gestaþjóðarinnar Chile. ESO heldur úti metnaðarfullum verkefnum sem miða að hönnun, smíði og starfsemi öflugra stjörnustöðva á jörðinni sem gera stjörnufræðingum kleift að gera mikilvægar uppgötvanir. ESO leikur líka lykilhlutverk í að efla og skipuleggja samstarf í stjarnvísindarannsóknum. ESO starfrækir þrjár stjörnuathugunarstöðvar í heimsflokki: La Silla, Paranal og Chajnantor. Á Paranalfjalli starfrækir ESO Very Large Telescope, fullkomnustu stjörnusjónauka heims sem notaðir eru til athugana á sýnilegu ljósi og tvo kortlagningarsjónauka. VISTA er stærsti kortlagningarsjónauki veraldar fyrir innrautt ljós og VLT Survey Telescope er stærsti sjónauki heims sem eingöngu er ætlað að kortleggja himinn í sýnilegu ljósi. ESO er stór þátttakandi í ALMA, stærsta stjarnvísindaverkefni heims. Á Cerro Armazones, skammt frá Paranal, er ESO að smíða 39 metra risasjónauka, European Extremely Large Telescope eða E-ELT sem verður „stærsta auga jarðar“.

Tenglar

Tengiliðir

Sævar Helgi Bragason
Háskóli Íslands
Reykjavík, Ísland
Farsími: 8961984
Tölvupóstur: eson-iceland@eso.org

Richard Hook
ESO education and Public Outreach Department
Garching bei München, Germany
Sími: +49 89 3200 6655
Farsími: +49 151 1537 3591
Tölvupóstur: rhook@eso.org

Connect with ESO on social media

Þetta er þýðing á fréttatilkynningu ESO eso1535.

Um fréttatilkynninguna

Fréttatilkynning nr.:eso1535is
Nafn:Gum 56, IC 4628
Tegund:Milky Way : Nebula : Appearance : Emission
Facility:MPG/ESO 2.2-metre telescope
Instruments:WFI

Myndir

The Prawn Nebula in close-up
The Prawn Nebula in close-up
texti aðeins á ensku
Rækjuþokan IC 4628 í stjörnumerkinu Sporðdrekanum
Rækjuþokan IC 4628 í stjörnumerkinu Sporðdrekanum

Myndskeið

Zooming in on the Prawn Nebula
Zooming in on the Prawn Nebula
texti aðeins á ensku
A close-up look at the Prawn Nebula
A close-up look at the Prawn Nebula
texti aðeins á ensku