eso1534is — Fréttatilkynning

Systurstjörnur

19. ágúst 2015

Lausþyrpingar eins og sú sem hér sést eru ekki bara myndrænar og fallegar. Flestar stjörnur verða til í þyrpingum sem stjörnufræðingar geta notað sem tilraunastofur til að rannsaka þróun stjarna og ævilok þeirra. Myndin sem hér sést var tekin með Wide Field Imager (WFI) í La Silla stjörnustöð ESO og sýnir lausþyrpinguna IC 4651 en stjörnurnar sem urðu til í henni hafa ýmsa mismunandi eiginleika.

Stjörnuskarinn sem sést á þessari nýju mynd frá ESO er lausþyrpingin IC 4651 sem er í um 3000 ljósára fjarlægð frá Jörðinni í stjörnumerkinu Altarinu. Þyrpingin er um það bil 1,7 milljarða ára og því gömul af lausþyrpingu að vera. Þyrpinguna uppgötvaði Solon Bailey, sem ruddi brautina fyrir stjörnustöðvar á háum og þurrum svæðum í Andesfjöllunum en dansk-írski stjörnufræðingurinn John Louis Emil Drayer skrásetti hana árið 1896.

Vitað er um meira en þúsund lausþyrpingar í Vetrarbrautinni okkar og talið að mun fleiri séu til. Margar hafa verið rannsakaðar ítarlega og hafa þær aukið þekkingu okkar á myndun og þróun Vetrarbrautarinnar og stjarna í henni til muna. Stjörnuþyrpingar gera stjörnufræðingum líka kleift að prófa líkön af þróun stjarna.

Stjörnurnar í IC 4651 urðu allar til nokkurn veginn samtímis úr sama gasskýinu [1]. Sameiginlegur þyngdarkraftur bindur þessar systurstjörnur saman, mjög lauslega, sem og gas á milli þeirra. Þegar stjörnur í þyrpingunni víxlverka við aðrar þyrpingar og gasský í nágrenninu — og þegar gasið milli stjarnanna breytist í nýjar stjörnur eða fýkur út úr þyrpingunni — byrjar þyrpingin að breytast. Að lokum verður massi hennar nógu lítill til þess að hún leysist upp og stjörnurnar dreifa sér annað. Nýlegar mælingar á IC 4651 sýna að þyrpingin inniheldur um 630 sinnum meiri massa en sólin [2]. Talið er að í upphafi hafi hún innihaldið að minnsta kosti 8300 stjörnur og verið 5300 sinnum massameiri en sólin.

Þar sem IC 4651 er tiltölulega gömul má rekja hluta massatapsins til þess að efnismestu stjörnurnar hafa þegar horfið af sjónarsviðinu og sprungið. Meirihluti stjarnanna hefur þó ekki dáið heldur aðeins flutt sig um set. Margar hafa líklega flosnað úr þyrpingunni þegar hún fór í gegnum stórt gasský, gerðist of nærgöngul við aðra stjörnuþyrpingu eða einfaldlega rekið burt.

Hluti þessara brottfluttu stjarna gætu reyndar enn verið bundnar við þyrpinguna en í mikilli fjarlægð frá henni. Aðrar stjörnur munu og hafa strokið af heiman og sameinast öðrum eða komið sér fyrir annars staðar í Vetrarbrautinni. Líklega var sólin okkar eitt sinn hluti af þyrpingu eins og IC 4651 þar til hún og systur hennar aðskildust og dreifðu sér um Vetrarbrautina.

Myndin var tekin með Wide Field Imager á 2,2 metra MPG/ESO sjónaukanum í La Silla stjörnustöðinni. Á henni eru nokkrar CCD flögur sem í heild eru 67 milljón pixlar og getur hún tekið mynd af svæði sem er álíka stórt og fullt tungl. Myndavélin sér sýnilegt ljós yfir í nær-innrautt með meira en 40 ljóssíum. Aðeins þrjár síur voru notaðar til að taka þessa mynd.

Skýringar

[1] Þótt margar stjarnanna sem hér sjást tilheyri IC 4651 eru björtustu stjörnunnar á myndinni flestar á milli okkar og þyrpingarinnar og þær daufustu mun lengra í burtu.

[2] Þetta er í raun mun hærri tala en eldri rannsóknir gerðu ráð fyrir enda beindust þær að smærri svæðum og tóku ekki með í reikninginn stjörnur sem liggja fjær kjarnanum.

Frekari upplýsingar

ESO er fremsta fjölþjóðlega stjörnustöð Evrópu og lang öflugasta stjörnustöð heims. Hún nýtur stuðnings 16 landa: Austurríkis, Belgíu, Brasilíu, Tékklands, Danmörku, Finnlands, Frakklands, Þýskalands, Ítalíu, Hollands, Póllands, Portúgals, Spánar, Svíþjóðar, Sviss og Bretlands, auk gestaþjóðarinnar Chile. ESO heldur úti metnaðarfullum verkefnum sem miða að hönnun, smíði og starfsemi öflugra stjörnustöðva á jörðinni sem gera stjörnufræðingum kleift að gera mikilvægar uppgötvanir. ESO leikur líka lykilhlutverk í að efla og skipuleggja samstarf í stjarnvísindarannsóknum. ESO starfrækir þrjár stjörnuathugunarstöðvar í heimsflokki: La Silla, Paranal og Chajnantor. Á Paranalfjalli starfrækir ESO Very Large Telescope, fullkomnustu stjörnusjónauka heims sem notaðir eru til athugana á sýnilegu ljósi og tvo kortlagningarsjónauka. VISTA er stærsti kortlagningarsjónauki veraldar fyrir innrautt ljós og VLT Survey Telescope er stærsti sjónauki heims sem eingöngu er ætlað að kortleggja himinn í sýnilegu ljósi. ESO er stór þátttakandi í ALMA, stærsta stjarnvísindaverkefni heims. Á Cerro Armazones, skammt frá Paranal, er ESO að smíða 39 metra risasjónauka, European Extremely Large Telescope eða E-ELT sem verður „stærsta auga jarðar“.

Tengiliðir

Sævar Helgi Bragason
Háskóli Íslands
Reykjavik, Ísland
Farsími: 8961984
Tölvupóstur: eson-iceland@eso.org

Richard Hook
ESO Public Information Officer
Garching bei München, Germany
Sími: +49 89 3200 6655
Farsími: +49 151 1537 3591
Tölvupóstur: rhook@eso.org

Connect with ESO on social media

Þetta er þýðing á fréttatilkynningu ESO eso1534.

Um fréttatilkynninguna

Fréttatilkynning nr.:eso1534is
Nafn:IC 4651
Tegund:Milky Way : Star : Grouping : Cluster : Open
Facility:MPG/ESO 2.2-metre telescope
Instruments:WFI

Myndir

The rich star cluster IC 4651
The rich star cluster IC 4651
texti aðeins á ensku
The star cluster IC 4651 in the constellation of Ara
The star cluster IC 4651 in the constellation of Ara
texti aðeins á ensku
Wide-field view of the sky around the bright star cluster IC 4651
Wide-field view of the sky around the bright star cluster IC 4651
texti aðeins á ensku

Myndskeið

Zooming in on the star cluster IC 4651
Zooming in on the star cluster IC 4651
texti aðeins á ensku
The rich star cluster IC 4651
The rich star cluster IC 4651
texti aðeins á ensku