eso1529is — Fréttatilkynning

Tvíburabróðir Júpíters finnst í kringum tvíburasystur sólar

Brasilískir stjörnufræðingar leiða leitina að sólkerfi 2,0

15. júlí 2015

Alþjóðlegur hópur stjörnufræðinga hefur með hjálp 3,6 metra sjónauka ESO fundið reikistjörnu á borð við Júpíter í sambærilegri fjarlægð frá sinni móðurstjörnu, HIP 11915, og Júpíter er frá sólinni okkar. Hugmyndir manna í dag benda til þess að reikistjörnur á stærð við Júpíter gegni mikilvægu hlutverk í mótun sólkerfa. Tilvist slíkrar reikistjörnu, sem jafnframt er á réttum stað í sínu sólkerfi og á braut um samskonar stjörnu og sólin okkar, leiðir líkum að því að í þessu sólkerfi gætu verið svipaðar reikistjörnur og í sólkerfinu okkar. HIP 11915 er af svipuðum aldri og sólin okkar og með samskonar efnasamsetningu sem bendir til þess að í kringum hana gætu líka verið bergreikistjörnur.

Hingað til hafa flestar rannsóknir á fjarreikistjörnum leitt í ljós sólkerfi með massamiklar reikistjörnur næst móðurstjörnunni, reikistjörnur sem eru mun massameiri en Jörðin [1]. Þetta er öfugt við sólkerfið okkar þar sem litlar bergreikistjörnur eru næst sólinni en gasrisarnir fjær.

Hugmyndir manna í dag benda til þess að uppbygging okkar sólkerfis sé hliðholl lífi vegna þyngdaráhrifa frá Júpíters og annarra gasrisa á mótunarárum þess. Þess vegna gæti það að finna tvíburabróður Júpíters verið mikilvægur hluti í leitinni að sólkerfi sem endurspeglar okkar eigið.

Hópur undir forystu brasilískra stjörnufræðinga beindi sjónum sínum að stjörnum sem líkjast sólinni okkar í leit að sólkerfi áþekku okkar. Stjörnufræðingarnir hafa nú fundið reikistjörnu sem er álíka stór og Júpíter [2] á braut um stjörnu sem segja mætti að sé tvíburasystir sólarinnar, stjarnan HIP 11915. Þessi reikistjarna er ennfremur í mjög sambærilegri fjarlægð frá móðurstjörnunni sinni og Júpíter er frá sólinni okkar. Uppgötvunin var gerð með HARPS litrófsritanum, einu afkastamesta fjarreikistjörnuleitartæki heims, á 3,6 metra sjónauka ESO í La Silla stjörnustöðinni í Chile.

Þótt margar reikistjörnur á borð við Júpíter hafi áður fundist [3] í ýmsum fjarlægðum frá móðurstjörnunum sínum, eru reikistjarnan og móðurstjarnan sem hér um ræðir besta hliðstæðan sem fundist hefur hingað til fyrir Júpíter sjálfan og sólina okkar, bæði hvað varðar massa og fjarlægð frá móðurstjörnunni og líkindin milli móðurstjörnunnar og sólarinnar okkar.

Móðurstjarnan, HIP 11915, tvíburasystir sólarinnar, er ekki aðeins álíka massamikil og sólin, heldur álíka gömul. Til að undirstrika ennfrekar líkindin er efnasamsetningin sömuleiðis svipuð. Efnauppbygging sólar gæti að hluta markast af tilvist berghnatta í sólkerfinu, svo þessi líkindi benda til þess að berghnettir gætu líka verið í kringum HIP 11915.

„Leitin að Jörð 2,0 og sólkerfi 2,0 er eitt mest spennandi viðfangsefni nútíma stjarnvísinda. Við erum hæstánægð að fá að taka þátt í þessum rannsóknum, þökk sé sjónaukum ESO,“ [4] segir Jorge Melendez við Universidade de São Paulo í Brasilíu, sem fer fyrir rannsóknarteyminu og er meðhöfundur greinar um rannsóknina.

„Eftir tveggja áratuga leit að fjarreikistjörnum erum við loksins farin að sjá gasrisa með langa umferðartíma eins og í sólkerfinu okkar, þökk sé langtímamælingum reikistjörnuleitartækja eins og HARPS. Uppgötvunin er á allan hátt spennandi og merki þess að önnur sambærileg sólkerfi bíði þess eins að finnast,“ segir Megan Bedell við Chicago háskóla, aðalhöfundur greinarinnar, að lokum.

Gera þarf frekar rannsóknir til að staðfesta uppgötvunina en nú um stundir er HIP 11915 einn besti kandídatinn sem fundist hefur hingað til sem gæti haft sólkerfi eins og okkar eigið.

Skýringar

[1] Með leitartækni nútímans er auðveldara að finna stórar eða massamiklar reikistjörnur nálægt móðurstjörnunum. Litlar og meðalmassa reikistjörnur eru að mestu utan seilingar enn sem komið er. Einnig er mun erfiðara að finna risareikistjörnur sem eru langt frá móðurstjörnunum. Fyrir vikið eru flestar þær fjarreikistjörnur sem við þekkjum í dag stórar og/eða massamiklar og nálægt móðurstjörnunum.

[2] Reikistjarnan fannst þegar þyngdaráhrif hennar á móðurstjörnuna voru mæld. Þegar reikistjarnan snýst um móðurstjörnuna togar hún í stjörnuna sem vaggar. Brautarhalli reikistjörnunnar er óþekktur svo aðeins er hægt að reikna út neðri mörk á massa hennar. Hafa ber í hug að virkni stjörnunnar, sem tengist breytingum á segulsviði hennar, gæti hugsanlega líkt eftir merkjum sem hægt er að túlka sem merki um reikistjörnu. Stjörnufræðingarnir hafa gert allar prófanir sem hægt er að gera til að skoða þann möguleika en eins og sakir standa er ekki hægt að útiloka hann alveg.

[3] Dæmi um annar tvíburabróður Júpíters er í kringum stjörnuna HD 154345, sem lýst er hér.

[4] Frá því að aðild Brasilíu að ESO var undirrituð í desember 2010 hafa brasilískir stjörnufræðingar haft fullan aðgang að stjörnustöðvum ESO.

Frekari upplýsingar

Rannsóknin er kynnt í greininni „The Solar Twin Planet Search II. A Jupiter twin around a solar twin“, eftir M. Bedell o.fl., sem birtist í tímaritinu Astronomy and Astrophysics.

Í rannsóknarteyminu eru M. Bedell (Department of Astronomy and Astrophysics, University of Chicago, Chicago, Illinois, USA; Visiting Researcher at the Departamento de Astronomia do IAG/USP, Universidade de São Paulo, São Paulo, Brazil), J. Meléndez (Universidade de São Paulo, São Paulo, Brazil), J. L. Bean (Department of Astronomy and Astrophysics, University of Chicago), I. Ramírez (McDonald Observatory and Department of Astronomy, University of Texas, Austin, Texas, USA), M. Asplund (Research School of Astronomy and Astrophysics, The Australian National University, Weston, Australia), A. Alves-Brito (Instituto de Fisica, Universidade Federal do Rio Grande do Sul, Porto Alegre, Rio Grande do Sul, Brazil), L. Casagrande (Research School of Astronomy and Astrophysics, Australia), S. Dreizler (Institut für Astrophysik, University of Göttingen, Germany), T. Monroe (Universidade de São Paulo, Brazil), L. Spina (Universidade de São Paulo, Brazil) and M. Tucci Maia (Universidade de São Paulo, Brazil).

ESO er fremsta fjölþjóðlega stjörnustöð Evrópu og lang öflugasta stjörnustöð heims. Hún nýtur stuðnings 16 landa: Austurríkis, Belgíu, Brasilíu, Tékklands, Danmörku, Finnlands, Frakklands, Þýskalands, Ítalíu, Hollands, Póllands, Portúgals, Spánar, Svíþjóðar, Sviss og Bretlands, auk gestaþjóðarinnar Chile. ESO heldur úti metnaðarfullum verkefnum sem miða að hönnun, smíði og starfsemi öflugra stjörnustöðva á jörðinni sem gera stjörnufræðingum kleift að gera mikilvægar uppgötvanir. ESO leikur líka lykilhlutverk í að efla og skipuleggja samstarf í stjarnvísindarannsóknum. ESO starfrækir þrjár stjörnuathugunarstöðvar í heimsflokki: La Silla, Paranal og Chajnantor. Á Paranalfjalli starfrækir ESO Very Large Telescope, fullkomnustu stjörnusjónauka heims sem notaðir eru til athugana á sýnilegu ljósi og tvo kortlagningarsjónauka. VISTA er stærsti kortlagningarsjónauki veraldar fyrir innrautt ljós og VLT Survey Telescope er stærsti sjónauki heims sem eingöngu er ætlað að kortleggja himinn í sýnilegu ljósi. ESO er stór þátttakandi í ALMA, stærsta stjarnvísindaverkefni heims. Á Cerro Armazones, skammt frá Paranal, er ESO að smíða 39 metra risasjónauka, European Extremely Large Telescope eða E-ELT sem verður „stærsta auga jarðar“.

Tenglar

Tengiliðir

Sævar Helgi Bragason
Háskóli Íslands
Reykjavík, Ísland
Farsími: 8961984
Tölvupóstur: eson-iceland@eso.org

Megan Bedell
University of Chicago
USA
Sími: +1 518 488 9348
Tölvupóstur: mbedell@oddjob.uchicago.edu

Jorge Meléndez
Universidade de São Paulo
Brazil
Sími: +55 11 3091 2840
Tölvupóstur: jorge.melendez@iag.usp.br

Richard Hook
ESO Public Information Officer
Garching bei München, Germany
Sími: +49 89 3200 6655
Farsími: +49 151 1537 3591
Tölvupóstur: rhook@eso.org

Connect with ESO on social media

Þetta er þýðing á fréttatilkynningu ESO eso1529.

Um fréttatilkynninguna

Fréttatilkynning nr.:eso1529is
Nafn:HIP 11915
Tegund:Milky Way : Star : Circumstellar Material : Planetary System
Facility:ESO 3.6-metre telescope
Instruments:HARPS
Science data:2015A&A...581A..34B

Myndir

Artist’s impression of a Jupiter twin orbiting HIP 11915
Artist’s impression of a Jupiter twin orbiting HIP 11915
texti aðeins á ensku
The star HIP 11915 in the constellation of Cetus
The star HIP 11915 in the constellation of Cetus
texti aðeins á ensku

Myndskeið

Artist’s impression of a Jupiter twin orbiting HIP 11915
Artist’s impression of a Jupiter twin orbiting HIP 11915
texti aðeins á ensku