eso1521is — Fréttatilkynning

Freyðandi fæðing stjarna

27. maí 2015

Á bjartasta svæðinu í þessari glóandi þoku sem nefnist RCW 34 hefur gas hitnað mikið fyrir tilverknað ungra stjarna og þanist út í gegnum kaldara gas í kring. Þegar heita vetnisgasið kemur að mörkum gasskýsins streymir það út í tómarúmið eins og froða úr kampavínsflösku — ferlið er enda kallað kampavínsstreymi. Stjörnumyndunarsvæðið unga RCW 34 hefur þó ýmislegt annað upp á að bjóða en freyðandi gas; í því virðast nokkrar stjörnumyndunarhrinur hafa orðið.

Á þessari nýju mynd Very Large Telescope (VLT) ESO í Chile sést glæsilegt rauðglóandi vetnisský á bak við hóp blárra stjarna. Á bjartasta svæðinu í RCW 34 — sem er í stjörnumerkinu Seglinu — er falinn hópur ungra stjarna [1] sem hafa mikil áhrif á skýið. Gas sem verður fyrir öflugri útfjólublárri geislun — eins og í hjarta þokunnar — jónast sem þýðir að rafeindir hafa losnað af vetnisatómum.

Vetnið skín skært og geislar rauðum lit sem greinir margar þokur í sundur og gerir stjörnuljósmyndurum kleift að útbúa fallegar myndir af sérkennilegum mynstrum. Vetnið er líka hráefnið í fyrirbæri á borð við og kampavínsstreymi. Jónað vetni markar líka stjörnumyndunarsvæði. Stjörnur verða til úr gasskýjum sem falla saman svo vetni er þar af leiðandi í miklu magni í skýjum á borð við RCW 34. Það gerir þokuna sérstaklega áhugaverða í augum stjörnufræðinga sem rannsaka myndun og þróun stjarna.

Mikið magn ryks byrgir sýn á innstu hluta stjörnumyndunarsvæðisins. Fyrir vikið hefur ljósið frá RCW 34 dofnað þó nokkuð sem þýðir að rykið hefur gleypt næstum allt sýnilega ljósið frá svæðinu áður en það berst til Jarðar. Engu að síður geta stjörnufræðingar beitt innrauðum mælitækjum til að sjá í gegnum rykið og rannsaka stjörnurnar sem leynast þar á bak við.

Þegar horft er í gegnum rykið kemur í ljós aragrúi ungra stjarna sem eru heldur massaminni en sólin okkar. Þær hópa sig í kringum eldri og efnismeiri stjörnur í miðjunni og aðeins örfáar eru við útjaðra skýsins. Stjörnufræðingar hafa dregið þá ályktun út frá þessari dreifingu að stjörnumyndun hafi orðið í hrinum í skýinu. Þrjár risastjörnur urðu til í fyrstu hrinunni sem leiddu síðan til myndunar efnisminni stjarna í nágrenninu [2].

Myndin er sett saman úr gögnum sem aflað var með FOcal Reducer and low dispersion Spectrograph (FORS) mælitækinu á VLT fyrir ESO Cosmic Gems verkefnið [3].

Skýringar

[1] RCW 34 er einnig þekkt sem Gum 19 og er í kringum bjarta, unga stjörnu sem kallast V391 Velorum.

[2] Massamestu og björtustu stjörnurnar lifa mjög stutt eða í aðeins örfáar milljónir ára, en massaminni stjörnur lifa lengur en sem nemur aldri alheimsins í dag.

[3] ESO Cosmic Gems verkefnið snýst eingöngu um að útbúa fallegar ljósmyndir af himingeimnum í þeim tilgangi að miðla vísindum til almennings. Verkefnið fær eingöngu úthlutuðum þeim tíma í sjónaukunum þegar aðstæður bjóða ekki upp á nákvæmar vísindalegar mælingar en eru nógu góðar til að taka fallegar myndir af áhugaverðum, forvitnilegum og fallegum fyrirbærum í geimnum. Gögnin eru síðan gerð aðgengileg stjörnufræðingum í gagnasafni ESO.

Frekari upplýsingar

ESO er fremsta fjölþjóðlega stjörnustöð Evrópu og lang öflugasta stjörnustöð heims. Hún nýtur stuðnings 16 landa: Austurríkis, Belgíu, Brasilíu, Tékklands, Danmörku, Finnlands, Frakklands, Þýskalands, Ítalíu, Hollands, Póllands, Portúgals, Spánar, Svíþjóðar, Sviss og Bretlands, auk gestaþjóðarinnar Chile. ESO heldur úti metnaðarfullum verkefnum sem miða að hönnun, smíði og starfsemi öflugra stjörnustöðva á jörðinni sem gera stjörnufræðingum kleift að gera mikilvægar uppgötvanir. ESO leikur líka lykilhlutverk í að efla og skipuleggja samstarf í stjarnvísindarannsóknum. ESO starfrækir þrjár stjörnuathugunarstöðvar í heimsflokki: La Silla, Paranal og Chajnantor. Á Paranalfjalli starfrækir ESO Very Large Telescope, fullkomnustu stjörnusjónauka heims sem notaðir eru til athugana á sýnilegu ljósi og tvo kortlagningarsjónauka. VISTA er stærsti kortlagningarsjónauki veraldar fyrir innrautt ljós og VLT Survey Telescope er stærsti sjónauki heims sem eingöngu er ætlað að kortleggja himinn í sýnilegu ljósi. ESO er stór þátttakandi í ALMA, stærsta stjarnvísindaverkefni heims. Á Cerro Armazones, skammt frá Paranal, er ESO að smíða 39 metra risasjónauka, European Extremely Large Telescope eða E-ELT sem verður „stærsta auga jarðar“.

Tenglar

Tengiliðir

Sævar Helgi Bragason
Háskóli Íslands
Reykjavík, Ísland
Farsími: 8961984
Tölvupóstur: eson-iceland@eso.org

Richard Hook
ESO Public Information Officer
Garching bei München, Germany
Sími: +49 89 3200 6655
Farsími: +49 151 1537 3591
Tölvupóstur: rhook@eso.org

Connect with ESO on social media

Þetta er þýðing á fréttatilkynningu ESO eso1521.

Um fréttatilkynninguna

Fréttatilkynning nr.:eso1521is
Nafn:RCW 34, V391 Vel
Tegund:Milky Way : Nebula : Appearance : Emission : H II Region
Facility:Very Large Telescope
Instruments:FORS2

Myndir

The star forming cloud RCW 34
The star forming cloud RCW 34
texti aðeins á ensku
The star-forming cloud RCW 34 in the constellation of Vela
The star-forming cloud RCW 34 in the constellation of Vela
texti aðeins á ensku
Around the star-formation region Gum 19 (RCW 34)
Around the star-formation region Gum 19 (RCW 34)
texti aðeins á ensku

Myndskeið

Zooming in on the star forming cloud RCW 34
Zooming in on the star forming cloud RCW 34
texti aðeins á ensku
Close-up pan across the star forming cloud RCW 34
Close-up pan across the star forming cloud RCW 34
texti aðeins á ensku