eso1422is — Fréttatilkynning

Líf og dauði systurstjarna

23. júlí 2014

Á þessari nýju og glæsilegu mynd frá La Silla stjörnustöð ESO í Chile er hópur ungra stjarna samankominn fyrir framan glóandi gasský og rykslæður. Fyrir tíu milljónum ára var stjörnuþyrpingin NGC 3293 lítið annað en gas- og rykský en um leið og stjörnur höfðu myndast í því varð hópurinn sem hér sést til. Þyrpingar eins og þessi eru tilraunastofur í geimnum sem gera stjörnufræðingum kleift að læra um þróun stjarna.

Þessi fallega stjörnuþyrping, NGC 3293, er í 8000 ljósára fjarlægð frá Jörðinni í stjörnumerkinu Kilinum. Árið 1751 fann franski stjörnufræðingurinn Nicolas-Louis de Lacaille þyrpinguna, á meðan hann dvaldi í Suður Afríku, með litlum sjónauka með aðeins 12 millímetra ljósop. Þyrpingin er ein sú bjartasta á suðurhveli himins og sést leikandi með berum augum á dimmri, heiðskírri nóttu.

Stjörnuþyrpingar eins og NGC 3292 geyma stjörnur sem allar urðu til samtímis í sömu fjarlægð frá Jörðu og úr sama efnisskýi, svo allar hafa nærri sömu efnasamsetningu. Fyrir vikið eru þyrpingar eins og þessi kjörnar til að prófa kenningar um þróun stjarna.

Flestar stjörnurnar sem hér sjást eru ungar en þyrpingin sjálf er innan við 10 milljón ára. Þetta eru því hvítvoðungar á stjarnfræðilegan mælikvarða, sérstaklega þegar haft er í huga að sólin er 4,6 milljarða ára og aðeins miðaldra. Algengt er að lausþyrpingar eins og NGC 3293 innihaldi aragrúa bjartra, blárra og unglegra stjarna, eins og til dæmis Kappa Crucis þyrpingin, betur þekkt sem Skartgripaskrínið eða NGC 4755.

Lausþyrpingar verða til úr stórum sameindagasskýjum en sameiginlegur þyngdarkraftur stjarnanna bindur þær saman. Kraftarnir duga þó skammt til að halda þyrpingunni saman til lengri tíma litið. Þegar aðrar þyrpingar og gasský gerast nærgöngul leysast þyrpingarnar upp. Lausþyrpingar endast því aðeins í nokkur hundruð milljónir ára, ólíkt stóru frænkum þeirra, kúluþyrpingum, sem geta enst í milljarða ára og innihalda miklu fleiri stjörnur.

Þótt merki séu um að enn eigi sér stað einhver stjörnumyndun í NGC 3293 er talið að flestar, ef ekki allar, af nærri fimmtíu stjörnum þyrpingarinnar hafi myndast í einu vetfangi. En jafnvel þótt stjörnurnar séu allar jafn gamlar, bera ekki allar sama æskuljómann því sumar virðast mun eldri en aðrar, sem gerir stjörnufræðingum kleift að kanna hvernig og hvers vegna stjörnur þróast mishratt.

Skoðum til að mynda björtu appelsínugulu stjörnuna niðri hægra megin í þyrpingunni. Þessi rauða risastjarna fæddist sennilega sem ein stærsta og bjartasta stjarnan hópsins. Bjartar stjörnur brenna hins vegar hratt út. Þegar stjarnan klárar eldsneytið í kjarna sínum breytast innviðirnir svo stjarnan þenst út og kólnar og verður að rauða risanum sem við sjáum í dag. Rauðir risar nálgast ævilok sín en systurstjörnur hans í þyrpingunni eru enn á formeginraðarskeiði — tímabilinu áður en langa, stöðuga miðskeiðið í ævi stjörnu hefst. Við sjáum þessar stjörnur í upphafi lífs síns sem heitar, bjartar og hvítar frammi fyrir rauðum og rykugum bakgrunni.

Myndin var tekin með Wide Field Imager (WFI) á 2,2 metra MPG/ESO sjónaukanum í La Silla stjörnustöð ESO í norðurhluta Chile.

Frekari upplýsingar

ESO er fremsta fjölþjóðlega stjörnustöð Evrópu og lang öflugasta stjörnustöð heims. Hún nýtur stuðnings 15 landa: Austurríkis, Belgíu, Brasilíu, Tékklands, Danmörku, Finnlands, Frakklands, Þýskalands, Ítalíu, Hollands, Portúgals, Spánar, Svíþjóðar, Sviss og Bretlands. ESO heldur úti metnaðarfullum verkefnum sem miða að hönnun, smíði og starfsemi öflugra stjörnustöðva á jörðinni sem gera stjörnufræðingum kleift að gera mikilvægar uppgötvanir. ESO leikur líka lykilhlutverk í að efla og skipuleggja samstarf í stjarnvísindarannsóknum. ESO starfrækir þrjár stjörnuathugunarstöðvar í heimsflokki: La Silla, Paranal og Chajnantor. Á Paranalfjalli starfrækir ESO Very Large Telescope, fullkomnustu stjörnusjónauka heims sem notaðir eru til athugana á sýnilegu ljósi og tvo kortlagningarsjónauka. VISTA er stærsti kortlagningarsjónauki veraldar fyrir innrautt ljós og VLT Survey Telescope er stærsti sjónauki heims sem eingöngu er ætlað að kortleggja himinn í sýnilegu ljósi. ESO er þátttakandi í ALMA, byltingarkenndum útvarpssjónauka og stærsta stjarnvísindaverkefni heims. ESO hyggur einnig á smíði 39 metra risasjónauka, European Extremely Large Telescope eða E-ELT sem verður „stærsta auga jarðar“.

Tenglar

Tengiliðir

Sævar Helgi Bragason
Háskóli Íslands
Reykjavík, Ísland
Farsími: 8961984
Tölvupóstur: eson-iceland@eso.org

Richard Hook
ESO education and Public Outreach Department
Garching bei München, Germany
Sími: +49 89 3200 6655
Tölvupóstur: rhook@eso.org

Connect with ESO on social media

Þetta er þýðing á fréttatilkynningu ESO eso1422.

Um fréttatilkynninguna

Fréttatilkynning nr.:eso1422is
Nafn:NGC 3293
Tegund:Milky Way : Star : Grouping : Cluster : Open
Milky Way : Nebula
Facility:MPG/ESO 2.2-metre telescope
Instruments:WFI

Myndir

Stjörnuþyrpingin NGC 3293
Stjörnuþyrpingin NGC 3293
The star cluster NGC 3293 in the constellation of Carina
The star cluster NGC 3293 in the constellation of Carina
texti aðeins á ensku

Myndskeið

Zooming in on the bright star cluster NGC 3293
Zooming in on the bright star cluster NGC 3293
texti aðeins á ensku
A close-up look at the star cluster NGC 3293
A close-up look at the star cluster NGC 3293
texti aðeins á ensku
Zooming in on the bright star cluster NGC 3293 (fulldome)
Zooming in on the bright star cluster NGC 3293 (fulldome)
texti aðeins á ensku