Kids

eso1420is — Fréttatilkynning

Vanþakklát afkvæmi móta og brjóta niður fæðingarstað sinn

2. júlí 2014

Gas- og rykskýið sem hér sést er fremur óþekkt en kallast Gum 15 og er fæðingarstaður og híbýli ungra og hetra stjarna. Stjörnurnar eru fagrar en skaðlegar því þær móta útlit skýsins og munu að lokum, þegar þær komast á fullorðinsaldur, brjóta niður fæðingarstað sinn svo hann hverfur af sjónarsviðinu.

Þessi mynd var tekin fyri ESO Cosmic Gems verkefnið [1] með Wide Field Imager á 2,2 metra MPG/ESO sjónaukanum í La Silla stjörnustöðinni í Chile. Á henni sést Gum 15 sem finna má í um 3000 ljósára fjarlægð frá Jörðinni [2] í stjörnumerkinu Seglinu. Þetta glóandi gasský er glæsilegt dæmi um rafað vetnisský [3]. Slík ský eru meðal fegurstu stjarnfræðilegu fyrirbærum sem við sjáum, eins og Arnarþokan (sem inniheldur svæðið sem kallast „Stöplar sköpunarinnar“), Sverðþokan í Óríon og þessi harla óþekkta þoka, Gum 15, eru dæmi um.

Vetni er algengasta frumefnið í alheiminum og finnst svo til alls staðar þar sem stjörnufræðingar beina sjónaukum sínum. Röfuð vetnisský innihalda mikið magn af jónuðu vetni, þ.e. vetnisatóm sem hafa misst rafeindirnar sínar vegna víxlverkana við orkuríkar útfjólubláar ljóseindir. Þegar rafeindirnar bindast aftur jónuðu vetniskjörnunum losnar frá þeim ljós með mismunandi einkennisbylgjulengdir. Ein þessara bylgjulengda gefur þokum á borð við Gum 15 rauðleitan bjarma — ljós með bylgjulengd sem stjörnufræðingar kalla vetnis-alfa (Hα).

Í röfuðum vetnisskýjum stafa jónuðu ljóseindirnar frá ungum og heitum stjörnum á svæðinu og er Gum 15 þar engin undantekning. Á miðri mynd sést einn af sökudólgunum: Stjarnan HD 74804, bjartasta stjarnan í stjörnuþyrpingu sem kallast Collinder 197.

Kekkjótt og óreglulegt útlitið eykur aðeins á fegurð þokunna og er dæmigerð fyrir röfuð vetnisský og má rekja til stjarnanna í skýinu. Lögun rafaðra vetnisskýja er margvísleg vegna þess að stjörnur og gas í þeim dreifist fremur óreglulega. Dökku gaffallaga rykblettirnir á miðri mynd og daufu bláleitu endurskinsþokurnar gera Gum 15 síðan enn forvitnilegri. Rykskýin valda því að þokan minnir um margt á annað stærra rafað vetnisský, Þríklofnuþokuna (Messier 20), en í þessu tilviki væri nafnið Tvíklofnaþokan meira viðeigandi.

Rafað vetnisský eins og þetta gæti getið af sér mörg þúsund stjörnur á nokkrum milljónum ára. Sumar stjörnurnar valda því að skýið glóir og móta lögun þess en þessar sömu stjörnur tortíma skýinu að lokum. Þegar nýjar stjörnur hafa gengið í gegnum sín bernskubrek, blása öflugir stjörnuvindar frá þeim gasinu í kring í burtu og þegar efnismestu stjörnurnar deyja, deyr Gum 15 með þeim. Sumar stjörnur eru svo stórar að þær munu hverfa með látum sem sprengistjörnur og dreifa þá dreggjum rafaða vetnisskýsins svo eftir situr einungis þyrping ungra stjarna.

Skýringar

[1] ESO Cosmic Gems verkefnið snýst eingöngu um að útbúa fallegar ljósmyndir af himingeimnum í þeim tilgangi að miðla vísindum til almennings. Verkefnið fær eingöngu úthlutuðum þeim tíma í sjónaukunum þegar aðstæður bjóða ekki upp á nákvæmar vísindalegar mælingar en eru nógu góðar til að taka fallegar myndir af áhugaverðum, forvitnilegum og fallegum fyrirbærum í geimnum. Gögnin eru síðan gerð aðgengileg stjörnufræðingum í gagnasafni ESO.

[2] Fyrirbærið dregur nafn sitt af ástralska stjörnufræðingnum Colin Gum sem birti skrá yfir röfuð vetnisský árið 1955.

[3] Röfuð vetnisský eru stór gas- og rykský sem mynda stjörnur mjög ört og hýsa ungar stjörnur.

Frekari upplýsingar

ESO er fremsta fjölþjóðlega stjörnustöð Evrópu og lang öflugasta stjörnustöð heims. Hún nýtur stuðnings 15 landa: Austurríkis, Belgíu, Brasilíu, Tékklands, Danmörku, Finnlands, Frakklands, Þýskalands, Ítalíu, Hollands, Portúgals, Spánar, Svíþjóðar, Sviss og Bretlands. ESO heldur úti metnaðarfullum verkefnum sem miða að hönnun, smíði og starfsemi öflugra stjörnustöðva á jörðinni sem gera stjörnufræðingum kleift að gera mikilvægar uppgötvanir. ESO leikur líka lykilhlutverk í að efla og skipuleggja samstarf í stjarnvísindarannsóknum. ESO starfrækir þrjár stjörnuathugunarstöðvar í heimsflokki: La Silla, Paranal og Chajnantor. Á Paranalfjalli starfrækir ESO Very Large Telescope, fullkomnustu stjörnusjónauka heims sem notaðir eru til athugana á sýnilegu ljósi og tvo kortlagningarsjónauka. VISTA er stærsti kortlagningarsjónauki veraldar fyrir innrautt ljós og VLT Survey Telescope er stærsti sjónauki heims sem eingöngu er ætlað að kortleggja himinn í sýnilegu ljósi. ESO er þátttakandi í ALMA, byltingarkenndum útvarpssjónauka og stærsta stjarnvísindaverkefni heims. ESO hyggur einnig á smíði 39 metra risasjónauka, European Extremely Large Telescope eða E-ELT sem verður „stærsta auga jarðar“.

Tenglar

Tengiliðir

Sævar Helgi Bragason
Háskóli Íslands
Reykjavík, Ísland
Farsími: 8961984
Tölvupóstur: eson-iceland@eso.org

Richard Hook
ESO, Public Information Officer
Garching bei München, Germany
Sími: +49 89 3200 6655
Farsími: +49 151 1537 3591
Tölvupóstur: rhook@eso.org

Connect with ESO on social media

Þetta er þýðing á fréttatilkynningu ESO eso1420.

Um fréttatilkynninguna

Fréttatilkynning nr.:eso1420is
Nafn:Gum 15
Tegund:Milky Way : Nebula : Type : Star Formation
Facility:MPG/ESO 2.2-metre telescope
Instruments:WFI

Myndir

The Gum 15 star formation region
The Gum 15 star formation region
texti aðeins á ensku
Gum 15 in the constellation of Vela
Gum 15 in the constellation of Vela
texti aðeins á ensku
Wide-field view of the Gum 15 star formation region
Wide-field view of the Gum 15 star formation region
texti aðeins á ensku

Myndskeið

Zooming in on Gum 15
Zooming in on Gum 15
texti aðeins á ensku
Panning across the star formation region Gum 15
Panning across the star formation region Gum 15
texti aðeins á ensku