eso1417is — Fréttatilkynning

SPHERE, myndavél fyrir rannsóknir á fjarreikistjörnum, tekin í notkun

Nýju byltingarkenndu mælitæki komið fyrir á VLT

4. júní 2014

SPHERE mælitækinu — Spectro-Polarimetric High-contrast Exoplanet REsearch — hefur verið komið fyrir og tekið í notkun á einum af Very Large Telescope (VLT) ESO í Paranal stjörnustöðinni í Chile. Þetta nýja og öfluga tæki á nýtir ýmiskonar hátækni til finna og rannsaka reikistjörnur utan okkar sólkerfis. Tækið er miklu öflugra en nokkur önnur sambærileg tæki sem eru í notkun og hefur þegar náð glæsilegum myndum af rykskífum í kringum nálægar stjörnur og öðru. SPHERE var þróað og smíðað í samstarfi nokkurra evrópskra stofnana undir forystu Institut de Planétologie et d'Astrophysique de Grenoble í Frakklandi í samvinnu við ESO. Búist er við að tækið bylti vandasömum rannsóknum manna á fjarreikistjörnum og rykskífum í kringum ungar stjörnur.

Í desember 2013 komst SPHERE í gegnum fyrstu prófanir í Evrópu og var tækið þá sent til Paranal. Í maí 2014 var lokið við að setja tækið saman á ný og hefur því nú verið komið fyrir á VLT sjónauka 3. SPHERE er nýjasta tækið í annarri kynslóð mælitækja fyrir VLT (fyrri þrjú voru X-shooter, KMOS og MUSE).

Með SPHERE hafa menn fært sér í nyt ýmsar tækniþróanir sem orðið hafa á undanförnum árum og skila þeirri hámarksskerpu sem þarf til að ná myndum af fjarreikistjörnum. Tækið er þannig miklu öflugra en NACO mælitækið sem tók fyrstu ljósmyndina af reikistjörnu utan sólkerfisins. Til að þetta næðist varð SPHERE að nýta mikla framþróun sem orðið hefur á sviði aðlögunarsjóntækja, sérstakra ljósnema og kórónusjáa.

„SPHERE er einstaklega flókið mælitæki. Tækið hefur þegar farið fram úr okkar björtustu vonum, þökk sé mikilli vinnu þeirra fjölmörgu sem tóku þátt í hönnun, smíði og uppsetningu tækisins. Stókostlegt!“ segir Jean-Luc Beuzit við Institut de Planétologie et d'Astrophysique de Grenoble í Frakklandi og umsjónarmaður rannsókna með SPHERE.

Meginmarkmið SPHERE er að finna og rannsaka stórar reikistjörnur á braut um nálægar stjörnur með því að taka myndir af þeim [1]. Þetta er sérstaklega vandasamt verk, því reikistjörnurnar eru bæði mjög nálægt sínum móðurstjörnum og sömuleiðis miklu daufari. Á venjulegri ljósmynd, sem jafnvel er tekin við bestu mögulegu aðstæður, hverfur daufur bjarmi reikistjörnunnar algerlega í glýjuna frá stjörnunni. Hönnun SPHERE beindist þar af leiðandi að því að fá bestu mögulegu skerpu úr örlitlu svæði á himninum í kringum skæra stjörnu.

Fyrsta tækninýjungin af þremur sem SPHERE hefur notið góðs af er aðlögunarsjóntækni, á mörkum hins gerlega, til að leiðrétta áhrif lofthjúps Jarðar og gera myndirnar bæði skýrari og skarpari. Í öðru lagi er kórónusjá notuð til að skyggja á ljósið frá stjörnunni, sem eykur skerpuna enn frekar. Að lokum má búast við því að ljós reikistjarnanna verði skautað, eða hafi tiltekin einkenni í litrófum sínum sem stjörnurnar hafa ekki. Hægt verður að nota þennan hárfína mun á litrófunum til að draga fram fjarreikistjörnur sem hafa verið ósýnilegar hingað til (ann13069, eso0503) [2].

Eftirfarandi stofnanir komu að hönnun og smíði SPHERE: Institut de Planétologie et d'Astrophysique de Grenoble; Max-Planck-Institut für Astronomie í Heidelberg; Laboratoire d’Astrophysique de Marseille; Laboratoire d’Etudes Spatiales et d’Instrumentation en Astrophysique de l’Observatoire de Paris; Laboratoire Lagrange í Nice; ONERA; Observatoire de Genève; Italian National Institute for Astrophysics undir stjórn Osservatorio Astronomico di Padova; Institute for Astronomy, ETH Zurich; Astronomical Institute of the University of Amsterdam; Netherlands Research School for Astronomy (NOVA-ASTRON) og ESO.

Við fyrstu prófanir voru nokkrar mælingar gerðar með því að stilla SPHERE á mismunandi hátt. Á meðal þess sem náðist var ein besta myndin hingað til af rykskífu í kringum nálæga stjörnu, HR 4769A. Á henni er skífan ekki aðeins einstaklega skýr, heldur sýnir myndin vel hvernig SPHERE dregur úr glýju björtu stjörnunnar á miðri mynd.

Síðar á þessu ári, þegar frekari og öllu ítarlegri prófunum lýkur, munu stjörnufræðingar geta sótt um tíma til að nota SPHERE.

„Þetta er aðeins byrjunin. SPHERE er einstaklega öflugt tæki og mun án efa leiða margt óvænt í ljós á komandi árum,“ segir Jean-Luc Beuzit að lokum.

Skýringar

[1] Hingað til hafa flestar fjarreikistjörnur fundist með óbeinum hætti — til dæmis mælingum á sjónstefnuhraða móðurstjörnunnar eða birtuminnkun stjörnu vegna þvergöngu reikistjörnu. Enn sem komið er hafa aðeins örfáar fjarreikistjörnur náðst á mynd (eso0515, eso0842).

[2] Önnur og einfaldari brella sem SPHERE nýtir sér snýst um að taka tvær myndir af sama fyrirbærinu en með umtalsverðri færslu milli mynda. Þau smáatriði á myndunum sem hliðrast koma fram sem gallar við myndvinnslu en smáatriði sem haldast kyrr eru raunveruleg fyrirbæri á himinhvolfinu.

Frekari upplýsingar

ESO er fremsta fjölþjóðlega stjörnustöð Evrópu og lang öflugasta stjörnustöð heims. Hún nýtur stuðnings 15 landa: Austurríkis, Belgíu, Brasilíu, Tékklands, Danmörku, Finnlands, Frakklands, Þýskalands, Ítalíu, Hollands, Portúgals, Spánar, Svíþjóðar, Sviss og Bretlands. ESO heldur úti metnaðarfullum verkefnum sem miða að hönnun, smíði og starfsemi öflugra stjörnustöðva á jörðinni sem gera stjörnufræðingum kleift að gera mikilvægar uppgötvanir. ESO leikur líka lykilhlutverk í að efla og skipuleggja samstarf í stjarnvísindarannsóknum. ESO starfrækir þrjár stjörnuathugunarstöðvar í heimsflokki: La Silla, Paranal og Chajnantor. Á Paranalfjalli starfrækir ESO Very Large Telescope, fullkomnustu stjörnusjónauka heims sem notaðir eru til athugana á sýnilegu ljósi og tvo kortlagningarsjónauka. VISTA er stærsti kortlagningarsjónauki veraldar fyrir innrautt ljós og VLT Survey Telescope er stærsti sjónauki heims sem eingöngu er ætlað að kortleggja himinn í sýnilegu ljósi. ESO er þátttakandi í ALMA, byltingarkenndum útvarpssjónauka og stærsta stjarnvísindaverkefni heims. ESO hyggur einnig á smíði 39 metra risasjónauka, European Extremely Large Telescope eða E-ELT sem verður „stærsta auga jarðar“.

Tenglar

Tengiliðir

Sævar Helgi Bragason
Háskóli Íslands
Reykjavík, Ísland
Farsími: 8969184
Tölvupóstur: eson-iceland@eso.org

Jean-Luc Beuzit
Institut de Planétologie et d'Astrophysique de Grenoble
Grenoble, France
Sími: +33 4 76 63 55 20
Farsími: +33 6 87 39 62 85
Tölvupóstur: Jean-Luc.Beuzit@obs.ujf-grenoble.fr

Markus Feldt
Max-Planck-Institut für Astronomie
Heidelberg, Germany
Sími: +49 6221 528 262
Tölvupóstur: mfeldt@mpia.de

Markus Kasper
ESO
Garching bei München, Germany
Sími: +49 89 3200 6359
Tölvupóstur: mkasper@eso.org

Norbert Hubin
ESO
Garching bei München, Germany
Sími: +49 89 3200 6517
Tölvupóstur: nhubin@eso.org

Richard Hook
ESO education and Public Outreach Department
Garching bei München, Germany
Sími: +49 89 3200 6655
Farsími: +49 151 1537 3591
Tölvupóstur: rhook@eso.org

Connect with ESO on social media

Þetta er þýðing á fréttatilkynningu ESO eso1417.

Um fréttatilkynninguna

Fréttatilkynning nr.:eso1417is
Nafn:First Light, Spectro-Polarimetric High-contrast Exoplanet REsearch instrument (SPHERE)
Tegund:Unspecified : Technology : Observatory : Instrument
Facility:Very Large Telescope

Myndir

Ljósmynd SPHERE af rykhring í kringum stjörnuna HR 4796A
Ljósmynd SPHERE af rykhring í kringum stjörnuna HR 4796A
Ljósmynd SPHERE af Satúrnusartunglinu Títan
Ljósmynd SPHERE af Satúrnusartunglinu Títan
SPHERE mælitækið á VLT
SPHERE mælitækið á VLT
SPHERE mælitækið á VLT
SPHERE mælitækið á VLT
SPHERE undirbúið fyrir fyrstu mælingar
SPHERE undirbúið fyrir fyrstu mælingar
SPHERE mælitækið á lokaáfanga ferðalags síns í VLT
SPHERE mælitækið á lokaáfanga ferðalags síns í VLT
SPHERE mælitækinu lyft inn í hvolf VLT sjónauka 3
SPHERE mælitækinu lyft inn í hvolf VLT sjónauka 3
Satúrnusartunglið Títan í skautunarmælingum SPHERE
Satúrnusartunglið Títan í skautunarmælingum SPHERE
The very faint companion star to Iota Sagitarii seen with SPHERE
The very faint companion star to Iota Sagitarii seen with SPHERE
texti aðeins á ensku

Myndskeið

The SPHERE instrument during installation on the VLT
The SPHERE instrument during installation on the VLT
texti aðeins á ensku
ESOcast 60: A Polarised View of Exoplanets
ESOcast 60: A Polarised View of Exoplanets
texti aðeins á ensku
Adaptive Optics and SPHERE
Adaptive Optics and SPHERE
texti aðeins á ensku
Cutaway animation of the SPHERE instrument on the VLT
Cutaway animation of the SPHERE instrument on the VLT
texti aðeins á ensku