eso1416is — Fréttatilkynning

Stjörnuþyrping í kjölfar Kjalarins

21. maí 2014

Á þessari nýju og litríku mynd frá 2,2 metra MPG/ESO sjónaukanum í La Silla stjörnustöð ESO í Chile sést stjörnuþyrpingin NGC 3590. Stjörnurnar skína skært fyrir framan tilþrifamikið landslag dökkra rykklumpa og litríkra glóandi gasskýja. Þessi litli stjörnuhópur veitir stjörnufræðingum vísbendingar um myndun og þróun stjarna — sem og vísbendingar um uppbyggingu þyrilarma Vetrarbrautarinnar.

NGC 3590 er lítil lausþyrping stjarna í um 7500 ljósára fjarlægð frá Jörðinni í stjörnumerkinu Kilinum. Þyrpingin er ríflega 35 milljón ára gömul og samanstendur af nokkrum tugum stjarna sem þyngdarkrafturinn bindur saman.

Þyrpingin er ekki aðeins falleg, heldur stjörnufræðingum ákaflega gagnleg. Með rannsóknum á þyrpingunni og öðrum í grennd við hana, geta stjörnufræðingar kannað uppbyggingu vetrarbrautarskífunnar. NGC 3590 er í stærsta staka hluta úr þyrilarmi sem við getum séð frá okkar sjónarhóli í Vetrarbrautinni: Kjalararminum.

Vetrarbrautin okkar hefur nokkra þyrilarma, langa sveigða strauma gass og stjarna sem liggja út frá miðju vetrarbrautarinnar. Armarnir — tveir stórir og tveir aðrir smærri stjörnuarmar — draga nöfn sín af þeim stjörnumerkinum þar sem þeir eru mest áberandi [1]. Kjalarþyrillinn birtist okkur frá Jörðinni sem mjög þétt svæði stjarna í Kjalar-Bogmanns arminum.

Nafn armsins —Kjalararmurinn — er einkar viðeigandi. Þyrilarmarnir eru í raun bylgjur af uppsöfnuðu gasi og stjörnum sem ganga í gegnum skífu vetrarbrautarinnar og hrinda af stað stjörnumyndunarhrinum. Í kjölfarið verða til þyrpingar eins og NGC 3590. Með því að rannsaka ungar stjörnur eins og þær sem eru í NGC 3590, er hægt að mæla fjarlægðir til mismunandi svæða í þyrilarminum sem segir okkur ýmislegt um uppbyggingu hans.

Dæmigerðar lausþyrpingar geta innihaldið allt frá nokkrum tugum upp í nokkur þúsund stjörnur og veitt stjörnufræðingum mikilvægar vísbendingar um þróun stjarna. Stjörnur í þyrpingu eins og NGC 3590 hafa allar myndast svo til samtímis og úr sama gasskýinu, svo þessar þyrpingar eru kjörnar til að prófa kenningar um myndun og þróun stjarna.

Þessi mynd frá Wide Field Imager á 2,2 metra MPG/ESO sjónaukanum í La Silla stjörnustöðinni, sýnir þyrpinguna og gasskýin í kringum hana sem gefa frá sér appelsínugulleitan og rauðleitan bjarma vegna geislunar frá heitum, nálægum stjörnum. Sjónsvið Wide Field Imager er vítt og því koma fram margar stjörnur í bakgrunni.

Myndin var tekin í gegnum mismunandi síur til að draga fram mismunandi liti. Lokaútgáfan var síðan búin til með því að skeyta saman myndum teknum í sýnilegu ljósi, innrauðu ljósi og með sérsakri síu sem hleypir aðeins í gegn ljósi frá glóandi vetni.

Skýringar

[1] Armarnir fjórir kallast Kjalar-Bogmannsarmurinn, Hornmátsarmurinn, Skjaldar-Mannfáksarmurinn og Perseifsarmurinn.

Frekari upplýsingar

ESO er fremsta fjölþjóðlega stjörnustöð Evrópu og lang öflugasta stjörnustöð heims. Hún nýtur stuðnings 15 landa: Austurríkis, Belgíu, Brasilíu, Tékklands, Danmörku, Finnlands, Frakklands, Þýskalands, Ítalíu, Hollands, Portúgals, Spánar, Svíþjóðar, Sviss og Bretlands. ESO heldur úti metnaðarfullum verkefnum sem miða að hönnun, smíði og starfsemi öflugra stjörnustöðva á jörðinni sem gera stjörnufræðingum kleift að gera mikilvægar uppgötvanir. ESO leikur líka lykilhlutverk í að efla og skipuleggja samstarf í stjarnvísindarannsóknum. ESO starfrækir þrjár stjörnuathugunarstöðvar í heimsflokki: La Silla, Paranal og Chajnantor. Á Paranalfjalli starfrækir ESO Very Large Telescope, fullkomnustu stjörnusjónauka heims sem notaðir eru til athugana á sýnilegu ljósi og tvo kortlagningarsjónauka. VISTA er stærsti kortlagningarsjónauki veraldar fyrir innrautt ljós og VLT Survey Telescope er stærsti sjónauki heims sem eingöngu er ætlað að kortleggja himinn í sýnilegu ljósi. ESO er þátttakandi í ALMA, byltingarkenndum útvarpssjónauka og stærsta stjarnvísindaverkefni heims. ESO hyggur einnig á smíði 39 metra risasjónauka, European Extremely Large Telescope eða E-ELT sem verður „stærsta auga jarðar“.

Tenglar

Tengiliðir

Sævar Helgi Bragason
Háskóli Íslands
Reykjavík, Ísland
Farsími: 8961984
Tölvupóstur: eson-iceland@eso.org

Richard Hook
ESO, Public Information Officer
Garching bei München, Germany
Sími: +49 89 3200 6655
Farsími: +49 151 1537 3591
Tölvupóstur: rhook@eso.org

Connect with ESO on social media

Þetta er þýðing á fréttatilkynningu ESO eso1416.

Um fréttatilkynninguna

Fréttatilkynning nr.:eso1416is
Nafn:NGC 3590
Tegund:Milky Way : Star : Grouping : Cluster : Open
Facility:MPG/ESO 2.2-metre telescope
Instruments:WFI

Myndir

The colourful star cluster NGC 3590
The colourful star cluster NGC 3590
texti aðeins á ensku
The star cluster NGC 3590 in the constellation of Carina
The star cluster NGC 3590 in the constellation of Carina
texti aðeins á ensku

Myndskeið

Zooming in on the colourful star cluster NGC 3590
Zooming in on the colourful star cluster NGC 3590
texti aðeins á ensku
The colourful star cluster NGC 3590
The colourful star cluster NGC 3590
texti aðeins á ensku