eso1342is — Fréttatilkynning

Seinasta loftnet ALMA afhent

Öll 66 loftnet ALMA hafa nú verið afhent stjörnustöðinni

1. október 2013

Síðasta loftnet Atacama Large Millimeter/submillimeter Array (ALMA) verkefnisins hefur verið afhent ALMA stjörnustöðinni. Smíði loftnetsins, sem er tólf metra breitt, var í höndum evrópska AEM samstarfsins og markar árangursríka afhendingu 25 evrópskra loftneta — stærsti verktakasamningur ESO til þessa.

Loftnetið er 66. og síðasta loftnetið sem afhent er stjörnustöðinni. Norður Ameríka hefur lagt til 25 tólf metra loftnet og austur Asía 16 (fjögur 12 metra og tólf 7 metra). Í árslok 2013 er gert ráð fyrir að loftnetin 66, sem greina geislun á millímetra- og hálfsmillímetrasviðinu, muni vinna saman sem einn sjónauki, í röð sem nær allt að 16 kílómetra yfir Chajnantor hásléttuna í Atacama eyðimörkinni í norður Chile.

Sebastián Piñera, forseti Chile, vígði ALMA stjörnustöðina í mars 2013 (eso1312). Vígslan markaði endalok smíði allra helstu kerfa risasjónaukans og færðist þá verkefnið af byggingarstiginu yfir í fullstarfhæfa stjörnustöð.

Með afhendingu þessa seinasta loftnets lýkur smíði ALMA loftnetanna [1], svo öll loftnet sjónaukans eru nú reiðubúin til að hefja rannsóknir og markar það upphaf nýs skeiðs í stjarnvísindum. „Þetta er mikilvægur áfangi fyrir ALMA stjörnustöðina því nú geta stjörnufræðingar í Evrópu og annars staðar notað ALMA sjónaukann með fullri greinigetu,“ segir Wolfgang Wild, verkefnisstjóri evrópska hluta ALMA verkefnisins.

Með afhendingunni lýkur einnig stærsta verktakasamningi sem ESO hefur staðið fyrir til þessa. Samningurinn við AEM samstarfið [2] náði yfir hönnun, smíði, flutning og uppsetningu á 25 loftnetum.

ALMA hjálpar stjörnufræðingum að svara mikilvægum spurningum um uppruna okkar í alheiminum. Sjónaukinn sér alheiminn í millímetra og hálfsmillímetra ljósi, milli innrauðs ljóss og útvarpsbylgja í rafsegulrófinu. Mörg köldustu og einnig fjarlægustu fyrirbæri alheimsins gefa slíka geislun frá sér, þar á meðal köld gas- og rykský þar sem nýjar stjörnur verða til og fjarlægar vetrarbrautir við endimörk hins sýnilega alheims.

Alheimurinn er enn tiltölulega óplægður akur á hálfsmillímetra bylgjulengdum, því sjónaukar sem greina slíka geislun þurfa mjög þurrt loftslag, eins og á Chajnantor, mörg stór loftnet og háþróaða nema. Áður en smíði ALMA lauk hafði sjónaukinn þegar sýnt fram á getu sína og skilað mörgum spennandi niðurstöðum (sjá eso1336, eso1334, eso1333, eso1331, eso1325, eso1318, eso1313 og eso1234).

Skýringar

[1] ESO hefur einnig umsjón með smíði gistiaðstöðunni þar sem starfsfólk sjónaukans dvelur.

[2] Í evrópska AEM samstarfinu eru Thales Alenia Space, European Industrial Engineering og MT-Mechatronics.

Frekari upplýsingar

ALMA er alþjóðleg stjörnustöð sem byggð er í samstarfi Evrópu, Norður Ameríku og Austur Asíu í samvinnu við Chile. ESO sér um smíði og rekstur ALMA fyrir hönd Evrópu en National Radio Astronomy Observatory (NRAO) fyrir hönd Norður Ameríku og National Astronomical Observatory of Japan (NAOJ) fyrir hönd austur Asíu. Samræmd stjórnun á smíði, prófun og rekstri ALMA er í umsjá Joint ALMA Observatory (JAO).

ESO er fremsta fjölþjóðlega stjörnustöð Evrópu og lang öflugasta stjörnustöð heims. Hún nýtur stuðnings 15 landa: Austurríkis, Belgíu, Brasilíu, Tékklands, Danmörku, Finnlands, Frakklands, Þýskalands, Ítalíu, Hollands, Portúgals, Spánar, Svíþjóðar, Sviss og Bretlands. ESO heldur úti metnaðarfullum verkefnum sem miða að hönnun, smíði og starfsemi öflugra stjörnustöðva á jörðinni sem gera stjörnufræðingum kleift að gera mikilvægar uppgötvanir. ESO leikur líka lykilhlutverk í að efla og skipuleggja samstarf í stjarnvísindarannsóknum. ESO starfrækir þrjár stjörnuathugunarstöðvar í heimsflokki: La Silla, Paranal og Chajnantor. Á Paranalfjalli starfrækir ESO Very Large Telescope, fullkomnustu stjörnusjónauka heims sem notaðir eru til athugana á sýnilegu ljósi og tvo kortlagningarsjónauka. VISTA er stærsti kortlagningarsjónauki veraldar fyrir innrautt ljós og VLT Survey Telescope er stærsti sjónauki heims sem eingöngu er ætlað að kortleggja himinn í sýnilegu ljósi. ESO er þátttakandi í ALMA, byltingarkenndum útvarpssjónauka og stærsta stjarnvísindaverkefni heims. ESO hyggur einnig á smíði 39 metra risasjónauka, European Extremely Large Telescope eða E-ELT sem verður „stærsta auga jarðar“.

Tenglar

Tengiliðir

Sævar Helgi Bragason
University of Iceland
Reykjavík, Iceland
Farsími: +354-896-1984
Tölvupóstur: eson-iceland@eso.org

Wolfgang Wild
European ALMA Project Manager, ESO
Garching bei München, Germany
Sími: +49 89 3200 6716
Tölvupóstur: wwild@eso.org

Stefano Stanghellini
ALMA Antenna Project Manager, ESO
Garching bei München, Germany
Sími: +49 89 3200 6570
Tölvupóstur: sstanghe@eso.org

Richard Hook
ESO, Public Information Officer
Garching bei München, Germany
Sími: +49 89 3200 6655
Farsími: +49 151 1537 3591
Tölvupóstur: rhook@eso.org

Connect with ESO on social media

Þetta er þýðing á fréttatilkynningu ESO eso1342.

Um fréttatilkynninguna

Fréttatilkynning nr.:eso1342is
Nafn:Atacama Large Millimeter/submillimeter Array
Tegund:Unspecified : Technology : Observatory : Facility
Facility:Atacama Large Millimeter/submillimeter Array

Myndir

Seinasta ALMA loftnetið
Seinasta ALMA loftnetið
Seinasta ALMA loftnetið
Seinasta ALMA loftnetið
Síðustu tvö evrópsku ALMA loftnetin
Síðustu tvö evrópsku ALMA loftnetin
The final ALMA antenna is handed over to the observatory
The final ALMA antenna is handed over to the observatory
texti aðeins á ensku
The final ALMA antenna is handed over to the observatory
The final ALMA antenna is handed over to the observatory
texti aðeins á ensku

Myndskeið

The final ALMA antenna is handed over to the observatory
The final ALMA antenna is handed over to the observatory
texti aðeins á ensku