Kids

eso1307is — Fréttatilkynning

„Blekdropi á björtum himni“

Wide Field Imager tekur mynd af stjarnfræðilegri gekkó

13. febrúar 2013

Á þessari mynd Wide Field Imager á 2,2 metra MPG/ESO sjónaukanum í La Silla stjörnustöð ESO í Chile sést björt stjörnuþyrping, NGC 6520 og nágranni hennar, Barnard 86, sérkennileg gekkólaga skuggaþoka. Parið liggur fyrir framan mörgum milljónum skínanadi stjarna úr bjartasta hluta Vetrarbrautarinnar — svæði sem er svo ríkt af stjörnum að varla sést í dökkan himinn á myndinni.

Í þessum hluta stjörnumerkisins Bogmannsins er einn þéttasti stjörnuskarinn á himninum — Stóra Bogmannsstjörnuskýið. Sá sægur stjarna sem sést hér og lýsir á tilþrifamikinn hátt upp svæðið, undirstrikar hve dimmar skuggaþokur eins og Barnard 86 sem sést á miðri myndinni en hún var tekin með Wide Field Imager á 2,2 metra MPG/ESO sjónaukanum í La Silla stjörnustöð ESO í Chile.

Þetta fyrirbæri er lítil, einangruð skuggaþoka sem kallast Bok hnoðri [1]. Edward Emerson Barnard [2], bandarískur stjörnufræðingur sem uppgötvaði og ljósmyndaði fjölda halastjarna, skuggaþoka, eitt af tunglum Júpíters og lagði heilmargt annað af mörkum, lýsti henni sem „blekdropa á björtum himni“. Barnard var einstakur í sjónskoðun og fær stjörnuljósmyndaði sem notaði fyrstur manna langan lýsingartíma til að rannsaka skuggaþokur.

Í gegnum litla stjörnusjónauka kemur Barnard 86 fram sem eyða í stjörnunum eða gluggi í fjarlægari og heiðari himinn. Fyrirbærið er þó í raun og veru fyrir framan stjörnuskarann — kalt, þétt ský úr litlum rykögnum sem hindra að ljós berist frá stjörnum fyrir aftan og gerir svæðið ógegnsætt. Talið er að það hafi orðið til úr leifum sameindaskýs sem féll saman og myndaði NGC 6520, nálæga stjörnuþyrpingu sem sést til vinstri við Barnard 86 á myndinni.

NGC 6520 er lausþyrping sem geymir margar heitar hvítglóandi stjörnur stjörnur, merki þess að þær séu ungar. Í lausþyrpingum eru alla jafna nokkur þúsund stjörnur sem allar urðu til samtímis og eru þær því jafnaldra. Slíkar þyrpingar endast aftur á móti stutt, aðeins í nokkur hundruð milljónir ára áður en þær sundrast.

Sá aragrúi stjarna sem á svæðinu er, truflar mælingar á þyrpingunni og gerir stjörnufræingum erfitt um vik að læra margt um hana. Aldur NGC 6520 er talinn í kringum 150 milljónir ára en bæði þyrpingin og rykugi nágranni hennar eru talin í um 6.000 ljósára fjarlægð frá sólinni okkar.

Á myndinni fyrir ofan er sem stjörnur séu innan í Barnard 86 en í raun og veru eru þær fyrir framan hana, milli okkar og skuggaþokunnar. Vitað er að stjörnur myndast innan í mörgum skuggaþokum — eins og sjá má í hinni frægu Riddaraþoku (eso0202), Lupus 3 (eso1303) og Pípuþokunni sem Barnard uppgötvaði (eso1233) þótt í minni mæli — er ekki víst hvort stjörnur myndist enn í Barnard 86. Hins vegar byrgir nálægt ryksvæði okkur sýn á ljós frá yngstu stjörnum svo þær sjást aðeins í innrauðu ljósi eða ljósi með lengri bylgjulengd.

Skýringar

[1] Stjörnufræðingurinn Bart Bok tók fyrstur manna eftir Bok hnoðrum upp úr 1940. Þetta eru mjög köld, dökk ský úr gasi og ryki sem geyma gjarnan nýjar stjörnur í mótun í miðjum þeirra. Rykið í hnoðrunum gleypir og dreifir ljósi úr bakgrunninum, svo þeir eru næstum ógegnsæir í sýnilegu ljósi.

[2] Tilvitnunin er úr greninni Dark Regions in the Sky Suggesting an Obscuration of Light eftir E. E. Barnard við Yerkes stjörnustöðina þann 15. nóvember 1913 (aðgengileg hér).

Frekari upplýsingar

ESO er fremsta fjölþjóðlega stjörnustöð Evrópu og ein öflugasta stjörnustöð heims. Hún nýtur stuðnings 15 landa: Austurríkis, Belgíu, Brasilíu, Tékklands, Danmörku, Finnlands, Frakklands, Þýskalands, Ítalíu, Hollands, Portúgals, Spánar, Svíþjóðar, Sviss og Bretlands. Með því að reisa og reka öflugustu stjörnuathugunarstöðvar heims leggur ESO grunninn að mikilvægum uppgötvunum stjörnufræðinga. Í Chile rekur ESO þrjár stjörnuathugunarstöðvar í heimsflokki: La Silla, Paranal og Chajnantor. Á Paranalfjalli starfrækir ESO Very Large Telescope, fullkomnustu stjörnusjónauka heims sem notaðir eru til athugana á sýnilegu ljósi og tvo kortlagningarsjónauka. VISTA er stærsti kortlagningarsjónauki veraldar fyrir innrautt ljós og VLT Survey Telescope er stærsti sjónauki heims sem eingöngu er ætlað að kortleggja himinn í sýnilegu ljósi. ESO er þátttakandi í ALMA, byltingarkenndum útvarpssjónauka og stærsta stjarnvísindaverkefni heims. ESO hyggur einnig á smíði 39 metra risasjónauka, European Extremely Large Telescope eða E-ELT sem verður „stærsta auga jarðar“.

Tenglar

Tengiliðir

Sævar Helgi Bragason
University of Iceland
Reykjavík, Iceland
Farsími: +354-896-1984
Tölvupóstur: eson-iceland@eso.org

Richard Hook
ESO, La Silla, Paranal, E-ELT and Survey Telescopes Public Information Officer
Garching bei München, Germany
Sími: +49 89 3200 6655
Farsími: +49 151 1537 3591
Tölvupóstur: rhook@eso.org

Connect with ESO on social media

Þetta er þýðing á fréttatilkynningu ESO eso1307.

Um fréttatilkynninguna

Fréttatilkynning nr.:eso1307is
Nafn:Barnard 86, NGC 6520
Tegund:Milky Way : Star : Grouping : Cluster : Open
Milky Way : Nebula : Appearance : Dark : Bok Globule
Facility:MPG/ESO 2.2-metre telescope
Instruments:WFI

Myndir

Bjarta stjörnuþyrpingin NGC 6520 og sérkennilega skuggaþokan Barnard 86
Bjarta stjörnuþyrpingin NGC 6520 og sérkennilega skuggaþokan Barnard 86
Stjörnuþyrpingin NGC 6520 og skuggaþokan Barnard 86 í stjörnumerkinu Bogmanninum
Stjörnuþyrpingin NGC 6520 og skuggaþokan Barnard 86 í stjörnumerkinu Bogmanninum
Víðmynd af stjörnuþyrpingunni NGC 6520 og skuggaþokunni Barnard 86
Víðmynd af stjörnuþyrpingunni NGC 6520 og skuggaþokunni Barnard 86

Myndskeið

Þysjað inn að stjörnuþyrpingunni NGC 6520 og skuggaþokunni Barnard 86
Þysjað inn að stjörnuþyrpingunni NGC 6520 og skuggaþokunni Barnard 86
Skimað yfir stjörnuþyrpinguna NGC 6520 og skuggaþokuna Barnard 86
Skimað yfir stjörnuþyrpinguna NGC 6520 og skuggaþokuna Barnard 86
Samanburður á ljósmynd í innrauðu og sýnilegu ljósi af þyrpingunni NGC 6520 og skuggaþokunni Barnard 86
Samanburður á ljósmynd í innrauðu og sýnilegu ljósi af þyrpingunni NGC 6520 og skuggaþokunni Barnard 86