eso1224is — Fréttatilkynning

Spánarkonungur heimsækir Paranal stjörnustöð ESO

7. júní 2012

Miðvikudaginn 6. júní heimsótti hans hátign Jóhann Karl I. Spánarkonungur Paranal stjörnustöð ESO þar sem hann hitti forseta Chile, Kólumbíu, Mexíkó og Perú og aðra embættismenn sem sóttu fjórða fund Kyrrahafsbandalagsins í Paranal stjörnustöðinni.

Spánarkonungur kom í Paranal stjörnustöð ESO miðvikudaginn 6. júní og tóku þeir Xavier Barcons, forseti ESO ráðsins, Tim de Zeeuw, framkvæmdarstjóri ESO, Massimo Tarenghi, fulltrúi ESO í Chile og Andreas Kaufer, stjórnandi stjörnustöðvarinnar, á móti honum.

„Það er okkur mikill heiður að bjóða hans hátign velkominn til Paranal og njóta gestrisni okkar hér í miðri Atacamaeyðimörkinni í Chile“ sagði Tim de Zeeuw.

Á þessum hrörlega stað — einum þeim þurrasta í heimi, í 2.600 metra hæð yfir sjávarmáli — er Paranal einn besti staður jarðar til stjörnuathugana. Þar eru fjórir 8,2 metra sjónaukar og fjórir 1,8 metra hjálparsjónaukar sem saman mynda Very Large Telescope ESO en auk þeirra eru kortlagningarsjónaukarnir VST og VISTA einnig á staðnum. Paranal er öflugasta stjörnustöð jarðar.

Konungurinn snæddi hádegisverð með forsetum Chile, Kólumbíu, Mexíkó og Perú, sem og öðrum embættismönnum frá Kosta Ríka, Panama, Kanada, Japan og Ástralíu sem höfðu nýlokið fjórða fundi Kyrrahafsbandalagsins sem fram fór í Paranal (sjá frekari upplýsingar í eso1223).

José Manuel García-Margallo, utanríkis- og samvinnuráðherra Spánar, var í fylgdarliði konungs og átti hann stuttan fund með Xavier Barcons um hlutverk Spánar í ESO.

Konungurinn kom til Paranal á síðasta degi opinberrar heimsóknar sinnar til Suður Ameríku, þar sem hann heimsótti Brasilíu og Chile, áður en hann sneri aftur til Spánar.

Undanfarna mánuðum hafa nokkrir meðlimir konungsfjölskyldna heimsótt Paranal stjörnustöðina og notið þar stjörnubjarts himins, þar á meðal prinsinn af Astúríu, sonur Jóhanns Karls I. og Filippus Belgíuprins. Þetta er hins vegar í fyrsta sinn sem sitjandi konungur hefur heimsótt stjörnustöðina frá því hún var tekin í notkun.

Frekari upplýsingar

Árið 2012 fagnar European Southern Observatory (ESO), stjörnustöð Evrópulanda á suðurhveli, fimmtíu ára afmæli sínu. ESO er fremsta fjölþjóðlega stjörnustöð Evrópu og ein öflugasta stjörnustöð heims. Hún nýtur stuðnings 15 landa: Austurríkis, Belgíu, Brasilíu, Tékklands, Danmörku, Finnlands, Frakklands, Þýskalands, Ítalíu, Hollands, Portúgals, Spánar, Svíþjóðar, Sviss og Bretlands. Með því að reisa og reka öflugustu stjörnuathugunarstöðvar heims leggur ESO grunninn að mikilvægum uppgötvunum stjörnufræðinga. Í Chile rekur ESO þrjár stjörnuathugunarstöðvar í heimsflokki: La Silla, Paranal og Chajnantor. Á Paranalfjalli starfrækir ESO Very Large Telescope, fullkomnustu stjörnusjónauka heims sem notaðir eru til athugana á sýnilegu ljósi og tvo kortlagningarsjónauka. VISTA er stærsti kortlagningarsjónauki veraldar fyrir innrautt ljós og VLT Survey Telescope er stærsti sjónauki heims sem eingöngu er ætlað að kortleggja himinn í sýnilegu ljósi. ESO er þátttakandi í ALMA, byltingarkenndum útvarpssjónauka og stærsta stjarnvísindaverkefni heims. ESO hyggur einnig á smíði 40 metra risasjónauka, European Extremely Large Telescope eða E-ELT sem verður „stærsta auga jarðar“.

Tenglar

Tengiliðir

Sævar Helgi Bragason
University of Iceland
Reykjavík, Iceland
Farsími: +354-896-1984
Tölvupóstur: eson-iceland@eso.org

Lars Lindberg Christensen
ESO education and Public Outreach Department
Garching bei München, Germany
Sími: +49-89-3200-6761
Farsími: +49-173-3872-621
Tölvupóstur: lars@eso.org

Massimo Tarenghi
ESO Representative in Chile
Santiago, Chile
Sími: +56 2 463 3143
Tölvupóstur: mtarengh@eso.org

Connect with ESO on social media

Þetta er þýðing á fréttatilkynningu ESO eso1224.

Um fréttatilkynninguna

Fréttatilkynning nr.:eso1224is
Nafn:Site visit
Tegund:Unspecified : People
Facility:Very Large Telescope

Myndir

Jóhann Karl I. Spánarkonungur og Xavier Barcons, forseti ESO ráðsins
Jóhann Karl I. Spánarkonungur og Xavier Barcons, forseti ESO ráðsins
Hans hátign Spánarkonungur ásamt forsetum ríkja Kyrrahafsbandalagsins
Hans hátign Spánarkonungur ásamt forsetum ríkja Kyrrahafsbandalagsins