Kids

eso1213is — Fréttatilkynning

VISTA starir djúpt út í alheiminn

Gullnáma nýrra gagna VISTA nú aðgengileg stjörnufræðingum

21. mars 2012

VISTA sjónauki ESO hefur tekið stærstu innrauðu djúpmynd af himninum sem til er. Myndin er af allvenjulegum bletti á himninum en er hluti af UltraVISTA kortlagningunni og á henni eru yfir 200.000 vetrarbrautir. Hún er lítill hluti af risavöxnu safni fullunnra ljósmynda úr öllum kortlagningarverkefnum VISTA sem ESO hefur nú gert aðgengilegt stjörnufræðingum um allan heim. UltraVISTA er sannkölluð gullnáma fyrir stjörnufræðinga sem rannsaka fjarlægar vetrarbrautir í árdaga alheimsins en líka fjölmörg önnur rannsóknarefni.

VISTA sjónauka ESO hefur ítrekað verið beint að sama svæði á himninum í þeim tilgangi að safna, hægt og rólega, daufri ljóstýru fjarlægustu vetrarbrautanna. Teknar voru yfir sex þúsund ljósmyndir í gegnum fimm mismunandi litsíur og nam heildarlýsingartíminn 55 klukkustundum. Myndunum hefur nú verið staflað saman og er útkoman þessi nýja ljósmynd. Myndin, sem er úr UltraVISTA kortlagningunni, er stærsta og dýpsta [1] innrauða ljósmynd sem til er af himninum.

VISTA sjónaukinn í Paranal stjörnustöð ESO í Chile er stærsti og öflugasti kortlagningarsjónauki heims fyrir innrautt ljós. Frá því að sjónaukinn var tekinn í notkun árið 2009 (eso0949) hafa mælingar hans að mestu snúist um opinber kortlagningarverkefni sem sum hver spanna stóran hluta af suðurhimninum á meðan önnur beinast að fremur litlum svæðum. UltraVISTA kortlagningin hefur beinst að COSMOS svæðinu ([2], eso1124, heic0701) sem sýnist autt á himninum en aðrir sjónaukar, þar á meðal Hubble geimsjónauki NASA og ESA [3], hafa rannsakað ítarlega. Af sex kortlagningarverkefnum VISTA er UltraVISTA langdýpst og dregur fram daufustu fyrirbærin.

Unnið er að vinnslu gagna frá VISTA — sem í heild nema 6 terabætum — í gagnaverum í Evrópu. Þaðan eru þau send í vísindagagnasafn ESO þar sem þau eru síðan gerð aðgengileg stjörnufræðingum um heim allan.

Við fyrstu sýn virðist harla fátt markvert á UltraVISTA myndinni, einungis fáeinar bjartar stjörnur og reytingur af daufari stjörnum. En í raun eru næstum öll daufu fyrirbærin ekki stjörnur í vetrarbrautinni okkar, heldur aðrar vetrarbrautir í órafjarlægð og inniheldur hver þeirra marga milljarða stjarna. Stækki maður myndina svo hún fylli út í skjáinn og þysji inn, sjást miklu fleiri vetrarbrautir. Í heild eru yfir 200.000 vetrarbrautir á myndinni.

Útþensla alheimsins hefur teygt á ljósi fjarlægra fyrirbæra svo bylgjulengdin hefur lengst. Þess vegna er ljós stjarna frá fjarlægustu vetrarbrautunum að mestu á innrauða sviðinu þegar það loksins berst til jarðar. VISTA er einstaklega næmur og öflugur innrauður sjónauki með vítt sjónsvið og getur þess vegna greint fjarlægar vetrarbrautir í árdaga alheimsins. Með því að rannsaka rauðvik vetrarbrauta í sívaxandi fjarlægð geta stjörnufræðingar rakið þróunarsögu vetrarbrauta.

Þegar betur er að gáð sjást mörg rauðleit fyrirbæri á víð og dreif innan um ljósleitu vetrarbrautirnar. Þessi rauðu deplar mestmegnis órafjarlægar vetrarbrautir sem við sjáum þegar alheimurinn var aðeins brot af núverandi aldri sínum. Fyrstu rannsóknir á UltraVISTA myndinni, auk rannsókna á myndum annarra sjónauka, sýna að margar vetrarbrautirnar sjást eins og þær litu út þegar alheimurinn var innan við eins milljarðs ára gamall og að nokkrar eru jafnvel enn eldri.

Þótt UltraVISTA myndin sé nú um stundir stærsta og dýpsta innrauða ljósmynd sem til er, munu mælingar halda áfram. Eftir nokkur ár verða lokaniðurstöðurnar birtar og þá verður kafað enn dýpra.

Kortlagningar eru mjög mikilvægar í stjarnvísindum og því hefur ESO sett af stað áætlun [4] svo að sú ríka arfleið bæði VISTA og VLT Survey Telescope (VST, eso1119), hliðstæðunnar sem greinir sýnilegt ljós, verði stjörnufræðingum aðgengileg næstu áratugi.

Skýringar

[1] Stjörnufræðingar kalla djúpmyndir þær myndir sem teknar eru á löngum lýsingartíma og gera þeim kleift að greina daufustu fyrirbærin. Alla jafna eru teknar margar myndir með stuttan lýsingartíma og þeim síðan staflað saman í tölvu.

[2] Mynd UltraVISTA er af COSMOS svæðinu sem er tífalt stærra en sýndarflatarmál fulls tungls á himninum (næstum tvær fergráður), álíka stórt og sjónsvið VISTA sjónaukans, í stjörnumerkinu Sextantinum. Fjöldi annarra sjónauka hefur kortlagt sama svæði svo mörg önnur rannsóknarverkefni munu njóta góðs af þessu mikla gagnasafni.

[3] Innrauðar mælingar UltraVISTA á COSMOS svæðinu voru mjög djúpar og bæta upp athuganir sem gerðar hafa verið með öðrum sjónaukum, bæði á jörðinni og í geimnum, á mismunandi bylgjulengdum.

[4] Venjulega eru gögn frá sjónaukum ESO flutt beint í stórt gagnasafn. Nýtt framtak, kallað Phase 3, safnar unnum gögnum frá stjörnufræðingum í Evrópu og gerir þau aðgengileg. Úrvinnsla stórra stjörnuljósmynda líkt og þeirra sem koma frá kortlagningarsjónaukum er krefjandi og krefjast öflugs tölvubúnaðar og sérfræðiþekkingar. Að geta útvegað yfirgripsmikil og fullunnin gögn í stað hrárra hjálpar stjarnvísindasamfélaginu að nýta gögnin til fulls.

Frekari upplýsingar

Árið 2012 fagnar European Southern Observatory (ESO), stjörnustöð Evrópulanda á suðurhveli, fimmtíu ára afmæli sínu. ESO er fremsta fjölþjóðlega stjörnustöð Evrópu og ein öflugasta stjörnustöð heims. Hún nýtur stuðnings 15 landa: Austurríkis, Belgíu, Brasilíu, Tékklands, Danmörku, Finnlands, Frakklands, Þýskalands, Ítalíu, Hollands, Portúgals, Spánar, Svíþjóðar, Sviss og Bretlands. Með því að reisa og reka öflugustu stjörnuathugunarstöðvar heims leggur ESO grunninn að mikilvægum uppgötvunum stjörnufræðinga. Í Chile rekur ESO þrjár stjörnuathugunarstöðvar í heimsflokki: La Silla, Paranal og Chajnantor. Á Paranalfjalli starfrækir ESO Very Large Telescope, fullkomnustu stjörnusjónauka heims sem notaðir eru til athugana á sýnilegu ljósi og tvo kortlagningarsjónauka. VISTA er stærsti kortlagningarsjónauki veraldar fyrir innrautt ljós og VLT Survey Telescope er stærsti sjónauki heims sem eingöngu er ætlað að kortleggja himinn í sýnilegu ljósi. ESO er þátttakandi í ALMA, byltingarkenndum útvarpssjónauka og stærsta stjarnvísindaverkefni heims. ESO hyggur einnig á smíði 40 metra risasjónauka, European Extremely Large Telescope eða E-ELT sem verður „stærsta auga jarðar“.

Tenglar

Tengiliðir

Sævar Helgi Bragason
University of Iceland
Reykjavík, Iceland
Farsími: +354-896-1984
Tölvupóstur: eson-iceland@eso.org

James S. Dunlop
Institute for Astronomy, University of Edinburgh, Royal Observatory
Edinburgh, UK
Sími: +44 131 668 8477
Tölvupóstur: jsd@roe.ac.uk

Marijn Franx
Leiden Observatory
Leiden, Netherlands
Sími: +31 71 527 5870
Tölvupóstur: franx@strw.leidenuniv.nl

Johan Fynbo
Dark Cosmology Centre, University of Copenhagen
Copenhagen, Denmark
Sími: +45 3532 5983
Tölvupóstur: jfynbo@dark-cosmology.dk

Olivier Le Fèvre
Laboratoire d'Astrophysique de Marseille
Marseille, France
Sími: +33 4 91 05 59 85
Tölvupóstur: Olivier.LeFevre@oamp.fr

Henry Joy McCracken
Institut d'astrophysique de Paris
Paris, France
Tölvupóstur: hjmcc@iap.fr

Magda Arnaboldi
ESO
Garching bei München, Germany
Sími: +49 89 3200 6599
Tölvupóstur: marnabol@eso.org

Richard Hook
ESO, La Silla, Paranal, E-ELT and Survey Telescopes Public Information Officer
Garching bei München, Germany
Sími: +49 89 3200 6655
Farsími: +49 151 1537 3591
Tölvupóstur: rhook@eso.org

Connect with ESO on social media

Þetta er þýðing á fréttatilkynningu ESO eso1213.

Um fréttatilkynninguna

Fréttatilkynning nr.:eso1213is
Nafn:COSMOS Field
Tegund:Early Universe : Cosmology : Morphology : Deep Field
Facility:Visible and Infrared Survey Telescope for Astronomy
Instruments:VIRCAM

Myndir

VISTA starir djúpt út í alheiminn
VISTA starir djúpt út í alheiminn
Það helsta á innrauðri djúpmynd VISTA af COSMOS svæðinu
Það helsta á innrauðri djúpmynd VISTA af COSMOS svæðinu
COSMOS svæðið í stjörnumerkinu Sextantinum
COSMOS svæðið í stjörnumerkinu Sextantinum
VISTA starir djúpt út í geiminn
VISTA starir djúpt út í geiminn

Myndskeið

Þysjað inn í djúpmynd VISTA af COSMOS svæðinu
Þysjað inn í djúpmynd VISTA af COSMOS svæðinu
Skimað yfir djúpmynd VISTA af COSMOS svæðinu
Skimað yfir djúpmynd VISTA af COSMOS svæðinu