eso1103is — Fréttatilkynning

Sverðþokan í Óríon kemur enn á óvart

19. janúar 2011, Reykjavík

Þessi draumkennda mynd af Sverðþokunni í Óríon var tekin með Wide Field Imager á 2,2 metra MPG/ESO sjónaukanum í La Silla stjörnustöðinni í Chile. Hér verða stjörnufræðingar vitni að myndun massamikilla stjarna í návígi sem eykur mjög þekkingu okkar á myndun og þróun stjarna. Það var Rússinn Igor Chekalin, þátttakandi í Hidden Treasures 2010 stjörnuljósmyndakeppni ESO, sem fann gögnin sem þessi mynd er sett saman úr. Mynd Igors af Sverðþokunni var álitin sjöunda besta mynd keppninnar en hann bar sigur úr býtum með annarri mynd.

Sverðþokan í Óríon, einnig þekkt sem Messier 42, er ein þekktasta og mest rannsakaða fyrirbæri himinhvolfsins. Hún er risastór gas- og rykþoka þar sem massamiklar stjörnur eru í myndun og jafnframt nálægasta slíka svæðið við jörðina. Þokan skín svo skært að hægt er að sjá hana með berum augum en í gegnum stjörnusjónauka er hún afar glæsileg. Enn er þó margt á huldu um þetta stjörnuhreiður þótt það sé nálægt okkur og vinsælt rannsóknarefni. Til að mynda var ekki sýnt fram á fyrr en árið 2007 að þokan er nær okkur en áður var talið: 1.350 ljósár í stað 1.500 ljósára.

Stjarnvísindamenn hafa notað Wide Field Imager á 2,2 metra MPG/ESO sjónaukanum í stjörnustöð ESO á La Silla í Chile til rannsókna á stjörnum í Sverðþokunni. Þeir hafa komist að því að daufar rauðar dvergstjörnur í stjörnuþyrpingu innan þokunnar gefa frá sér miklu meiri geislun en áður var talið. Það veitir okkur enn betri innsýn í þessa frægu þoku og stjörnurnar sem í henni eru. Gögnin sem myndin er búin til úr var upphaflega aflað til vísindarannsókna eingöngu en ætlunin var ekki að útbúa þessa glæsilegu litmynd af Messier 42.

Myndin er sett saman úr ljósmyndum sem teknar voru í gegnum fimm mismunandi ljóssíur. Rauða litinn má rekja til glóandi vetnisgass og ljóss sem berst í gegnum rauða síu. Ljós í gul-græna hluta litrófsins er grænt, bláa ljósið blátt og ljós sem berst í gegnum útbláa síu er fjólublátt. Í heild var lýsingartíminn í gegnum hverja síu 52 mínútur.

ESO vann þessa ljósmynd úr gögnum sem Rússinn Igor Chekalin [1] fann í gagnasafni samtakanna en hann var þátttakandi í Hidden Treasures 2010 [2] stjörnuljósmyndakeppni ESO sem stóð yfir í október og nóvember á síðasta ári. Keppnin var opin öllum þeim sem útbúa fallegar ljósmyndir af næturhimninum með raunverulegum vísindagögnum, sér til ánægju og yndisauka.

Skýringar

[1] Mynd Igors af Messier 42 var álitin sjöunda besta mynd keppninnar en í heild bárust næstum hundrað ljósmyndir. Hér má sjá upprunalegu myndina. Igor Chekalin hlaut fyrstu verðlaun í keppninni fyrir mynd sína af Messier 78 en hann sendi líka inn mynd af NGC 3169, NGC 3166 og SN 2003cg sem þótti næst best.

[2] Í Hidden Treasures 2010 ljósmyndakeppni ESO gafst stjörnuáhugafólki tækifæri til að kafa ofan í gagnasafn ESO í leit að vel földum ljósmyndafjársjóði. Af þeim 100 ljósmyndum sem sendar voru inn í keppnina sendu tíu hæfileikaríkustu þátttakendurnir inn tuttugu bestu myndirnar og voru þeir verðlaunaðir. Vinningshafinn hlaut að launum ferð að Very Large Telescope (VLT) ESO á Cerro Paranal í Chile, sem er fullkomnasta stjörnustöð heims fyrir rannsóknir á sýnilegu ljósi.

Frekari upplýsingar

ESO, European Southern Observatory, stjörnustöð Evrópulanda á suðurhveli, er fremsta fjölþjóðlega stjörnustöð Evrópu og ein öflugasta stjörnustöð heims. Hún nýtur stuðnings 15 landa: Austurríkis, Belgíu, Brasilíu, Tékklands, Danmörku, Finnlands, Frakklands, Þýskalands, Ítalíu, Hollands, Portúgals, Spánar, Svíþjóðar, Sviss og Bretlands. Með því að reisa og reka öflugustu stjörnuathugunarstöðvar heims leggur ESO grunninn að mikilvægum uppgötvunum stjörnufræðinga. Í Chile rekur ESO þrjár stjörnuathugunarstöðvar í heimsflokki: La Silla, Paranal og Chajnantor. Á Paranalfjalli starfrækir ESO Very Large Telescope, fullkomnustu stjörnusjónauka heims sem notaðir eru til athugana á sýnilegu ljósi og VISTA, stærsta kortlagningarsjónauka (survey telescope) veraldar. ESO er þátttakandi í ALMA, byltingarkenndum útvarpssjónauka og stærsta stjarnvísindaverkefni heims. ESO hyggur einnig á smíði 42 metra risasjónauka, European Extremely Large Telescope eða E-ELT sem verður „stærsta auga jarðar“.

Tenglar

Tengiliðir

Sævar Helgi Bragason
University of Iceland
Reykjavík, Iceland
Farsími: +354-896-1984
Tölvupóstur: saevar@stjornuskodun.is

Richard Hook
ESO, La Silla, Paranal, E-ELT and Survey Telescopes Public Information Officer
Garching bei München, Germany
Sími: +49 89 3200 6655
Farsími: +49 151 1537 3591
Tölvupóstur: rhook@eso.org

Connect with ESO on social media

Þetta er þýðing á fréttatilkynningu ESO eso1103.

Um fréttatilkynninguna

Fréttatilkynning nr.:eso1103is
Nafn:M 42, Messier 42
Tegund:Milky Way : Nebula : Appearance : Emission : H II Region
Facility:MPG/ESO 2.2-metre telescope
Instruments:WFI
Science data:2010ApJ...722.1092D
2009ApJS..183..261D

Myndir

The Orion Nebula*
The Orion Nebula*
texti aðeins á ensku
The jewel in Orion’s sword
The jewel in Orion’s sword
texti aðeins á ensku

Myndskeið

Zooming in on the Orion Nebula
Zooming in on the Orion Nebula
texti aðeins á ensku
Panning across the Orion Nebula
Panning across the Orion Nebula
texti aðeins á ensku