eso1009is — Fréttatilkynning

Himnesk leðurblaka

Stjörnueyja í mótun í útjaðri Óríons

3. mars 2010

Á þessari nýju mynd ESO sést NGC 1788, fremur fíngerð þoka, staðsett í dimmu og fremur lítt könnuðu horni stjörnumerkisins Óríons. Þótt þetta drungalega ský sé tiltölulega langt frá björtu stjörnum Óríons hafa öflugir vindar þeirra og sterk geislun mótað þokuna og myndað í henni fjölmargar ungar sólir.

Stjörnuáhugafólk um heim allan kannast vel við auðþekkjanlegar útlínur stjörnumerkisins Óríons. Færri þekkja þokuna NGC 1788, daufan, falinn fjársjóð skammt frá björtu stjörnunum í belti Óríons (Fjósakonunum).

NGC 1788 er endurskinsþoka. Gasið og rykið í henni dreifir ljósi frá lítilli þyrpingu ungra stjarna þannig að skýið minnir einna helst á risastóra leiðurblöku sem blakar vængjum sínum. Mjög fáar af þeim stjörnum sem í þokunni eru sjást á þessari mynd því flestar eru þær faldar á bakvið rykið sem umlykur þær. Í efri hluta skýsins, rétt fyrir ofan miðja mynd og fyrir ofan dökku rykslæðuna sem gengur þvert í gegnum þokuna, er stjarnan HD 293815 mest áberandi.

VIð fyrstu sýn virðist NGC 1788 stök en athuganir á stærra svæði í kring sýna að bjartar, massamiklar stjörnur, sem tilheyra stórum stjörnuhópum í Óríon, hafa leikið lykilhlutverk í að móta þokuna og hrinda af stað stjörnumyndun í henni. Þessar stjörnur hafa einnig örvað það vetnisgas í þokunni sem snýr að Óríon sem leiddi til myndunar rauðu og hér um bil ósýnilegu slæðunnar á vinstri helmingi myndarinnar.

Allar stjörnurnar á þessu svæði eru ungar, að meðaltali aðeins nokkurra milljóna ára gamlar, augnablik í samanburði við 4,5 milljarða ára aldur sólarinnar. Við nánari athugun hafa stjörnufræðingar fundið út að þessar ungu stjörnur falla náttúrulega í þrjá vel aðgreinda flokka: þær elstu, vinstra megin við rauðu slæðuna, þær yngri sem eru hægra megin við rauðu slæðuna og mynda litlu þyrpinguna í þokunni sem lýsir hana upp, og að lokum þær yngstu sem enn eru á kafi í ryki, lengra til hægri. Þótt engin þeirra síðastnefndu sjáist á þessari mynd vegna ryksins sem hylur þær, sjást nokkrir tugir þeirra með mælingum sem gerðar hafa verið á innrauða og millímetrasviðinu.

Þessi skipting, þ.e. að þær eldri séu nær Óríon en hinar yngri mestmegnist á gagnstæðri hlið, bendir til þess að bylgja stjörnumyndunar, sem rekja má til heitu og massamiklu stjarnanna í Óríon, hafi borist í gegnum NGC 1788 og út fyrir hana.

Myndin var tekin með Wide Field Imager á 2,2 metra MPG/ESO sjónaukanum í stjörnustöð ESO í La Silla í Chile.

Frekari upplýsingar

ESO, European Southern Observatory, stjörnustöð Evrópulanda á suðurhveli, er fremsta fjölþjóðlega stjörnustöð Evrópu og ein öflugasta stjörnustöð heims. Hún nýtur stuðnings 15 landa: Austurríkis, Belgíu, Brasilíu, Tékklands, Danmörku, Finnlands, Frakklands, Þýskalands, Ítalíu, Hollands, Portúgals, Spánar, Svíþjóðar, Sviss og Bretlands. Með því að reisa og reka öflugustu stjörnuathugunarstöðvar heims leggur ESO grunninn að mikilvægum uppgötvunum stjörnufræðinga. Í Chile rekur ESO þrjár stjörnuathugunarstöðvar í heimsflokki: La Silla, Paranal og Chajnantor. Á Paranalfjalli starfrækir ESO Very Large Telescope, fullkomnustu stjörnusjónauka heims sem notaðir eru til athugana á sýnilegu ljósi og VISTA, stærsta kortlagningarsjónauka (survey telescope) veraldar. ESO er þátttakandi í ALMA, byltingarkenndum útvarpssjónauka og stærsta stjarnvísindaverkefni heims. ESO hyggur einnig á smíði 42 metra risasjónauka, European Extremely Large Telescope eða E-ELT sem verður „stærsta auga jarðar“.

Tengiliðir

Sævar Helgi Bragason
University of Iceland
Reykjavík, Iceland
Farsími: +354-896-1984
Tölvupóstur: saevar@stjornuskodun.is

Henri Boffin
ESO La Silla-Paranal/E-ELT Press Officer
Garching, Germany
Sími: +49 89 3200 6222
Farsími: +49 174 515 43 24
Tölvupóstur: hboffin@eso.org

Connect with ESO on social media

Þetta er þýðing á fréttatilkynningu ESO eso1009.

Um fréttatilkynninguna

Fréttatilkynning nr.:eso1009is
Nafn:NGC 1788
Tegund:Milky Way : Star : Grouping : Cluster
Milky Way : Nebula : Appearance : Reflection
Facility:MPG/ESO 2.2-metre telescope
Instruments:WFI

Myndir

The cosmic bat — NGC 1788
The cosmic bat — NGC 1788
texti aðeins á ensku
Around NGC 1788
Around NGC 1788
texti aðeins á ensku

Myndskeið

Zoom in onto NGC 1788
Zoom in onto NGC 1788
texti aðeins á ensku