eso1003is — Fréttatilkynning

Á slóð alheimskattarins

20. janúar 2010

ESO hefur birt nýja og glæsilega mynd af risastóru gas- og rykskýi sem nefnist Kattarloppuþokan eða NGC 6334. Á þessu svæði, sem er að miklu leyti hulið ryki, er fjöldi massamikilla stjarna að myndast skammt frá hjarta Vetrarbrautarinnar.

Fá fyrirbæri standa jafnvel undir nafni sínu og Kattarloppuþokan; glóandi gasský sem minnir helst á risavaxið loppufar kattar sem setur spor sitt á alheiminn. Árið 1837 skrásetti breski stjörnufræðingurinn John Herschel fyrstur manna NGC 6334 þegar hann dvaldi í Suður Afríku. Þrátt fyrir að hafa einn stærsta sjónauka heims undir höndum á þeim tíma virðist Herschel eingöngu hafa séð bjartasta hluta skýsins sem sést hér neðarlega til vinstri.

NGC 6334 er í um 5.500 ljósára fjarlægð í stjörnumerkinu Sporðdrekanum. Það nær yfir örlítið stærra svæði en fullt tungl en er í raun um 50 ljósár í þvermál. Þokan sýnist rauð vegna þess að efni sem er milli þokunnar og jarðar gleypir og dreifir bláa og græna ljósinu. Rauða bjarmann má aðallega rekja til glóandi vetnisgass sem skín vegna orkuríkrar geislunar frá heitum, ungum stjörnum.

NGC 6334 er einn virkasti myndunarstaður massamikilla stjarna í Vetrarbrautinni okkar og er þess vegna vinsælt rannsóknarefni stjörnufræðinga. Í þokunni eru nýmyndaðar bjartar bláar stjörnur — hver næstum tíu sinnum massameiri en sólina okkar — sem urðu til á síðustu nokkrum milljónum ára. Svæðið hýsir líka margar ungar stjörnur sem eru grafnar djúpt inni í rykskýjum sem veldur því að erfitt er að rannsaka þær. Í heild gæti Kattarloppuþokan innihaldið nokkra tugi þúsunda stjarna.

Rauða kúlan neðarlega til hægri á myndinni er sérstaklega áhugaverð. Hún á annað hvort rætur að rekja til stjörnu sem nálgast endalok ævi sinnar og er að varpa frá sér miklu magni efnis á gífurlegum hraða eða leifar stjörnu sem hefur þegar sprungið.

Þessi nýja mynd af Kattarloppuþokunni var búin til úr myndum sem teknar voru með Wide Field Imager (WFI) myndavélinni á 2,2 metra MPG/ESO sjónaukanum í La Silla stjörnustöðinni í Chile. Myndin er sett saman úr ljósmyndum sem teknar voru í gegnum bláa, græna og rauða síu, en líka sérstaka síu sem gleypir í gegn ljósi frá glóandi vetni.

Frekari upplýsingar

ESO, European Southern Observatory, stjörnustöð Evrópulanda á suðurhveli, er fremsta fjölþjóðlega stjörnustöð Evrópu og ein öflugasta stjörnustöð heims. Hún nýtur stuðnings 15 landa: Austurríkis, Belgíu, Brasilíu, Tékklands, Danmörku, Finnlands, Frakklands, Þýskalands, Ítalíu, Hollands, Portúgals, Spánar, Svíþjóðar, Sviss og Bretlands. Með því að reisa og reka öflugustu stjörnuathugunarstöðvar heims leggur ESO grunninn að mikilvægum uppgötvunum stjörnufræðinga. Í Chile rekur ESO þrjár stjörnuathugunarstöðvar í heimsflokki: La Silla, Paranal og Chajnantor. Á Paranalfjalli starfrækir ESO Very Large Telescope, fullkomnustu stjörnusjónauka heims sem notaðir eru til athugana á sýnilegu ljósi og VISTA, stærsta kortlagningarsjónauka (survey telescope) veraldar. ESO er þátttakandi í ALMA, byltingarkenndum útvarpssjónauka og stærsta stjarnvísindaverkefni heims. ESO hyggur einnig á smíði 42 metra risasjónauka, European Extremely Large Telescope eða E-ELT sem verður „stærsta auga jarðar“.

Tengiliðir

Sævar Helgi Bragason
University of Iceland
Reykjavík, Iceland
Farsími: +354-896-1984
Tölvupóstur: saevar@stjornuskodun.is

Henri Boffin
ESO La Silla-Paranal/E-ELT Press Officer
Garching, Germany
Sími: +49 89 3200 6222
Tölvupóstur: hboffin@eso.org

Connect with ESO on social media

Þetta er þýðing á fréttatilkynningu ESO eso1003.

Um fréttatilkynninguna

Fréttatilkynning nr.:eso1003is
Nafn:NGC 6334
Tegund:Milky Way : Nebula : Type : Star Formation
Facility:MPG/ESO 2.2-metre telescope
Instruments:WFI

Myndir

The Cat's Paw Nebula*
The Cat's Paw Nebula*
texti aðeins á ensku
Around the Cat's Paw Nebula
Around the Cat's Paw Nebula
texti aðeins á ensku

Myndskeið

Zooming into the Cat's Paw Nebula
Zooming into the Cat's Paw Nebula
texti aðeins á ensku
Panning across the Cat’s Paw Nebula
Panning across the Cat’s Paw Nebula
texti aðeins á ensku