eso0936is — Fréttatilkynning

Þríleiknum lokið

GigaGalaxy Zoom, 3. hluti

28. september 2009

Þriðja myndin í GigaGalaxy Zoom verkefni ESO hefur verið birt. Þar með lýkur á glæstan hátt köfun okkar inn í Vetrarbrautina. Nýjasta myndin fylgir í kjölfar tveggja annarra sem birst hafa síðustu tvær vikur af himninum eins og hann sést með berum augum og í gegnum áhugamannasjónauka. Þriðja myndin er stórglæsileg 370 milljón pixla mynd af Lónþokunni í þeirri dýpt og þeim gæðum sem stjörnufræðingar þurfa í viðleitni sinni til að skilja alheiminn.

Þessi nýja mynd nær yfir meira en einnar og hálfrar fergráðu svæði af himninum — svæði sem er áttfalt stærra en fullt tungl. Myndin var tekin með Wide Field Imager á 2,2 metra MPG/ESO sjónaukanum í stjörnustöðinni í La Silla í Chile. Þessi 67 milljón pixla myndavél hefur tekið margar glæsilegustu myndir ESO.

Fyrirbærið sem hér sést — Lónþokan — er í fjögur til fimm þúsund ljósára fjarlægð í stjörnumerkinu Bogmanninum. Þokan er risavaxið 100 ljósára breitt miðgeimsský þar sem stjörnur eru að myndast. Dökku flekkirnir á víð og dreif um þokuna eru stærðarinnar gas- og rykský að falla saman undan eigin þunga. Þær munu fljótlega geta af sér þyrpingar ungra, glóandi stjarna. Sum smæstu skýin kallast „hnoðrar“ og höfðu þau mörg hver verið skrásett af stjörnufræðingnum Edward Emerson Barnard.

Í Lónþokunni er ung lausþyrping sem nefnist NGC 6630. Í henni eru 50 til 100 stjörnur og smáglampar í neðri hluta þokunnar, vinstra megin. Mælingar benda til að þyrpingin sé örlítið fyrir framan þokuna sjálfa. Hún er enn umlukin ryki eins og sjá má af geimroðnun ljóssins frá stjörnunum, áhrif sem verða þegar litlar rykagnir dreifa ljósi.

Lónþokan dregur nafn sitt af breiðri, dökkri lónlaga slæðu í miðri þokunni sem skiptir henni í tvennt.

Myndin af þessu glæsilega svæði er síðasta myndin af þremur í GigaGalaxy Zoom verkefninu sem ESO hleypti af stokkunum í tilefni Alþjóðlegs árs stjörnufræðinnar 2009. GigaGalaxy Zoom verkefnið sýnir allan himininn eins og hann birtist okkur með berum augum frá einni dimmustu eyðimörk jarðar á þremur risastórum ljósmyndum. Hægt er að þysja inn að einu ríkulegasta svæði Vetrarbrautarinnar eins og það birtist í gegnum áhugamannasjónauka og skoða smáatriði í frægri þoku á mynd sem tekin var með atvinnumannasjónauka. Þannig er leitast við að tengja himininn sem við sjáum með berum augum við hinn djúpa „dulda“ alheim sem stjörnufræðingar rannsaka daglega. Gæði myndanna ber vitni um glæsilegan næturhiminn yfir stjörnustöðvum ESO í Chile, öflugustu stjörnustöðvum heims.

„Vefsíða GigaGalaxy Zoom verkefnisins hefur verið vel sótt og dregið að sér mörg hundruð þúsund gesti frá öllum heimshornum“ segir verkefnastjórinn Henri Boffin. „Þríleiknum er nú lokið og geta áhugasamir skoðað geiminn í ótrúlegum smáatriðum og kafað inn í Vetrarbrautina okkar.“

Frekari upplýsingar

ESO er þátttakandi í nokkrum metnaðarfullum vísindamiðlunarverkefnum á Alþjóðlegu ári stjörnufræðinnar 2009 í samræmi við að vera leiðandi á sviði stjarnvísinda. ESO hýsir skrifstofu alþjóðaársins fyrir hönd Alþjóðasambands stjarnfræðinga sem hefur yfirumsjón með hátíðahöldunum um allan heim. ESO tekur þátt í skipulagningu stjörnufræðiársins og lagði líka sitt af mörkum til samþykktarinnar sem Ítalía lagði fram hjá Sameinuðu þjóðunum sem leiddi til þess að 62. þing Sameinuðu þjóðanna lýsti árið 2009 Alþjóðlegt ár stjörnufræðinnar. ESO hefur umsjón með þremur af tólf alþjóðlegum hornsteinsverkefnum auk þess að koma að fjölmörgum öðrum fyrirhuguðum verkefnum.

ESO, European Southern Observatory, stjörnustöð Evrópulanda á suðurhveli, er fremsta fjölþjóðlega stjörnustöð Evrópu og ein öflugasta stjörnustöð heims. Hún nýtur stuðnings 15 landa: Austurríkis, Belgíu, Brasilíu, Tékklands, Danmörku, Finnlands, Frakklands, Þýskalands, Ítalíu, Hollands, Portúgals, Spánar, Svíþjóðar, Sviss og Bretlands. Með því að reisa og reka öflugustu stjörnuathugunarstöðvar heims leggur ESO grunninn að mikilvægum uppgötvunum stjörnufræðinga. Í Chile rekur ESO þrjár stjörnuathugunarstöðvar í heimsflokki: La Silla, Paranal og Chajnantor. Á Paranalfjalli starfrækir ESO Very Large Telescope, fullkomnustu stjörnusjónauka heims sem notaðir eru til athugana á sýnilegu ljósi og VISTA, stærsta kortlagningarsjónauka (survey telescope) veraldar. ESO er þátttakandi í ALMA, byltingarkenndum útvarpssjónauka og stærsta stjarnvísindaverkefni heims. ESO hyggur einnig á smíði 42 metra risasjónauka, European Extremely Large Telescope eða E-ELT sem verður „stærsta auga jarðar“.

Þriðja GigaGalaxy Zoom myndin var tekin með Wide Field Imager (WFI) myndavélinni á 2,2 metra MPG/ESO sjónaukanum í stjörnustöð ESO í La Silla í Chile. Starfsmenn ESO tóku myndirnar og völdu heppilegustu tímasetningarnar til þess ásamt því að taka með í reikninginn aðstæður í lofthjúpnum svo hægt væri að nýta aðgang að sjónaukanum sem best. La Silla stjörnustöðin er 600 km norður af Santiago, höfuðborg Chile, í 2.400 metra hæð yfir sjávarmáli. Stjörnustöðin var stofnuð árið 1962. Síðan hefur ESO rekið þar afkastamestu 2-4 metra breiðu sjónauka heims.

Tenglar

Tengiliðir

Sævar Helgi Bragason
University of Iceland
Reykjavík, Iceland
Farsími: +354-896-1984
Tölvupóstur: eson-iceland@eso.org

Henri Boffin
ESO
Garching, Germany
Sími: +49 89 3200 6222
Tölvupóstur: hboffin@eso.org

Olivier Hainaut
ESO
Garching, Germany
Sími: +49 89 3200 675
Tölvupóstur: ohainaut@eso.org

Connect with ESO on social media

Þetta er þýðing á fréttatilkynningu ESO eso0936.

Um fréttatilkynninguna

Fréttatilkynning nr.:eso0936is
Legacy ID:PR 36/09
Nafn:Lagoon Nebula, NGC 6523
Tegund:Milky Way : Nebula : Type : Interstellar Medium
Milky Way : Nebula : Appearance : Emission : H II Region
Facility:MPG/ESO 2.2-metre telescope
Instruments:WFI

Myndir

370-million-pixel starscape of the Lagoon Nebula
370-million-pixel starscape of the Lagoon Nebula
texti aðeins á ensku
The GigaGalaxy Zoom composite
The GigaGalaxy Zoom composite
texti aðeins á ensku

Myndskeið

Diving into the Lagoon Nebula
Diving into the Lagoon Nebula
texti aðeins á ensku
Pan over the Lagoon Nebula
Pan over the Lagoon Nebula
texti aðeins á ensku
ESOcast 10: GigaGalaxy Zoom: The Sky, from the Eye to the Telescope
ESOcast 10: GigaGalaxy Zoom: The Sky, from the Eye to the Telescope
texti aðeins á ensku