Ísstrýtur í tunglskininu á Chajnantor

Babak Tafreshi, einn af ljósmyndurum ESO, tók þessa mynd af forvitnilegu fyrirbæri á Chajnantorsléttunni þar sem Atacama Large Millimeter/submillimeter Array (ALMA) er að finna.

Þessar sérkennilegu ísmyndanir kallast penitentes eftir spænska orðinu yfir strýtur. Þær lýsast upp í tunglskininu sem sést hægra megin á myndinni. Vinstra megin, hærra á lofti, glittir í Litla og Stóra Magellansskýin en rétt fyrir ofan sjóndeildarhringinn, lengst til vinstri, sést daufur rauðleitur bjarmi Kjalarþokunnar.

Ísstrýtur eru náttúrulegar ísmyndanir sem finnast aðallega á mjög hálendum svæðum eins og í Andesfjöllum Chile, venjulega í yfir 4.000 metra hæð yfir sjávarmáli. Þær eru þunnir broddar eða blöð úr hörðnuðum snjó eða ís sem myndast gjarnan í þyrpingum og vísa blöðin í átt að sólinni. Þær eru oft fáeinir sentímetrar á hæð og minna þá á nýslegið gras upp í fimm metrar og líkjast þá ísskógi í miðri eyðimörkinni.

Ekki er vitað með vissu hvernig ísstrýturnar verða til. Í mörg ár töldu íbúar í Andesfjöllunum að myndun þeirra mætti rekja til sterkra vinda sem blása um fjöllin. Hins vegar hefur komið á daginn að sterkir vindar leika takmarkað hlutverk í mótun strýtanna. Í dag er talið að þær verði til fyrir tilverknað nokkurra þátta.

Ferlið hefst með sólarljósi sem lýsir upp snjóinn. Vegna þess hve þurrt er í þessari skraufþurru eyðimörk, þurrgufar ísinn í stað þess að bráðna — hann breytist með öðrum orðum úr klaka í gas án þess að bráðna í millitíðinni. Trog í snjónum eru sem gildrur fyrir sólarljósið sem leiðir til meiri þurrgufunar og dýpri troga. Í trogunum er hitinn örlítið hærri og rakinn meiri svo bráðnun getur átt sér stað. Þessi jákvæða svörun hraðar vexti strýtanna.

Ísstrýturnar eru nefndar eftir strýtuhöttum „Nazarenos“, nasaretanna, bræðralags sem tekur þáttí píslargöngum víða um heim um páska. Í eyðimörkinni er auðvelt að sjá fyrir sér hóp ísmunka sem hefur safnast saman í eyðimörkinni.

Myndin var tekin frá vegi sem liggur upp að ALMA. Fyrstu mælingar hófust ALMA þann 30. september 2011 en þegar yfir lýkur samanstendur hún af 66 loftnetum sem starfa saman sem ein heild.

ALMA er alþjóðleg stjörnustöð sem byggð er í samstarfi Evrópu, Norður Ameríku og Austur Asíu í samvinnu við Chile. ESO sér um smíði og rekstur ALMA fyrir hönd Evrópu en National Radio Astronomy Observatory (NRAO) fyrir hönd Norður Ameríku og National Astronomical Observatory of Japan (NAOJ) fyrir hönd austur Asíu. Samræmd stjórnun á smíði, prófun og rekstri ALMA er í umsjá Joint ALMA Observatory (JAO).

Tenglar

Mynd/Myndskeið:

ESO/B. Tafreshi (twanight.org)

Um myndina

Auðkenni:potw1221a
Tungumál:is
Tegund:Ljósmynd
Útgáfudagur:Maí 21, 2012, 10:00 CEST
Stærð:4200 x 3012 px

Um fyrirbærið

Nafn:Atacama Desert
Tegund:Solar System : Planet : Feature : Surface

Mounted Image

Myndasnið

Stór JPEG
2,2 MB

Þysjanleg


Bakgrunnsmynd

1024x768
231,5 KB
1280x1024
355,9 KB
1600x1200
497,7 KB
1920x1200
574,0 KB
2048x1536
765,9 KB