Frá Antu til Yepun — VLT í smíðum

From Antu to Yepun (the historical image)
From Antu to Yepun (the present-day image)
Dragðu græna handfangið til að sjá myndirnar

Á þessu ári fagnar ESO fimmtíu ára afmæli sínu. Til að fagna því sýnum við ykkur svipmyndir af sögu okkar. Einu sinni í mánuði árið 2012 verður mynd vikunnar tileinkuð sérstökum „þá og nú“ samanburði sem sýnir hvernig hlutirnir hafa breyst undanfarna áratugi í La Silla og Paranal stjörnustöðvunum, skrifstofum ESO í Santiago í Chile og höfuðstöðvunum í Garching bei München í Þýskalandi.

Very Large Telescope (VLT), flaggskip ESO á Cerro Paranal í Chile, samanstendur af fjórum stórum aðalsjónaukum sem hver um sig hefur 8,2 metra breiðan safnspegil, auk fjögurra færanlegra 1,8 metra hjálparsjónauka. Ljósmyndir okkar þennan mánuðinn sýna einn af aðalsjónaukunum í smíðum en hin myndin sýnir útlit annars í dag.

Á gömlu myndinni sést fyrsti aðalsjónaukinn í smíðum snemma í verkferlinu seint í október árið 1995. Búið er að steypa grunninn og festa neðri fasta hluta málmhvolfsins við hann. Fyrstu hlutarnir af þeim hluta hvelfingarinnar sem snýst hefur einnig verið komið fyrir — neðsti hluti breiða opsins sem sjónaukinn horfir út um og þunga, lárétta grindin sem mun halda rennihurðunum uppi snúa að okkur. Þessi sjónauki barði alheiminn fyrst augum þann 25. maí 1998 (sjá eso9820).

Við vígslu Paranal árið 1999 (sjá eso9921) var aðalsjónaukunum fjórum gefið nafn úr tungumáli Mapuche ættbálksins. Nöfnin — Antu, Kueyen, Melipal og Yepun fyrir hvern sjónauka, frá þeim fyrsta til hins fjórða — merkja fjögur áberandi og falleg kennileiti á himninum: Sólin, tunglið, stjörnumerkið Suðurkrossinn og Venus [1].

Á nýju ljósmyndinni sést aðalsjónauki fjögur, Yepun, sem tekinn var í notkun í september árið 2000 (sjá eso0028). Hann gefur fullkomna mynd af því hvernig eldri bróðir hans lítur út enda eru allir sjónaukarnir nákvæmlega eins. Einungis mælitækin skilja á milli sjónaukanna en þau veita stjörnufræðingum fjölbreytt úrval af tækjum til að rannsaka alheiminn. Gula byggingin fyrir framan Yepun er lyfta sem hægt er að færa milli sjónaukanna. Hún er notuð til að fjarlæga risaspeglana þegar þeir eru endurhúðaðir annað slagið.

Á þeim árum sem liðin eru frá því að gamla myndin var tekin, hefur fyrsti aðalsjónaukinn hlotið nafn — Antu — en líka eignast fjölskyldu því aðrir sjónaukar hafa bæst við á fjallstindinum. Í dag er VLT öflugasti stjörnusjónauki heims fyrir rannsóknir á sýnilegu ljósi og Antu, Yepun og hinir sjónaukarnir á Paranal hafa leikið lykilhlutverk í að gera ESO að lang afkastamestu stjörnustöð heims!

Skýringar

[1] Nafnið Yepun hafði verið þýtt sem „Síríus“ á þeim tíma þegar vígsla Paranal fór fram (sjá eso9921) en síðari tíma rannsókn sýndi að rétta þýðingin er „Venus“.

Tenglar

Mynd/Myndskeið

ESO

Um myndasamanburðinn

Auðkenni:potw1249a
Útgáfudagur:Des 3, 2012, 10:00 CET

Myndir

Frá Antu til Yepun (gamla myndin)
Frá Antu til Yepun (gamla myndin)
Frá Antu til Yepun (nýja myndin)
Frá Antu til Yepun (nýja myndin)