La Silla, fyrsta stjörnustöð ESO — Fyrsta stjörnustöð ESO fyrr og nú

La Silla, the first home for ESO’s telescopes (historical image)
La Silla, the first home for ESO’s telescopes (present-day image)
Dragðu græna handfangið til að sjá myndirnar

Á þessu ári fagnar ESO fimmtíu ára afmæli sínu. Til að fagna því sýnum við ykkur svipmyndir af sögu okkar. Einu sinni í mánuði árið 2012 verður mynd vikunnar tileinkuð sérstökum „þá og nú“ samanburði sem sýnir hvernig hlutirnir hafa breyst undanfarna áratugi í La Silla og Paranal stjörnustöðvunum, skrifstofum ESO í Santiago í Chile og höfuðstöðvunum í Garching bei München í Þýskalandi.

Sögulega myndin var tekin í kringum 1970 frá gistiaðstöðunni á La Silla sem staðsett er lægra á fjallinu en sjónaukarnir. Á myndinni er horft í átt að hæsta tindi fjallsins sem er vinstra megin. Málmbyggingin á tindinum er ekki sjónauki heldur vatnstankur. Hvíta hvolfið á miðri mynd er 1 metra Schmidt sjónauki ESO sem tekinn var í notkun í febrúar 1972. Lengst til hægri, rétt fyrir ofan hrygginn, er 1 metra sjónauki ESO og vinstra megin við hann glittir í Grand Prisme Objectif sjónaukann.

Á nýju myndinni sést að gistiaðstaðan er enn til staðar og að fleiri byggingar hafa risið undanfarna áratugi. Augljósustu breytingarnar hafa orðið á tindi La Silla vinstra megin. Hæst rís 3,6 metra sjónauki ESO sem tekinn var í notkun í nóvember 1976 og er enn starfandi í dag. Á honum er HARPS litrófsritinn sem skilað hefur mestum árangri í leit að reikistjörnum utan sólkerfisins (sjá til dæmis eso1134 og eso1214). 3,6 metra sjónaukinn, sem var fyrirhugaður frá stofnun ESO, var stærsti sjónaukinn í La Silla stjörnustöðinni og kóróna hennar þar af leiðandi og þótti mikið verkfræðilegt afrek á sínum tíma. Fyrir framan hann er smærra hvolf sem geymir 1,4 metra Coudé Auxiliary sjónaukann sem bætti upp stóra nágrannann sinn.

Hægra megin við 3,6 metra sjónaukann er 3,58 metra New Technology Telescope (NTT), sem þekkist af hyrndu málmbyggingunni sem hýsir hann. NTT var tekinn í notkun í mars árið 1989 og var fyrsti sjónauki heims sem hafði tölvustýrðan safnspegil. Hann ruddi brautina fyrir Very Large Telescope en í honum voru margar tækninýjungar prófaðar sem síðar rötuðu í aðra sjónauka.

Af öðrum nýjungum á myndinni má nefna verkstæðið undir vatnstönkunum og Differential Image Motion Monitor (DIMM) sem mælir stjörnuskyggni í lofthjúpnum og stendur á stólpum milli verkstæðisins og 1 metra Schmidt sjónauka ESO.

Enn í dag eru mikilvægar uppgötvanir gerðar á La Silla. Þannig öfluðu bæði NTT og 3,6 metra sjónaukinn mikilvægra gagna sem leiddu til uppgötvunar á sívaxandi útþenslu alheimsins. Fyrir þá uppgötvun voru Nóbelsverðlaunin í eðlisfræði árið 2011 veitt.

Tenglar

Mynd/Myndskeið

ESO

Um myndasamanburðinn

Auðkenni:potw1214a
Útgáfudagur:Apr 2, 2012, 10:00 CEST

Myndir

La Silla, fyrsta stjörnustöð ESO (sögulega myndin)
La Silla, fyrsta stjörnustöð ESO (sögulega myndin)
La Silla, fyrsta stjörnustöð ESO (nýja myndin)
La Silla, fyrsta stjörnustöð ESO (nýja myndin)