Tilkynning

Helmingurinn kominn: 33 loftnet ALMA á Chajnantor

15. maí 2012

Á Chajnantor hásléttunni í norðurhluta Chile heldur flóknasta stjörnustöð jarðar, Atacama Large Millimeter/submillimeter Array (ALMA), áfram að vaxa. Þann 12. maí 2012 var enn eitt lofnet ALMA flutt upp á Chajnantor og urðu loftnetin þá í heild 33 talsins. Þar með hefur helmingi loftneta ALMA verið komið fyrir en samanlagt verða þau 66 þegar yfir lýkur árið 2013. Í þessum risaloftnetum, fimmtíu og fjórum 12 metra breiðum og tólf 7 metra breiðum, eru mjög næm mælitæki sem greina millímetra- og hálfsmillímetrageislun utan úr geimnum.

Fyrsta loftnetið var flutt upp í stjórnstöðina, sem er í 5.000 metra hæð, í september 2009 (sjá eso0935). Þessi misserin, þegar smíði ALMA er um það bil að ljúka, fjölgar loftnetunum hratt.

Loftnet ALMA eru í hæsta gæðaflokki. Hvert og eitt vegur um 100 tonn svo sérsmíðaða flutningabíla þarf til að flytja þau frá þjónustumiðstöðinni upp í stjórnstöðina, sem er í meiri hæð. Bílarnir tveir auk 25 loftneta af 66 eru meðal þess sem ESO leggur af mörkum til verkefnisins [1]. Flutningabílarnir kallast Ottó og Lorre eru 20 metra langir, 10 metra breiðir, 6 metra háir og búnir 28 dekkjum hvor. Þeir eru einnig notaðir til að færa loftnetin milli staða á slettunni. Minnst getur vegalengdin milli loftneta verið 15 metrar innan 150 metra radíuss eða allt að 16 km í sundur. Með þessu fæst breytilegt „súm“.

Fyrstu mælingar eru þegar hafnar með ALMA, jafnvel þótt öll loftnet séu ekki komin upp á Chajnantor (sjá eso1137). ALMA er öflugasti sjónauki í heiminum til rannsókna á hinum kalda alheimi — sameindagasi og ryki og eftirgeislun Miklahvells. Með ALMA rannsaka stjörnufræðingar byggingareiningar stjarna, myndun sólkerfa og vetrarbrauta og uppruna lífsins.

ALMA er alþjóðleg stjörnustöð sem byggð er í samstarfi Evrópu, Norður Ameríku og Austur Asíu í samvinnu við Chile. ESO sér um smíði og rekstur ALMA fyrir hönd Evrópu en National Radio Astronomy Observatory (NRAO) fyrir hönd Norður Ameríku og National Astronomical Observatory of Japan (NAOJ) fyrir hönd austur Asíu. Samþætt stjórnun á smíði, prófun og rekstri ALMA er í umsjá Joint ALMA Observatory (JAO).

Skýringar

[1] ESO leggur til tuttugu og fimm evrópsk loftnet fyrir ALMA samkvæmt samningi við evrópska AEM samstarfið. ALMA verður einnig búin 25 loftnetum frá Norður Ameríku og 16 frá austur Asíu.

Tenglar

Tengiliðir

Sævar Helgi Bragason
Háskóli Íslands
Reykjavík
Tel: +354 896 1984
Email: eson-iceland@eso.org 

Douglas Pierce-Price
ESO ALMA Public Information Officer
Garching, Germany
Tel: +49 89 3200 6759
Email: dpiercep@eso.org

Um tilkynninguna

Auðkenni:ann12035

Myndir

Helmingurinn kominn: 33 loftnet ALMA á Chajnantor
Helmingurinn kominn: 33 loftnet ALMA á Chajnantor